<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, júlí 31, 2006

Bloggflutningar 

Ég er eins og unglingarnir - er að spá í að færa bloggið mitt. Aðallega af því að ég haaaata blogspot. Tékk it át!

sunnudagur, júlí 16, 2006

Það var í vetur sem var farið að ræða í vinnunni hans Mumma að einhverjir færu saman í fjallgöngu, fór þar Skúli frændi minn fremstur í flokki enda algjör fjallageit. Í framhaldi af því fékk ég gönguskóna frá Mumma. Nema hvað, svo hringdi Mummi á mánudagsmorgun og tilkynnti að Skúli hefði blásið til göngu upp í Strýtu (sem ég stóð í þeirri meiningu að væri einhver fjallstoppur á Hlíðarfjalli, ofan samnefndrar brautar). Ég reyndi að víkja mér undan en allar afsakanir voru blásnar niður, svo þannig fór að við Mummi, með aðeins tveimur vinnufélögum, þeim Skúla og Brynjari, lögðum af stað í fjallgönguna miklu. Við lögðum af stað frá Fjarkanum og ég var orðin lúin svona um það bil eftir að við höfðum lokið við Fjarkavegalengdina! En nei, nei, nei, það var bara blábyrjunin. Við héldum áfram, fórum sunnan við Strýtulyftuna og gengum bara sem leið lá upp, yfir urð og grjót, upp brattar brekkur, með stoppum hér og þar, til að ég færi ekki yfir um. Fengum okkur vatn úr lækjarsprænum á leiðinni eins og alvöru útilegumenn. Eftir miiiikið erfiði komumst við á topp Hlíðarfjalls - sem er rúmir 1100 metrar. Ætluðum að halda áfram, alla leið að Strýtu (sem er sem sagt annað fjall, svona bakvið - sjá neðstu mynd) en sáum fram á talsvert mikið lengri göngu - svona tvo tíma og ákváðum að halda til baka. Þá vorum við stödd á Vindheimajökli. Gengum aðeins til norðurs og komum talsvert norðan við Strýtubrautina - á næst neðstu mynd má sjá Skúla og Brynjar reyna að finna niðurgöngu sem er fær. Það er alveg svívirðilega bratt þarna á köflum enda var óheyrilega erfitt að labba niður. Það tókst samt fyrir rest og gönguferð sem tók vel á sjötta tíma að baki. Við Mummi bæði búin að slá hæðarmet og orðin heldur framlág. Hins vegar höfum við borið barr okkar furðu vel eftir á og enn eru litlir sem engir strengir farnir að gera vart við sig. Mummi er hins vegar vel roðasleginn á höndum.

PS Ekki von að maður seti sjaldan inn myndir - tekur óratíma. Það er svona þegar maður þarf að fótóshoppa sig sætan.

Ein spurning 

Er blogger afar illa við að maður noti paste?

miðvikudagur, júlí 12, 2006

Hjónakornin snemma ferðar - ótrúlega spræk 


Geiturnar sem fylgdu okkur 


Ég - also known as Garp 


Göngugarparnir 


miðvikudagur, júlí 05, 2006

Í fréttum er þetta helst 

As if - það eru engar fréttir hér. Þess í stað mun ég færa ekki-fréttir af ástandi heimsmála í dag.
Hér er officially dagur 3 í leikskólafríi Sóleyjar. Ég hef sett mér þá stefnu að fara með hana út á hverjum degi. Á mánudag fórum við í sund eftir laaaaangt hlé vegna alls kyns veikinda. Sú stutta heldur betur sátt. Renndi sér í fyrsta skipti alein í gulu rennibrautinni og ferðirnar urðu ansi margar. Mér til mikillar gleði því ég slapp þá við öll hlaup eða svona að mestu. Fórum reyndar þrjár ferðir í stóru. Samt munur að þurfa bara að taka á móti. Í gær tókum við andapollinn og rosa rúnt í Dýraríkið og þaðan upp í kirkjugarð og boy oh boy, formið er dapurt. Það var með mikilli mæðu að ég hafði Lækjargilið.
Í dag hafa verið stanslausar heimsóknir en ég býst frekar við einhverri útiveru seinni part, enda er hlýtt og gott.

Úr kisuheimum er það helst títt að kettirnir eru hættir að sinna einu skyldu sinni - að halda heimilinu flugnafríu. Vaknaði í nótt við eina afar aðgangsharða, langt síðan það hefur gerst. Það verður greinilega að draga saman í matargjöfum og athuga hvort þeir fara ekki að standa sig. Ég held að Prinsi sé samt endanlega orðinn senior citizen. Hann bifast varla lengur. Ég reyndi að siga honum á flugu áðan og hann varð illa hneykslaður á mér. Maður er nú orðinn sjö ára! (hann ætlar greinilega að passa sig á að ofreyna sig ekki þessi síðustu æviár).

sunnudagur, júní 25, 2006

Rómó brúðkaupsafmæli 

Við áttum sem sagt sex ára brúðkaupsafmæli í gær. Átti að taka daginn með trompi og það gekk svo sem framan af. Fengum Árnýju, Hjörvar og dætur í heimsókn, sú stutta tók feimnisatriðið sitt í smá stund en það rann síðar af henni. Eftir heimsóknina tókum við gott rölt, reyndum að enda hjá Gylfa en þar var enginn heima. Síðan var farið frameftir í kaffi á Munkaþverá. Reyndum mikið að finna pössun til að geta farið út að borða en það var gjörsamlega vonlaust. Öll familía Mumma úr bænum og mín óínáanleg. Nema hvað, þegar við komum heim er ljóst að Strumpan er orðin lasleg, var mæld með yfir 39 stiga hita og við fórum og lögðum okkur saman. Síðan vaknaði hún eftir góða stund, þá komin með yfir 40 stiga hita og svo augljóslega mikið lasin. Kvartaði um magapínu og endaði á því að gubba. Þá leist mér ekkert á og hringdi á lækni og við enduðum á sjúkrahúsinu. Þar var frökenin skoðuð hátt og lágt en ekkert fannst. Það bráði líka vel af henni og hún var orðin hin hressasta og vel spjallfær, þangað til við vorum útskrifuð - með þau ummæli að þetta væri líklega bara magapest - þá gubbaði hún aftur. Við fórum samt heim, með þeim fyrirvara að við gætum komið aftur ef eitthvað væri. Strumpan fór beint í háttinn og sofnaði strax, en við fengum okkur Greifa pizzu og bragðaref - til að gera okkur einhvern dagamun. Nóttin var óróleg með gubbi og stílum á víxl og sú stutta hefur legið fyrir í dag, enn með háan hita en ekkert gubb. Svona fór um rómantíkina!

fimmtudagur, júní 08, 2006

Það er komið sumar 

eða þannig og sól í heiði skín. Hér er mestu törninni að ljúka - lauk við að gefa einkunnir um miðnættið í gærkvöld. Mikið framundan - ættarmót hjá Mumma slægt um helgina og síðan DK og Svíþjóð - júúhúuuú, ég verð í Köben eftir 5 daga! Fæ aðeins að rölta um danska grund, einn dag eða svo, síðan er haldið yfir til Svíþjóðar til að skerpa aðeins á sænskunni og kannski í leiðinni að flikka upp á bústaðinn og heilsa upp á gamla vini í HogM og Kappahl ;)

Alltaf verið að spá og spekúlera með GM ferðina í nóvember. Nú var ég að leigja íbúð undir liðið á Österbro með útsýni til Svíþjóðar, svona á góðum dögum amk. Kostar skid og ingenting, sem er náttúrulega bara gott eftir að hafa splæst slatta *hóst* í tónleikamiða.

Einræðisherrann aðeins rólegri þessa dagana. Væntanlega bara til að plotta næsta áhlaup á foreldrana. Það hlýtur eitthvað að koma. Hún er nýlega búin að uppgötva Prumpulagið, mér til mikillar mæðu, mér sást yfir að það væru mistök að leyfa henni að heyra það. Mikil lukka á bænum (einbúabænum) með þetta fína lag - enn finnst mér svoldið skondið að hlusta á hana syngja það, en það bráir væntanlega af mér fljótt.

sunnudagur, maí 28, 2006

Det er i live 

Ég hef tiltölulega lítið setið við tölvu og þ.a.l. ekkert bloggað heldur. Enda er nóg að gera. Hef lokið störfum við VMA - svona að nafninu til - það bíður að vísu óhugnarlegur stafli á vinnuborðinu :)
Vinnan í MA gengur. Próf á föstudaginn var sem ég fæ að dunda mér við næstu daga. Fæ svo að vera prófdómari í munnlegum prófum á miðvikudag. Það verður skondið.

Vorum í foreldraviðtali vegna Strumpu á mánudaginn var. Það var allt í besta lagi. Könnuðumst svo sem við ýmsar lýsingar en í heildina afar jákvætt og ekkert hægt annað en að vera montinn. Ég ræddi lítillega við hana á heimleiðinni eftir viðtalið og lýsti því að henni hefði verið hælt mikið en að Anna Bára hefði samt sagt að hún væri stundum óþæg. Sú stutta skipti snarlega um umræðuefni. Þetta var henni ekki að skapi.
Hér heima er hún reyndar að reyna að stofna einveldi. Eitthvað streitist gamla settið á móti svo þetta gengur ekki alveg eins smurt og hún vildi. Mikið verður gaman í júlí að fá að díla við hana 24/7 í heilan mánuð!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?