<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, nóvember 30, 2003

Góður dagur í dag. Ekki það að ég lít enn út eins og Grýla og þarf eflaust að þola það eitthvað áfram.
Nei, ég afrekaði það að fara yfir ritgerðabunka og senda einkunnir. Búið að hanga svolítið yfir mér og þá er alltaf léttir að vera laus.

Ég fékk líka þau góðu tíðindi að systir kemur líklega heim um jólin, eftir allt saman, ég var nú búin að afskrifa það.

Tókum svo syrpu í jólamyndatöku af Sóleyju. Það hefði verið hægt að taka endalaust af myndum, hún er fædd í módelstarfið. Þannig að ég lofa góðri jólakortamynd í ár.

Stefnan er tekin á Finding Nemo í kvöld (án dóttur... :) Um að gera að velja myndirnar vandlega þegar maður fer sjaldan. Ég er að minnsta kosti spennt. Höfðum meira að segja úr tveimur myndum að velja, mig langar nefnilega að sjá myndina með Haley Joel Osmond - sea more lions eða hvað hún nú heitir - ég kalla hana bara sea lions.

laugardagur, nóvember 29, 2003

Það fór lítið fyrir bloggi í gær. Einhvern veginn er það svo að ég nenni sjaldan að blogga þegar Sóley er vakandi enda finnst henni afskaplega sinnulaust af móður sinni að fara lengi í tölvuna í einu og lætur hana óhikað vita.

Í gærkvöldi var svo hið árlega baksturskvöld Sörusystra. Eins og nafnið gefur til kynna er verið að baka Sörur og félagsskapurinn samanstendur af nokkrum núverandi og tveimur fyrrverandi kennurum Síðuskóla. Þetta er alltaf mikil gleði. Í gærkvöldi fékk einn Sörubróðir að fylgjast með bakstrinum, til að læra af "meisturunum" og dáðist hann mikið að þeirri þýsku nákvæmni sem einkenndi alla vinnu. Hver maður gekk að sínum stað og sínu starfi og svo var bakað af miklum móð. Sökum græðgi (í ár var ákveðið að baka tvöfalda uppskrift) tók þetta nokkuð langan tíma og ég var ekki komin heim fyrr en hálf þrjú, þá orðin býsna framlág. Hafði þurft að þola háðsglósur allt kvöldið vegna þess að ég skartaði nýju útliti. Eitthvað á milli fílamannsins og konunnar sem fór í of mikla sílikonvaraupplyftingu. Kvefið sem hafði plagað mig síðustu daga náði nefnilega hámarki þegar ég fékk svo mikið sem fimm frunsur. Það var rétt svo að ég hefði mig í að mæta, svo marið var sjálfstraustið.

Ekki lít ég betur út í dag. Ég fór að sækja afraksturinn klukkan tólf og núna eru þær orðnar frunsur dauðans (eða svona meira eins og formæður allra frunsa...) En í Pollýönnuleiknum gladdist ég yfir ýmsu. Í fyrsta lagi lít ég ekki svona út dagsdaglega. Allt í einu fannst mér sem hin hversdagslega Hafdís væri gullfalleg og mjög aðlaðandi. Reyni að muna það nokkra daga fram yfir frunsurnar. Í öðru lagi gladdist ég yfir öllu sem ég var ekki að gera. Ég var ekki að gifta mig, ég var ekki að kenna 30 manna bekk og fleira og fleira. Samt langaði mig mest til að fara huldu höfði. Ég hafði hins vegar hugsað mér að fara með Sóleyju niður í bæ til að sjá jólasveinana og ákvað að herða upp í mér og koma mér upp skýluklæðnaði. Þannig að við fórum niður í bæ, ég með trefil upp að nefi og dugði varla til, en kom sér reyndar líka vel með tilliti til heilsunnar að öðru leyti. Nema hvað, dóttirin, sem átti að njóta jólastundarinnar, sofnaði í bílnum á leiðinni í bæinn og vaknaði ekki þó hún væri tekin út úr bílnum og gengið með hana inn á torg. Hún sá því engan jólasveininn að þessu sinni. Ég huggaði mig við það að það kemur væntanlega jólasveinn eftir þennan!

Framundan er svo sælkerastund (það er jú nammidagur :) ) með nýmöluðu kaffi og gæðaSörum. Ekki fallegum, en ákaflega ljúffengum.

fimmtudagur, nóvember 27, 2003

Þá eru það loksins kisusögur og ekki annað hægt þegar maður hefur þennan titil.
Enda fátt annað hægt í dag, þar sem ég er ekki heil heilsu og hef ekkert farið út fyrir hússins dyr.

En þannig er mál með vexti að inni í tölvuherbergi er gamla dýnan okkar. Hún er reist upp við skenk svo það sé hægt að ganga um og kisurnar eru svona óskaplega lukkulegar með þetta. Og það er ekki ferðast í hoppum upp á hana, neinei, það er miklu skemmtilegra að spássera upp og niður, eða þegar mikið liggur við, hlaupið upp og niður. Með tilheyrandi klóruförum. Og af og til dettur dýnan að sjálfsögðu niður, þegar sérlega mikið hefur gengið á. Nú gæti einhver sagt að það sé lítið mál að geyma dýnuna bara annars staðar - við erum jú með stóra og mikla geymslu. En nei, fyrir það fyrsta er þetta svo ljómandi þægilegt ef við skyldum einhvern tímann fá fólk í gistingu, þá er ekkert að gera nema smella dýnunni á gólfið (eða fá kettina til að gera það). Í öðru lagi er geymslan ekki vel fær um að taka við meira drasli. Það er nú fyrst og fremst allt barnaviðhengið sem fyllir hana en ef einhvern vantar svartan sjónvarpsskáp, svart hornborð (60x60 minnir mig) eða hvítt tölvuborð þá má viðkomandi snúa sér beint til mín. Kannski ættum við líka að hætta að kaupa húsgögn án þess að losa okkur við þau gömlu fyrst.

Talaði svo við Önnu vinkonu í kvöld. Eitt af þessum símtölum sem hafa verið lengi að fæðast. Enda stóð það í einn og hálfan tíma. Neyddist þar af leiðandi til að taka upp Lars Ulrich. En á hann þá til góða yfir kaffinu og súkkulaðinu á eftir (já já, lúxusgrís, ég veit...)

miðvikudagur, nóvember 26, 2003

Afmælisbarn dagsins er Sigrún. Hún er 29 ára í dag og stendur þess vegna frammi fyrir voðalegu ári, svona aldurslega séð. Ég kveið að minnsta kosti mikið fyrir því að verða þrítug. Kannski aðallega vegna þess að ég vissi ekkert hvernig ég ætti að halda upp á það. Lífið hefur verið auðveldara síðan. En til hamingju með afmælið. Þú lætur bara vita ef þú þarft stuðning frá þér eldri og reyndari.

Það var aftur tannadagur í gær. Nú kom sú sjöunda, að þessu sinni í neðri góm til vinstri. Eins gott að það er enginn tannálfur á heimilinu. Sá væri fátækur núna. Ég var að minnsta kosti viðbúin því þegar ég var að skoða allar nýju tennurnar í fyrradag, fann ég að það styttist í þessa.

Jólin hafa svo færst örlítið nær. Í gær settum við upp aðra jólaseríuna sem skreytir íbúðina okkar að utan. Við erum ekki þetta jólaskreytingafólk en neyðumst til þess að vera þæg fyrst við búum í fjölbýli. Erum reyndar búin að vera með leiðindi hver jól síðan við fluttum inn, því fyrstu þrjú árin var skreytt með ljótum rauðum perum - þið vitið, þessum gömlu. Við neituðum að kaupa svoleiðis og skreyttum því ekkert. Í fyrra var svo ráðist í að kaupa nýjar skreytingar á húsið en það var ekki gert fyrr en seint og síðar meir og við nenntum ekki að hengja þær upp fyrir tvær vikur eða svo. Þannig að loks geta nágrannarnir tekið okkur í sátt, nema þeim leggist eitthvað annað til.


mánudagur, nóvember 24, 2003

Eins er tryggir lesendur vita, var lokahóf Nikolaj og Julie í gærkvöldi. Ég gerði þennan dýrindis eftirrétt, algjöra bombu, með marengs, rjóma, kókosbollum, berjum og súkkulaði. Og át eins og grís. Sem betur fer var Kristín líka dugleg, það er ekki gaman að vera eini grísinn. En það eru ekki lokahóf um hverja helgi. Vona bara að RÚV sýni síðustu syrpuna fljótlega. Þetta er um það bil það eina sem þeir eru að sýna af viti.

Afmælisbarn dagsins er Gylfi frændi. Hann er 59 ára í dag. Ég gerði tilraun til að heimsækja hann, en hann var ekki við svo ég tók Eyþór í dönskukennslu í staðinn.
Merkileg þessi árátta í ættinni að hafa afmæli þétt. Við Anna systir erum 28. og 31. ágúst. Unnur og Dúddi 11. og 13. maí, Aðalsteinn og Árný 2. og 8. október. Hauks börn eru í raun þau einu sem eru sitt í hverjum mánuðinum öll þrjú. Hvað þá mamma og hennar systkini. Þrjú í nóvember. Annars er þetta svona í flestum fjölskyldum held ég. Það er alltaf einhver mánuður yfirhlaðiðnn afmælum á meðan aðrir eru nánast afmælislausir. Hjá okkur er mikið álag frá ágústlokum til nóvemberloka og talsvert í febrúar.

Af fröken er það að frétta að það eru komnar tvær nýjar tennur. Alveg týpískt að ég var að tala við Önnu Steinu í dag og segja henni það helsta af frænku en þá vissi ég ekkert af tönnunum. Þó hafði Sóley ítrekað tekið í fingurinn á mér og stungið honum upp í sig. Svo þegar við fórum út að ganga, þá brosti hún svo blítt til mín og þá komu tvær nýjar í ljós í efri góm. Þar af önnur aðeins neðar svo hún hefur líklega komið í gær eða fyrradag. Svona er ég kærulaus. Það er svo stutt síðan seinni aðal tönnin kom að ég var alveg róleg.

Survivor þáttur dagsins vonbrigði. Say no more.

sunnudagur, nóvember 23, 2003

Eitthvað er nú blogger að stríða mér núna og er ekki enn búinn að birta færslu gærdagsins. Ég reyni að taka þessu með stóískri ró.
Annars er Svansý búin að blogga eftir langa bið. Ekki það að við séum mjög kunnugar, en hún er nú samt ein af fáum sem ég les reglulega. Ég minnist bara á þetta af því að hún nefni Leoncie. Við hjónin horfðum nefnilega líka á hana í gær, af miklum áhuga. Ég var einmitt að spá í þessu með aldurinn en ég verð að viðurkenna að mig grunaði að hún væri farin að síga á seinni hlutann. Hins vegar finnst mér útlitið benda til þess að eitthvað hafi verið flikkað upp á það, enda andlitið stíft og haggaðist ekki, sömuleiðis voru brjóstin mjög frískleg en það er svo sem hægt að bjarga því með ýmsum ráðum. Ég hafði mjög gaman af viðtalinu. Gísla Marteini tókst svo ljómandi upp að tala við hana á hennar plani, ég vona að ég sé ekki að ofsækja hana þó ég segi það vera tíu ára plan. Hún virðist vera á góðri leið að verða að kult fyrirbæri, er að minnsta kosti alls staðar þessa dagana. Gott mál, maður hefur eitthvað til að kætast yfir á meðan.

Þannig fór nú það. Þeir sem ekkert vilja vita um Popppunkt stoppa að lesa hér - má halda áfram við greinaskilin. Annað laugardagskvöldið í röð endar þátturinn á bráðabana og hljómsveitin, sem ég held með, tapar. Bömmer. Annars skil ég ekki doktorinn með liðinn "hljómsveitin spreytir sig". Hann er ekki að höndla að gefa mismörg stig nema í afar fáum tilfellum og því finnst mér þetta detta um sjálft sig. Kannski að hafa þetta sem almennan skemmtihluta, en ekki til stiga. Í kvöld var Trabant með ljómandi útgáfu á "Spáðu í mig" á meðan Risaeðlan var með glataða útgáfu á "Higher and higher", það eina sem bjargaði henni var frábært flautusóló.

Fyrst ég er á annað borð að ræða sjónvarp, verð ég að kommenta aðeins á ídólið í gær. Ég skil ekki þá keppni þar sem Alma Rut kemst ekki áfram. Ég skildi það ekki í fyrri þættinum sem hún var í og hvað þá í gær. Vissulega er Jón Sigurðs geðugur náungi en Alma var margfalt flottari. Ég er mjög spæld. En núna þegar allir keppendurnir í lokahópnum eru komnir áfram þá er kannski hægt að fara að spá í lokin. Ég sé Önnu Katrínu og Helga Rafn pottþétt vera til loka, hugsanlega verða það bara þau tvö sem keppa til úrslita. Kalli sjómaður fer sennilega langt en dugar ekki. Vala dettur frekar snemma út því hún er svo umdeild, þó mér finnist hún flott. Ætli Blönduóss-pían detti ekki fyrst út?

Í dag fórum við í ekta sveitahlaðborð hjá ömmu hans Mumma. Þá er ég að tala um kleinur, soðiðbrauð, vöfflur, muffins, döðlubrauð, marmaraköku og gulrótarköku. Við hefðum varla þurft að elda kvöldmat en höfðum samt ótrúlega stjórn á okkur. Sóley fór á kostum. Það var nefnilega allt stútfullt af krökkum, fimm stykki, öll fjögurra ára og yngri. Hamagangur á Hóli. Hún fór, með aðstoð pabba síns, í eltingarleik og skemmti sér konunglega.


föstudagur, nóvember 21, 2003

Afmælisbarn dagsins er Gummi frændi. Hann er 55 ára í dag. Til hamingju með afmælið Gummi!
(Af einhverjum ástæðum var ég fyrst af bloggfjölskyldunni til að nefna þetta, kannski af því að enginn býst við að hann lesi þetta).
Kannski hann ætli að skella sér á Palla í tilefni dagsins?

Tækifærið ykkar sunnanlands er komið. Páll Óskar og Monika verða með tónleika í kvöld og á sunnudagskvöld í Háteigskirkju. Þetta lætur enginn ógalinn fram hjá sér fara.

fimmtudagur, nóvember 20, 2003

Ég var ekkert að ræða það í gær hvað við Palli höfum átt samleið lengi. Við fögnum nefnilega tíu ára afmæli um þessar mundir. Ég keypti "Ljúfa líf" á útgáfudegi fyrir réttum tíu árum og síðan hef ég ekki skilið við hann. Vissulega fer hann ýmsar leiðir sem ég er ekki sammála. Ég var til dæmis aldrei hrifin af Paul Oscar - nema auðvitað í útlandinu að heilla Evrópu. En flest annað hefur náð til mín. Ég á alla diska með honum og hann og Monika eru toppurinn hingað til, þó svo "Palli" hafi verið eins og sending frá himnum á sínum tíma. Nú þarf ég bara að ala dóttur mína upp í góðum siðum

Ég fann mikið fyrir því í gærkvöldi hvað ég hlakka til að geta farið á svona viðburði með hana. Kannski endar þetta með að hún verður á eilífu mótþróaskeiði og vill ekkert fara. Ég fer meira að segja reglulega á kaffihús með hana, bara við tvær í svona mother/daugther stemmingu.
Ehemm, kannski bara afsökun hjá móðurinn til að fá sér væna tertusneið...

Annars lykta ég af kleinum. Búin að snúa þeim nokkrum í dag og steikja þær flestar líka. Fékk kleinupoka með heim í laun. Verst að þarna fer planið mitt um að fara í bað og snemma að sofa, því ég þarf að bíða eftir að Mummi komi heim úr stærðfræðikennslunni þannig að við getum fengið okkur kaffi og kleinur.

Ungbarnasundið var ljómandi. Þau feðgin skemmtu sér sérdeilis vel. Ég held að Sóley hafi verið í montstuði að sýna pabba gamla allt sem hún hefur lært síðan hann kom síðast með. Og hún slapp við öll samskipti við sundkennarann, snéri sér bara að pabba sínum þegar hún ætlaði að tala við hana.
Áhættuatriðin eru farin að ganga betur. Þau eru til dæmis að hoppa á kaf í fanginu á mömmu og kafa á bakinu á mömmu. Hingað til ekki vakið mikla lukku, en þetta er allt að koma.

Og enginn leshringur. Það var svona sambland af pössunarvöntun og bílaskorti sem varð til þess að ég sleppti því að mæta, þetta var stofnfundur og ég vona að það hafi ekki verið einhver dularfull vígsluathöfn, sem er nauðsynleg til að fá að vera með. Mig hefur alltaf langað til að vera í leshring. Þarna á reyndar að takmarka sig við glæpasögur en ég held að ég lifi það af. Maður las nú líklega Stephen King og Agöthu Cristie hér í denn.

Að lokum. 18. des reddað. Búið að fá miða í forsölu. Gleði, gleði.

Tónleikarnir sviku ekki. Diskurinn lofar verulega góðu. Ég er reyndar frekar fastheldin á jólalög og fagna svo sem ekki nýjungum. En við splæstum í hann eftir tónleika.
Kirkjan smekkfull, það þurfti að bæta við auka stólum. Gott að Akureyringar eru svona þakklátir þegar fyrstu útgáfutónleikarnir eru haldnir hér. En ömurlegt hljóð og þetta er einmitt þannig tónlist að það truflar alveg ferlega. Diddú stendur líka alltaf fyrir sínu. Ég mæli með því að fólk skelli sér á tónleika ef tækifæri gefst. Annars kaupa diskinn. Harpa og jólalög, blanda sem varla getur klikkað.

Annars fékk Sóley gjöf í dag frá ömmu sinni. Forláta kápu, rauða, tvíhneppta. Notist eftir ca. ár. Sú verður stássleg. Ég hlakka til að sjá hana í henni.

Heilmikið prógramm á morgun. Kleinubakstursaðstoð, ungbarnasund, leshringur. Ef ég ruslast.

miðvikudagur, nóvember 19, 2003

Og þá er mánuður í forsýningu á Lord of the Rings. Fögnuðum því með viðeigandi hætti og horfðum á The Two Towers, special edition í boði Bjarna, eftir dýrindis máltíð, einnig í boði Bjarna en framreidda af Mumma. Verð samt að játa að ég sofnaði ögn yfir myndinni. Hún var samt firnagóð. Skandallinn er sá að við klikkuðum á að horfa á fyrstu myndina til að hafa þetta almennilega upphitum fyrir Return of the King.

Svo stendur nú enn meira til á morgun. Tónleikar með Palla og Moniku. Jummjumm. Slagar hátt upp í Óskar! Maður verður að fá sér þennan disk. Mér finnst að vísu full snemmt að fara að hlusta á jólalög en ég er samt að meyrna heilmikið. Að minnsta kosti angra skreytingarnar á Glerártorgi mig með minnsta móti í ár. Þetta endar með ósköpum. Kannski maður skreyti bara heima hjá sér einn daginn??

Og svo er það Eyþór minn. 8.4 í prófinu (ég veit ekki alveg á hvaða hraða þessir Lundaskólakennarar fara yfir - sennilega hefur þetta verið með stysta móti) og annað próf í næstu viku, búið að panta annan tíma. Gott að rifja Vi ses upp. Ég verð bara að fara að syngja Kylling og soft ice og pølser fyrir hann. Hann fékk einmitt smá eitís lánað í gær. Guns n Roses. Ég fann reyndar ekki Appetite, við áttum að eiga hann líka. Enn eitt dæmið um hlut sem húsið hefur gleypt.

mánudagur, nóvember 17, 2003

Ég hef varla farið út úr húsi í dag. Vissulega þessa daglegu göngu (þegar veður leyfir) með fröken og svo smá skrepp, en annars einn af þessum dögum þar sem maður er algjör innipúki. Hafði mig upp í að senda kennaranum mínum bréf í dag og tilkynna um að ég væri hætt. Þá er öllu fargi af mér létt í sambandi við námið. Það er alveg ótrúlegt hvað mér finnst ég vera frjáls núna. Eiginlega skrýtið, því ég sinnti náminu aldrei á daginn en það munar að það hvíli ekki á manni að maður eigi eftir að gera eitthvað. Og nú get ég horft á sjónvarp án samviskubits. Ég er að verða hinn mesti sjónvarpspúki. Á mánudögum er það Survivor alveg fast. Eins og flestir aðrir held ég mikið upp á Rupert en hins vegar er það algjör nýlunda að það eru margir aðrir sem ég get unnt þess að vinna. Eiginlega líkar mér bara illa við Jon, svo eru nokkrir á gráu svæði, en ég kann mjög vel við Lill, Rubert, Söndru og Christu, og í raun ágætlega við Burton. En ég get varla gert upp á milli Ruperts og Lill, þau eiga bæði skilið að vinna. Það verður fróðlegt að sjá hvaða stefnu þetta tekur.

Ég fékk heimsókn í dag og það telst til mikilla tíðinda. Kristín kom með Svein Áka, langt síðan börnin okkar hafa hist þó svo við séum í Nikolaj og Julie klíkunni. Sveini Áka leist vel á margt dót og skoðaði margar bækur af áhuga og tók held ég sýnishorn af flestum dýrahljóðunum sínum. Það flottasta var án efa fíllinn, enda fæst börn sem taka hann. En honum var ekkert alltaf vel við Sóleyju. Framan af var hún í göngugrindinni og var hvað eftir annað nánast búin að aka hann niður. Þegar hún hætti í grindinni vildi hann gjarnan fá smá salíbunu í henni en er líklega of stór. Samt hefði verið gaman að sjá það. Þegar hann fór heim kyssti hann Sóleyju bless og það var skandall að hafa ekki myndavélina tilbúna því þetta var ósköp sætt. Það lá líka við að hún kyssti á móti en svo var meira freistandi að klípa í hann og reyna að ná bókinni sem hann var með.

Og svo fékk ég líka Eyþór frænda í heimsókn. Hann er að fara í dönskupróf. Og þar sem við náðum svo góðum árangri síðast (hann fékk 9.8 þegar ég aðstoðaði hann í haust) þá kom hann aftur til að taka þetta með trompi. Arnheiður kom með og Sóley var í sínum versta ham og gólaði bara á hana. Hún er að verða svolítið uppástöndug, en það var reyndar gífurleg seinnipartsþreyta í henni og hún fór reyndar í rúmið upp úr sjö og var sofnuð hálf átta. Svo það er ekki von að maður láti eins og flón.

sunnudagur, nóvember 16, 2003

Loksins kom svona ekta helgardagur, þar sem var ekkert stress og æðibunugangur. Tókum loks af skarið með að festa upp krækjur í þakskeggið fyrir komandi jólaseríu. Það hefur staðið til ansi lengi og tók ekkert langan tíma þegar það var gert. Í leiðinni sinntum við smá vetrarverkum, sem hefði mátt gera fyrr, settum inn hjólin og garðhúsgögnin. Gott að vera búinn að því.

Lentum í vöfflukaffi hjá tengdamömmu, ekki ónýtt það. Sóley er alltaf að fá að smakka góðgæti, um síðustu helgi voru það pönnukökur í lange baner og nú vöfflur. Það veitir ekki af því hún er í fitubúðum. Já, Fat camp er orðið að nýju hugtaki. Núna er það notað um litlar stúlkur sem bæta ekki nógu hratt á sig. Svona er það. Mér finnst Sóley ljómandi braggarleg og það gekk ágætlega að gefa henni að borða. Svo kemur þessi Salómonsdómur í ungbarnaeftirliti, hún er ekki að fylgja sinni kúrfu, gjöra svo vel að fita barnið. Þannig að það eru máltíðir allan daginn núna, og matartímar hafa breyst í tortúr, þar sem henni er gefið að borða eins og einhverjum aligrís og ekki hætt fyrr en flæðir út. Nú á að skora feitt.
Bjarni kom svo í mat í Fat camp en slapp betur en Sóley. Hálfgerður jólailmur í húsinu samt, hér var eldaður léttreyktur hryggur og minnir á gamla tíma. Mummi gerði tilraun að hætti Jóa Fel og eldaði nautalundir í Teriyaki sósu í forrétt.

Besti bitinn fór samt í Prins Valíant. Það átti nefnilega að gera vel við dömuna í Fitubúðunum og við keyptum lambalund. Geri ég þá ekki þau leiðu mistök að gleyma lambabita, nota bene hráum, uppi á bekk. Svo heyrir Mummi urr og hvæs úr eldhúsinu og þá var það Prins að vernda bráðina fyrir aggressívum köttum. Og þá var ekki hægt að bjóða fröken upp á hana, svo kettirnir (lesist: Prins) fengu lambalund í kvöldmat. Það reddaðist þó með dömuna því það leyndist annar biti inni í ísskáp.

Sunnudagskvöld eru bestu kvöld vikunnar. Það eru nefnilega Nikolaj og Julie kvöld hjá mér og Kristínu. Sannkölluð dönskunördakvöld. Þættirnir tóku nýja og óvænta stefnu í kvöld og ekki gott að segja hvernig fer í lokaþætti þessarar seríu næsta sunnudag. Það verður auðvitað að halda lokahóf til að slútta þessu almennilega. Pabbi hennar Kristínar var í heimsókn og þess vegna teygðist á heimsókninni. Hann hefur nefnilega gaman af því að spana mann út í rökræður og ekkert nema gaman að því. Svo viðkvæmu málin voru aðeins rædd í kvöld, trúmál og miðlar og sýndist sitt hverjum. Mummi hefði sómt sér vel í þessum hóp.

laugardagur, nóvember 15, 2003

Og þá kemur vonandi fallega færslan sem á erfiða fæðingu. Það var í fyrsta lagi hillan sem kom í hús í dag og Mummi fékk heiðurinn af að setja saman. Hún kemur svona ljómandi vel út, allir DVD diskarnir hýstir þarna og pláss fyrir meira. Stofan þurfti aðeins á breytingu að halda til að nýju hillurnar kæmust fyrir en hún tekur býsna lengi við. Næstum eins og geymslan sem einnig gengur undir nafninu Svartholið.
Nú er ég að hlusta á Til eru fræ - þá dettur mér annars vegar afi í hug - það er bara indælt, en svo minnir þetta mig líka á Dúdda og Ágústu og það er frekar sorglegt.

Í dag fórum við í sveitina. Það telst bara til tíðinda af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna þess að á leiðinni þangað fór ég að spá í hvernig það væri, ef ég gæti altíeinu og óforvarandis keypt mér hús, hvort myndi ég kaupa húsið hennar ömmu (aðallega fyrir Mumma og Önnu Steinu) eða fá mér hús í sveitinni. Þetta er svo erfitt val að ég er nánast þakklát fyrir að þessar aðstæður koma ekki upp.

Hins vegar var það heimferðin. Hún var eins og klippt út úr fallegri náttúrulífsmynd. Það var svona týpískt Akureyrarvetrarveður, frost og stilla. Það óvenjulega var tunglið. Þegar við vorum komin svo sem eins og að Gröf (það þekkja allir Eyjafjarðarsveit, er það ekki?) blasti það við, svona eins og til hliðar við nyrstu fjölinn í firðinum (vestan megin). Það var ógnarstórt, svolítið gult og smá skýjahula yfir. Mumma fannst þetta vera eins og Death Star (2). Þegar nær Pollinum dró, var tunglið eins og í mynni fjarðarins og speglaðist í Pollinum, eins og Vaðlaheiðin og Akureyrin sitt á hvað. Ég held að ég hafi sjaldan séð tunglið og umhverfið flottara en þarna og ekki nema fyrir hörðustu sálir að falla ekki í stafi. Eða þannig.
Popppunktur bjargaði svo kvöldinu. Ég gerði nefnilega þau leiðu mistök að byrja að horfa á Breakfast club - á þetta ekki að vera eitthvað meistaraverk? Alveg klénar persónur og Emilio vægast sagt ekki sannfærandi íþróttastjarna. Yfir Popppunkti voru svo pönnukökur að hætti Mumma (Hafdísar og Vilkó), gerist ekki betra. Verst var að það var hörmungarsveitin Vínyl sem vann, mínir menn að þessu sinni voru Á móti sól - þó ég sé ekki mikið fyrir gleðisveitir. Og Felix átti mismæli ársins þegar komið var að liðnum Hljómsveitir "sprautar" sig!! Viljandi eður ei.

Ætlar allt að mislukkast núna? Ég er búin að gera tvær tilraunir til að skrifa skýrslu dagsins og fæ bara publish unsuccesful eða eitthvað álíka. Það er óvinátta í uppsiglingu.

föstudagur, nóvember 14, 2003

Skemmtilegur seinnipartur í dag. Eftir ungbarnasund, þar sem unga frökenin hélt áfram að sýna sundkennaranum óvinsemd, var farið í stutta heimsókn til langömmu og svo í verslunarleiðangur. Og það kom í ljós að það væri auðveldlega hægt að eyða nokkrum hundraðköllum. Ég veit ekki hvort það var sjálfstjórnin eða plássleysið sem kom í veg fyrir meiri háttar kaup, hallast þó að því síðast talda. VISA kortið var að minnsta kosti sem hinn auðmýksti þjónn til þjónustu reiðubúinn. Við keyptum samt eitt húsgagn í tveimur eintökum. Duttum niður á svo ágæta hillu sem fær að hýsa DVD diskana okkar. Skúffurnar taka ekki lengur við. Hillan var sem sagt keypt í tvíriti en kemur ekki í hús fyrr en á morgun, það er ágætt, ég nenni ekki að setja saman húsgögn í kvöld.

fimmtudagur, nóvember 13, 2003

Í gærkvöldi fór ég allt í einu að spá í hvað Óli bróðir myndi segja um þessa tilraun mína. Ég hef víst tjáð mig ansi hreint út um blogg og bloggara...og það ekkert á jákvæðu nótunum. En hey - þetta er að vísu drengurinn sem þykist ekki vera bloggari - hann er bara að skrifa dagbók!

En vissulega, hvað er ég að spá, eftir að hafa verið ótæpilega á móti þessu? Réttlætingin mín er að einhverju leyti sú að ég þykist ekki vera í leit að athygli (!) eða að vonast til þess að komast að í einhverri útvalinni blogg-klíku. Ég ætla sem sagt ekki að fara að vísa í hina og þessa bloggara sem ég les og vonast til þess að þeir geri það líka við mig. Enda les ég frekar fá blogg. Eiginlega bara fólk sem ég þekki eða kannast við (nú þegar), nema þegar forvitnin um fræga fólkið kitlar mig og ég les Dr Gunna, Jón Ólafs. eða Brian May. Með öðrum orðum, ef ég fer skyndilega að vitna í Stefán Pálsson eða álíka fígúrur, þá má reka allt þetta gamla nöldur ofan í mig. Ekki fyrr.

Af hverju gleypir bloggerinn póstinn minn?

miðvikudagur, nóvember 12, 2003

Talandi um sósíalísk ekspíríments. Ég er ein af þessum örfáu sem las ekki Ísfólkið á sínum tíma...og það þrátt fyrir að Sverrir Páll mælti með því í íslenskutíma. Ójá. En þegar amma gamla var farin að lesa þetta sá ég mitt óvænsta og byrjaði líka. Það er skemmst frá því að segja að ég veit ekki hvort ég á að elska bækurnar eða hata þær. Í augnablikinu er ég stödd í bók 35 svo eitthvað hafa þær, amma gafst upp í bók 20 eða þar um bil svo ég er lengra leidd en hún. Ég hugsa að ég hafi seríuna nú af en ég held að ég nenni aldrei að lesa þær aftur. Bækurnar eru vægast sagt misgóðar og ég er hrifnust af þeim sem leggja áherslur á persónur en fara ekki á of mikið flakk í undarlegum annars heims pælingum. Já spáið í því - ég ekki að fíla undarlegar annars heims pælingar. Svona getur þetta verið.

Jæja. Það er ekki ónýtt að hlusta á Villa Vill. Fantagóð tónlist í gangi þessa stundina, áðan voru það Palli og Mónika og núna Villi. Ekkert nema snilld. Og vil ég þá nota tækifærið og minna á nýja diskinn með Óskari (og segja þá eflaust einhverjir Sunnlendingar "Óskari who?", en þeir um það. Hann er ómissandi eign á hverju heimili. Ég hef enn ekki náð mér af þeim ótíðindum að heyra að það yrðu útgáfutónleikar í Reykjavík en ekki hér (að minnsta kosti að svo stöddu). Skandall og ekkert minna.

þriðjudagur, nóvember 11, 2003

Jæja. Nú fer í gang smá sósjal ekspiríment. Þetta er leyndó eins og er og ég ætla að sjá til hvort ég segi nokkrum frá þessu. Best að gefa þessu nokkra daga og athuga hvort ég springi nokkuð á limminu strax.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?