<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, desember 31, 2003

Í gær (mánudag) var lokahátíð dönsku kvikmyndahátíðarinnar. Horfðum á "De grønne slagtere". Ég hafði gríðarlegar væntingar til myndarinnar, ekki síst vegna þess að vinur minn, Fischer, lék í henni. Alltaf fundist hann geðugur. Nema hvað, myndin reyndist ansi súr. Mumma fannst hún reyndar fyndnari en síðasta danska mynd, hann var alltaf í viðbragðsstöðu að forða sér ef hún færi að verða léleg.

Í síðasta bloggi (á sunnudag) var ég að tala um jólakortaleitina. Það þarf varla að taka það fram að auðvitað fundust gömlu jólakortin um leið og ég hætti að leita að þeim. Svo nú er ég komin með myndasafnið í rétta röð í sérstakt albúm. Það er svo gott að hafa svona hluti í röð og reglu, einmitt eitthvað sem gleður Meyjuna í mér (hér vantar Mumma væntanlega að hafa kommentakerfi, því hann er líka Meyja en þykist ekki kannast við skipulagsæðið).

Í gær fórum við í heimsókn til kærastans hennar Sóleyjar. Sveinn Áki var uppáklæddur í tilefni dagsins. Aulinn ég hugsaði svona fimmtíu sinnum áður en við fórum að við yrðum að muna eftir myndavél en auðvitað klikkaði það. Þau sem voru einmitt sett í fyrirsætustellingar og Sveinn Áki látinn kyssa Sóleyju í bak og fyrir svo jaðraði við dónalegheit. Jæja, kannski ekki, myndirnar hefðu að minnsta kosti verið góðar.

Sörur númer 2 voru svo kláraðar í kvöld. Eygló náði passlega að smakka eina áður en þær kláruðust. Ég er næstum fegin að fá ekki meira fyrr en eftir tæpt ár.

Aðaltíðindi dagsins voru svo þau að Sóley fór að skríða á fullu. Var farin að færa sig vel úr stað í gær en spændi um allt í dag. Og nú þarf sko að skoða hlutina upp á nýtt. Hún komst til dæmis í afganginn af blautmat kisanna, var með lúkuna fulla af kattamat þegar ég sá til hennar. Ekki geðslegt. Fór líka í músaskúffuna og var komin með eina mús í kjaftinn eins og kisurnar. Minna geðslegt. Maður er samt eins og montin hæna.

sunnudagur, desember 28, 2003

Frábært kvikmyndakvöld í kvöld. Horfði loksins á aðra dönsku myndina sem ég keypti í Kaupmannahafnarferðinni í sept. Gafst sem sagt upp á að bíða eftir dönskunördakvöldi, enda er eins gott að fara að horfa á þær, ef ég á að nota þær í kennslu á vorönninni.
Alla vega, mynd kvöldsins hét Se til venstre, der er en svensker. Það var samdóma álit tveggja af þremur áhorfendum að hún hefði verið svona ljómandi góð. Af einhverjum ástæðum var Mummi ekki sammála okkur systrum. Svo þið ykkar, sem haldið að kvikmyndasmekkur ykkar sé líkari Mumma en mínum, sleppið þessari mynd.

Fór svo í jólakortaleit. Keypti nefnilega þetta fína albúm í dag til að geyma jólakortamyndir í, en finn gjörsamlega ekki kortin síðan í fyrra. Flutti þau nefnilega af staðnum sem þau voru á, og hef greinilega fundið einhvern afskekktan leynistað. Sem er slæmt, því ekki get ég sett inn myndir þessa árs fyrr en hinar eru komnar á sinn stað.

laugardagur, desember 27, 2003

Fyrsta bloggletikastið mitt orðið að veruleika. Hvenær er ekki rétti tíminn til að vera blogglatur ef ekki um jólin? Dagarnir hafa farið í át, svefn, spilamennsku og aðra ómennsku. Allt eins og vera ber.

Gjafir voru eins og önnur ár, af misjöfnum gæðum. Það var ákveðið þema í gangi að þessu sinni. Ég fékk þrjá diska með Nýdönsk, þar af tvo af Freistingum sem ég var ný búin að festa mér, í þeirri trú að enginn myndi nokkurn tímann láta verða af því að gefa mér hann.
Fékk að auki Robbie Williams disk - sem ég var búin að gleyma að mig langaði í en var mjög glöð að fá. Stórgjör ársins var Ísland í aldanna rás, mig grunar að Óli öfundi mig að henni en ég öfunda hann hvort eð er að Öldunum og Sögu Akureyrar. Ég á eftir að skemmta mér við að fletta í henni.

Í Sóleyjargjöfum var einnig þema. Náttföt, hún fékk þrenn slík, en það kemur sér bara vel, enda voru þau öll við vöxt og ekki allt sama stærð. Annars fékk hún mikið af fötum og lítið af dóti. Þetta voru víst ordrur frá mér, en meira að segja mér ofbauð hvað hún fékk lítið af dóti svo ég er að hugsa um að fara á morgun og bæta úr því.
Hún fékk tvær algjörar surprise gjafir, annars vegar útsaumsmynd, með nafni, fæðingardegi etc. Þetta sem allar duglegar mæður gera, hinar láta Árnýju frænku sjá um það fyrir sig. Hins vegar sýndi systir mín óvænta prjónahæfileika, þeir hafa mér vitandi legið í dvala lengi.

Mummi var glaðastur með "The complete Far side collection" sem hann fékk frá dóttur sinni, en sáttur við Metallicu og Making of The Lord of the Rings frá mér.

Jólakortin voru sum hver alveg frábært. Eins og það er fúlt (afsakið hvað ég er ákveðin með þetta) að fá þökkum liðið, þá er jafn frábært þegar fólk skrifar meira. Ég get varla valið bestu kortin úr, en samt telst Kristín sigurvegari ársins, með sitthvert kortið til dýra, fullorðinna og barns. Hvað er það með fólk að dunda sér við að búa til jólakort með ærinni fyrirhöfn en geta svo ekki skrifað neitt fallegt eða persónulegt?

Ég má ekki sleppa því að minnast á að við Mummi vorum að enda við að rústa fjölskyldu hans í Mr og Mrs. Nánast gjörþekkjum hvort annað. Gaman að fá það staðfest. Við systur vorum saman í liði í gær, byrjuðum af ofurkrafti en svo dalaði þekking okkar eitthvað, svo sigurinn hafðist ekki.
Mæli með spilinu, hefði gaman af því að spila það bara við pör.

miðvikudagur, desember 24, 2003

Ég þakka bróður mínum hugheilu jólakveðjurnar...ég hefði orðið svolítið spæld ef þær hefðu ekki verið hugheilar.

Erindið mitt í dag var svipað. Að senda öllum lesendum, nær og fjær (þetta er eiginlega nauðsynlegt líka) hugheilar jólakveðjur (hér dugar ekkert hálfkák) og þakka lesturinn á árinu sem er að líða.

Jamm, það styttist í jólin. Ég á eftir að fara í kirkjugarðinn (með Söngsveitina Fílharmóníu í bílnum) og svo jólabaðið. Annars mega jólin koma fyrir mér. Búin að afskrá miðnæturmessu í kvöld. Mundi alltíeinu að Blandon vinur minn messar á Munkaþverá á Gamlársdag. Það er miklu meira spennandi.

þriðjudagur, desember 23, 2003

Lauk við Sörubakstur hinn síðari í gærkvöldi. Endanleg smökkun fór hins vegar fram í kvöld. Þessar síðari hafa það fram yfir hinar að vera ekki bara einn munnbiti, heldur þetta tveir til þrír. Mesti munur. Þær bragðast vel en ég get ekki annað en verið hissa á hvað ein og sama uppskriftin getur birst í ólíkum myndum.

Fór á jólatónleika Kórs Akureyrarkirkju í gær. Það er að verða ánægjulega árviss atburður. Alltaf indælt. Ég birgði mig upp af hálsmolum og það slapp til, ég gat sungið af gleði með. Fæ alltaf nettan sting yfir að vera ekki á leiðinni í messu á aðfangadagskvöld og hugsa held ég árvisst líka um hvort ég eigi að fara í miðnæturmessu en yfirleitt nær letin yfirhöndinni. Sjáum hvað setur að þessu sinni. Merkilegt hvað ég tengi þessar stundir ekkert við trú, syng samt alveg frá hjartanu um guð og jesú og þá alla.

Sóley óðum að ná sér. Hitinn datt alveg niður í gær. Hún er samt hálf önug enn og hóstar reglulega. Ég hósta alveg ferlega enn. Algjörlega óþolandi hvað þetta getur tekið langan tíma.

Ég lauk líka við jólakortaskrif í gær, einmitt tímanlega, síðasta sendingardaginn. Talandi um árvissa atburði. Fylgist spennt með póstinum detta inn þessa dagana og rýni í skrift utan á kortin. Á mínu heimili er hins vegar bannað að opna jólakort fyrr en á aðfangadagskvöld. Ekki það að Mummi hafi sýnt tilburði til annars. Ég á það til að skrifa sendanda aftan á sum kort, þar sem menn stunda að opna fyrirfram. Mín kort eru þess eðlis að það á ekki að lesa þau fyrr. Alls kyns skilaboð sem eiga bara við í klukkustund á ári eða svo :)

Ég get varla sleppt því að taka jólakortaræðuna mína fyrst ég er á annað borð byrjuð að skrifa um þau. Mér er nefnilega ekki eins illa við neitt eins og jólakortin þökkum liðin ár, kær kveðja. Ég verð alveg saltvond. Ég vil persónulegar kveðjur eða engar kveðjur. Veltir fólk því í alvörunni ekki fyrir sér af hverju það er að senda fólki kort sem það getur ekki sagt neitt persónulegra við. Kenningin mín er sú "ef þú getur ekki sagt eitthvað persónulegra, út með viðkomandi af jólakortalistanum". Nokkrar hugmyndir: a) gaman að hitta þig loksins í sumar, b) ég minnist þess með gleði þegar við fórum alltaf í bæinn á föstudögum, það voru góðar stundir, c) takk fyrir símtalið sem ég fékk frá þér í vor...
Ef manni dettur ómögulega neitt svona í hug, þá er kortið ónauðsynlegt. Nema ég sé svona vanþakklát og flestum finnist í raun nóg að fá þökkum liðið kortið sitt, eins og í fyrra og árið þar á undan.
Ég á heldur ekki við það vandamál að stríða að láta það eyðileggja fyrir mér jólin ef ég hef gleymt að senda einhverjum (opnararnir eiga iðulega við það vandamál að stríða og eru í fyrirbyggjandi aðgerðum).

Þá er best að ljúka kvörtunardeildinni í bili. Varla að ég geti kvartað, ég sit og hlusta á Söngsveitina Fílharmóníu (smá forleikur að taka sparidiskana fram fyrir aðfangadag). Það eru nokkur með stórri gæsahúð hér. Sérstaklega tvö, annars vegar Aðfangadagskvöld jóla 1912 (af því að það var alltaf sungið í messunni hér í denn) og hins vegar Slá þú hjartans hörpu strengi. Unaðslegt óbó. Heyrði Gunna einu sinni spila það, ansi hreint magnað læf.

laugardagur, desember 20, 2003

Nú ætti Villi að vera kominn í linka-klíkuna mína.

Jæja. Strax er ég farin að vitna í aðra bloggara sem vitna í mig. Hruff. Ég tek fram að ég er ekki að reyna að komast í bloggklíku með Villa, þó hann hafi linkað á mig, en ég ætla samt að setja link á hann. Þar er ég bara sönn mínu linkasafni - linka á þá sem ég les. Villi er greinilega aktívari en þær tvær, Erna og Svansý svo það er um að gera að fleygja honum inn. Og eins og ég sagði frá hér fyrir nokkrum dögum, þá er maðurinn einfaldlega höfðingi. Enginn étur að minnsta kosti einn með honum.

Eini maðurinn sem ekki fer inn á link listann, sem ég les samt, er Sverrir Páll. Seint mun hann komast þar inn.

Annars sit ég uppi með ættingja. Hér eru Anna, Óli og Eygló, voru í mat (sem Óli bauð upp á í öllum skilningi), hann var eflaust góður en bragðlaukarnir eru eitthvað að spara sig fyrir aðal átökin. Svo horfðum við á Popppunkt, við Anna í Kátra Pilta horninu, en hin héldu með leiðindapésunum í Vínyl.
Ég veit ekki hvað það er með þessa kappþætti nú orðið. Ég er hætt að geta haldið með nokkrum. Má vart á milli sjá hvort ég held minna með Vínyl eða Ensími.
Nú sitja þau að spilum. Eru í Fimbulfambi en ég baðst undan, enda í miðri kremgerð til að undirbúa næsta Sörubakstur, sem að þessu sinni dreifist á tvö kvöld.

Fékk gríðarlegar gleðifréttir í kvöld. Gamall "vinur" hefur tengst inn í fjölskylduna. Það kom í ljós að hann Palli (ekki Palli Freyr NB) er í raun Manni, eða öfugt öllu heldur.
Þannig var mál með vexti að á mínum ungdómsárum, þegar ég stundaði 22 eins og ég væri lesbísk, var þar fastagestur, sem mér og Valgerði vinkonu minni, líkaði svo vel við. Hann dansaði ævinlega einn úti í horni, kátur, stuggaði aldrei við neinum og söng af hjartans list með lögunum. Við kölluðum hann Manna okkar á millum. Nema hvað, Árný komst að því í dag (litli heimur) að hann er fjölskylda. Velkominn í fjölskylduna, Palli!

Strumpan er enn hundveik. Gekk svo langt að ég hringdi í lækni til að ráðfæra mig. Ekkert að gera nema bíða og láta vírusinn hafa sinn gang.

LotR stóð undir væntingum. Ekkert meir um það að segja fyrr en sýningar hefjast almennilega.

Það sama er ekki hægt að segja um Idol. Ég er eiginlega hætt að skilja hvers vegna Jón heldur áfram. Maðurinn er bara ekki söngvari. Helgi vissulega mistækur söngvari en átti að minnsta kosti góða spretti inni á milli. Þetta fer að verða eins og í Survivor. Vertu bara nice og þá kemstu langt. Ég er að auki komin í krísu. Held varla með neinum. Skil ekkert þessar endalausu lofræður til Önnu Katrínar. Mér finnst hún ekki alveg vera að finna sig í þessum venjulegu popplögum. Hún hefur ekki sungið neitt vel síðan hún söng Coldplay. Þannig. Hún er auðvitað firna góð söngkona, en ég er farin að efast um að hún eigi heima þarna.
Það eina sem reddaði Idól þætti kvöldsins var að Kalli Bjarni skyldi vera í þriðja neðsta. Sá er líka ofmetinn og frammistaðan í kvöld var hreint út sagt léleg nema síðustu tíu - tuttugu sekúndurnar. Dómararnir heyrðu þetta líka en fóru kannski fínna í það en ég!

Annars er Strumpa lasin. Komin með 39 stiga hita, fyrsta alvöru veikin. Hún hefur mest hóstað mér til samlætis síðustu daga en í dag var hún farin að gera það að fyrra bragði og lá svo í rúminu með eplakinnar í kvöld. Vonandi rífur hún sig upp úr þessu fyrir jól (og ég líka, auðvitað).


miðvikudagur, desember 17, 2003

Þá er systir komin í bæinn og dagurinn að mestu leyti helgaður henni. Það verður að byggja upp smá goodwill, búið að panta hana í barnapössun á morgun og hinn! Var að koma úr Akurgerði, var orðin mjög heimilsleg undir það síðasta. Lá uppi í sófa undir teppi. Heppni Eyþór var að koma af LotR en maður þolir nú við þangað til á morgun.

Verð að setjast ögn yfir jólakortin og koma nokkrum í viðbót frá. Ekki gerir maður það á morgun - tíu bíó og heimkoma um miðja nótt. Jólakortaskrif og Sörubakstur eru eiginlega í uppnámi, af því að það er bíó á morgun, Idol á föstudag og tónleikar á sunnudag. Eitthvað verður undan að láta.

Annars veit ég ekki hvað það er með mig og enska titla þessa dagana. Bókin sem ég er að lesa (og hef ekkert lesið í í dag og mun lítið lesa í á morgun) heitir "The Battersea PARK Road to Enlightment. Eins gott að ég er að fara að vinna eftir áramótin. Minnið er farið að gefa sig verulega

Svo náði ég mér í nýja pest. Eins gott hún taki fljótt af. Verst að góða koníaksráðið er ekki sérlega hentugt í brjóstamjólkina en kannski lætur maður sig hafa það ef ekkert annað virkar. Svona er maður annars mikill hræsnari. Drekk rauðvínsglas af og til án þess að láta það á mig fá, en vil ekki drekka hóstasaft né fá mér eins og matskeið af koníaki. Meira bullið í manni alltaf.

Sat með jólalögin undir geislanum og skrifaði jólakort. Byrjaði víst á öfugum enda þetta árið, að minnsta kosti er enginn utan Akureyrar enn kominn á blað (nema Óli og Eygló en þau koma nú við hér á austurleiðinni). Búin með sirka fjórðung. Verð að liggja yfir þessu næstu kvöld, það liggur meira á þessu en jólahreingerningunni.

Sörurnar eru búnar. Mikil sorg, sem væri óyfirstíganleg ef það væri ekki búið að ákveða að baka fleiri.
Þurfum að huga að því hið fyrsta. Búið að panta sérlegan bakaradreng (eða stúlku öllu heldur) til aðstoðar og búið að plotta svoldið með hvernig er best að haga þessu. Gaman að sjá hvernig sú hagræðing kemur út.

Af menningunni er það að frétta að ég er nú að lesa bók sem heitir "The Battersea Road to Enlightment". Hún er ansi skemmtileg. Tók svo tvær danskar á safninu og eina eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur (þó ekki ævisögu Vilborgar Dagbjartsdóttur, enda heyrt flest "highlætin" úr henni).

PS Tveir dagar í LotR. Setur strik í Sörureikninginn. Hafði hugsað mér að baka á fimmtudaginn þangað til Mummi minnti mig á aðrar skyldur.

þriðjudagur, desember 16, 2003

Geisp. Ég held að ég sé búin að fara yfir öll fjarkennsluprófin. Meðaleinkunn frekar döpur en ég læt það ekkí á mig fá.

Survivor fór eins og best var á kosið. Samt fannst mér Lill eiga heiður skilinn fyrir að velja Söndru í staðinn fyrir Jon, svo ég hefði ekki verið mjög ósátt ef hún hefði unnið. Minnir á Colby/Tinu í Ástralíu hér um árið.

Setjum vonandi fljótlega inn myndir af Sóleyju og kisunum. Ég náði svo fínum myndum af henni sitjandi með Prinsa að ef ég hefði ekki verið búin að taka jólakortamyndir hefði einhver þeirra komið sterk inn.

Geisp.

Nú þarf að fara að huga að frekari jólaþrifum. Ef ég væri ógeðslega dugleg myndi ég, eins og sannri Meyju sæmir, setja niður plan fyrir næstu daga. Nenni því ekki heldur. Þakka fyrir að nenna að setja leppana okkar í þvottavél.

PS Þrír dagar í LotR

sunnudagur, desember 14, 2003

Dagurinn hefur farið að einhverju leyti í niðurát, það er að trappa sig niður eftir gærdaginn. Hefur gengið vel. Það markverðasta í dag er samt bíóferð. Hún er markverð af því að þetta er þriðja bíóferðin á 9 og hálfum mánuði. Að þessu sinn konukvöld. Fór með Kittý á Love actually og get lofað því að myndin svíkur engan. Góður skammtur af ást. Sagði Mumma þegar ég kom heim að þetta væri tveggja vasaklúta mynd og hann hélt að hann hefði eitthvað misskilið um hvað hún var. Svo kannski lækka ég mig niður í einn vasaklút, en tek fram að ég skældi af gleði. Það er alltaf gott.
Þyrfti helst að sjá hana aftur. Ég er jú manneskjan sem fór fjórum sinnum á Fjögur brúðkaup í bíó.

Að lokum - fjórir dagar í LotR.

Dagurinn kallar á langa bloggfærslu. Hann hófst á fimleikasýningu Jóns Óskars. Frekar fyndið að taka daginn snemma til að horfa á fjögurra ára börn sýna fimleika. Þetta er snilldaruppfinning. Þau rusluðust þarna til og frá og ofvirkustu krakkar fengu gríðarlega útrás.

Fórum svo í morgunkaffi til tengamömmu og sinntum ýmsum viðvikum. Heim til að láta fröken sofa og svo í geðbilun Akureyringa og nærsveitunga á Glerártorgi og þaðan í barnaafmæli til Ingunnar Erlu. Stuttlega heim til að gefa barninu að borða og taka sig til.

Aðal mál málanna er kvöldið. Jólahlaðborð með vinnunni hans Mumma. Hófst á forpartýi hjá Óla Pálma, í nýja húsinu hans. Við stoppuðum svo stutt að það var rétt tími fyrir "the grand tour" um íbúðina. Komst að því, mér til mikillar gleði, að Óli Pálmi er af Hreiðarsstaðakotsættinni. Við erum því mikið skyld - það eru allir í bókinni mikið skyldir mér, þó svo það sé komið í sjötta eða sjöunda lið.
Fengum óléttufréttir frá Óla Pálma kjaftaskjóðu, Ægir og Dagný ætla að fjölga sér.

Fórum heim til að gefa dömunni kvöldsopann og þaðan á Friðrik V. Ég var alveg ljómandi heppin með sessunaut, sat við hliðina á Villa Stebba (það liggur við að ég linki á bloggið hans). Sá drengur er óendanleg uppspretta gleði. Við tókum hlaðborðið með trompi. Fórum tvær ferðir í forréttina, þrjár í aðalréttina og tvær í eftirréttina. Ég held að við höfum staðið uppi sem sigurvegarar kvöldsins.

Nema hvað, maturinn var alveg ógnar góður. Kannski ferðirnar sjö bendi til þess en allt í lagi að ítreka það fyrir hina hægfattandi. Forréttasíldin olli engum vonbrigðum, ég smakkaði líka á reyktum lunda og gæsabringu, fannst ekki eins vont og ég bjóst við. Agnarlítinn bita af skötusel, ljómandi fínn. Sjávarréttapaté og lax, algjört jamm. Tvíreykt hangikjöt, býsna gott. Eina sem ekki stóðst nánari skoðun var villibráðapaté sem Mummi plataði inn á mig og eins sleppti ég að borða grísapaté af því að Mummi mælti ekki með því.

Þetta voru bara forréttirnir. Í aðalrétt smakkaði ég allt nema gæsapottrétt, Mummi sagði að hann væri góður í hófi, ég ákvað að spara frekar pláss. Firnagóð purusteik, góður kalkúnn, ljómandi hangikjöt, síðra lambalæri, enda kláraði ég ekki skammtinn minn af því til að geyma pláss til seinni nota.

Eftirréttahlaðborðið toppaði svo allt. Möndlugrautur, sígildur, vanillubúðingur með ljúffengu karamellukrösti, og svo þrír réttir með nöfnum sem segja lítið, bóndadóttir með blæju var einhver grautur sem var ekki spes, ítalska jólakakan sem ég man ekki hvað heitir, eitthvað með p og að síðustu eitthvað sem kallaðist jóladröngull minnir mig, svona brún rúlluterta með smjörkremi í einhverri fancy útgáfu.

Plús auðvitað kaffi og heimagert konfekt á eftir.

Við útvalin af Hreiðarstaðakotsættinni (vorum fimm þarna í kvöld) hittumst og kættumst yfir frændseminni, ég, Óli Pálmi og Skúli. Ég vann mér inn mörg stig hjá Skúla í kvöld. Fyrst þegar ég sagði honum að hann væri ekki nógu gamall til að hafa áhuga á ættfræði (hann vitnar nefnilega ævinlega í pabba sinn þegar ættfræði berst í tal og ber sig illa hvað kallinn er vel að sér) og svo þegar við dásömuðum gæði og fegurð Svarfaðardals. Ó já, hann er öndvegi íslenskra dala.
Skúli bauð í heimsókn á ættaróðalið sitt á Skeggstöðum næsta sumar, hann verður látinn standa við stóru orðin.

Allir góðir hlutir taka enda og við fórum heim um hálf tólf. Þá var Villi farinn að tala sænsku að mestu, við búin að fá heimboð í mat til Óla Pálma, búin að frétta að Ægir og Dagný eru líka búin að setja upp hringana og allar óléttu konurnar / nýbökuðu mæðurnar farnar heim. Eftir sit ég, afskaplega þægilega mett (greinilegt að æfingabúðirnar eru að skila sér) og ánægð með vellukkað kvöld. Á leiðinni að fletta upp í Uppflettiritinu eina sanna, kenndu við Hreiðarsstaðakot.

laugardagur, desember 13, 2003

Lauk áðan við Ljónadrenginn. Hún er ljómandi fín en ég er samt ekkert hoppandi af kremi. Býst samt við að lesa framhaldið. Hún er svona skemmtilega spes, það er sennilega rétta lýsingin. Nú vantar mig bara eitthvað nýtt að lesa.

Mikið sjónvarpskvöld. Fyrst Survivior (og tribal council tekið upp) og svo Ídolið og horft á tribal council í hléi. Aldrei þessu vant er ég sátt við allt. Eftir síðasta Survivor þátt var ég svo miður mín að ég sá ekki fram á að geta haldið með einum né neinum. Þetta kvenfólk allt svo vitlaust að það átti ekki skilið að maður héldi með því. Nú hefur vonin kviknað á ný. Kannski maður haldi bara með Dörruh (já ég vil fallbeygja þetta svona, þó þýðandi Skjás eins vilji það ekki) því hún er að koma sterk inn og hefur kannski verið minnst vitlaus.

Ídol þáttur kvöldsins sýndi það að vissu leyti að það þarf 25 ára aldurstakmark í þáttinn. Minnumst 16 ára stúlkunnar sem grét. Anna Katrín var mjög nálægt flippinu. Enda er hún bara krakki og væntanlega ólýsanlega sárt að láta (næstum) fleygja sér út. Ég veit heldur ekki með þessa dómnefnd (enn og aftur hef ég efasemdir um hana). Mér fannst Palli reyndar koma frekar sterkur inn, kom með gagnrýni án þess að éta fólk og spýta því svo út úr sér. Þetta var að minnsta kosti ekki góður dagur hjá Önnu Katrínu. En Helgi minn kom sterkur inn.

fimmtudagur, desember 11, 2003

Ég gleymdi óvart að blogga í gær. Þannig var mál með vexti að ég sat við til klukkan hálf tvö að fara yfir spóluverkefni í fjarkennslunni. Já já, það er jafn spennandi og það hljómar. Gott að það er búið og gert, nú eru það bara prófin og svo huggulegheitin.

Þessi vika með annasamasta móti. Það var Bónusmálið allt saman á mánudaginn, reyndar heimadagur á þriðjudaginn en í gær fór ég svo á fyrirlestur niður í MA um stöðu tungumálakennslu. Mest til að sýna lit. Ansi margir af gömlu kennurunum á fundinum. Magga, Gisela, Örn, Sverrir Páll, Tryggvi (sem ég hélt að væri fluttur suður, en er alltaf að sjá hann) og svo Jónas og Jón Már. Alltaf doldið skondið að vera innan um þetta gamla kennaralið sitt. Annað hvort er ég fallin í gleymskunnar dá hjá þeim flestum eða þeir ekki spenntir að heilsa. Nema Magga.

Í dag hófst fegurðaraðgerð númer 1 - klipping. Tímasetningin valin sérstaklega með tilliti til jólahlaðborðs á laugardag. Fegurðaraðgerð númer 2 er svo á morgun, þá verður plokkað og litað. Algjört Extreme makeover. Strumpan er alltaf í pössun hjá ömmu sinni. Sem betur fer má vart sjá hvor er lukkulegri með það.

Ég sá auglýsingu í Dagskránni að það eiga að vera jólasveinar á svölunum á laugardaginn. Spurning hvort maður verði ekki að kíkja á það svona upp á gamla tíma. Verst að þetta eru ekki KEA sveinar. Getur ekki verið jafn gott.

miðvikudagur, desember 10, 2003

Það kyngir niður snjó og af því tilefni hleypti ég köttunum út í dag. Kisurnar mínar eru nefnilega einu kisurnar sem ég þekki sem elska að fara út í snjó. Við mæðgur stóðum um stund á pallinum og fylgdumst með þeim og köstuðum snjókúlum til að hoppa eftir. Sóley flissaði mikið að bjánalátunum í köttunum.

Að öðru leyti hefur dagurinn verið tíðindalítill. Við vorum einar heima til hálf átta í kvöld og fórum ekki út úr húsi. Svona dagar eru langir. Ég rembist við að lesa Ljónadrenginn en Sóley sýnir því ekki alltaf skilning að mamma gamla sé að lesa, svo ég fer hægt yfir.
Ligg síðan yfir sjónvarpinu á kvöldin, ekta lágkúruvera. Ósköp er það samt ljúft. Þriðjudagskvöld eru líka sérlega mikil sjónvarpskvöld.

Stefni að því að vinna aftur í rauðvínslottóinu á morgun, af því að ég drekk svo mikið þessa dagana.

mánudagur, desember 08, 2003

Upphitun fyrir jólin gengur vel. Annars vegar er ég komin með gömlu, góðu jólalögin út í bíl. Kertaplötuna sem maður mátti spila í þrjá daga á ári hérna í fyrndinni. Já núna er maður aldeilis kominn með Snæfinn snjókall á geisladisk og Sóley er í jólalagaátaki, smá pása frá Pílu Pínu.

Hins vegar er verið að æfa magann fyrir ósköpin. Bakaði tvær marengstertur í gær, af því að ég átti slík ósköp af eggjahvítum. Svo var sett á aðra í kvöld. Þvílík bomba að maður þolir varla nema eina sneið. Buðum þess vegna tengdó í kaffi, annars hefði kakan verið mission í viku eða meira.

Lenti annars í þvílíka ruglinu í Bónus í gær. Við sáum okkur nefnilega til mikillar gleði að tveggja lítra kók var á ofur tilboði, eða 127 krónur fyrir tvo lítra. Við hugsuðum okkur gott til glóðarinnar að versla fyrir jólin (ég er að vísu nánast alveg hætt að drekka kók en maður fær nú kannski extra marga gesti). Keyptum tvær kippur og vorum auðvitað ægilega lukkuleg með okkur. Nema hvað, þegar þetta fer svo í gegnum kassann kemur í ljós að kippan kostar 999 krónur. Sem er ekki 127 krónur per flösku. Það var hins vegar ógnar mikið að gera svo við löbbuðum út og réðum ráðum okkar. Ég labbaði svo inn, athugaði verðmerkingarnar aftur í hillunni, svona til öryggis og jú, þar var samviskusamlega merkt að 2 lítrar væru á 127 en kippan á 999. Ég fann starfsmann og spurði út í þetta og fékk að vita að þetta stæðist, stöku flöskurnar væru ódýrari heldur en kippan. Needless to say þá var nú gáfum mínum illa misboðið. En þar sem það var frekar margt fólk í búðinni, ákváðum við að fara í leiðangur í dag. Svo ég fór í dag. Skilaði mínum tveimur kippum, fékk inneignarnótu upp á 1998, labbaði inn í búð, keypti tólf flöskur, borgaði 1524+poka. Ég er ekki enn búin að röfla við verslunarstjórann, ég ætla nefnilega fyrst að auglýsa út um allt (meðal annars hér) hvað þetta er fáránlegt - svo ætla ég að hringja og lýsa yfir móðgun.

sunnudagur, desember 07, 2003

Menningarpósturinn að þessu sinni fjallar um tónleikana hans Óskars. Loksins, loksins. Verulega indæl stund eins og hans er von og vísa. Átti líka ansi skemmtilega dúetta með Jónsa (sem söng til dæmis tvö lög í staðinn fyrir Diddú) og gerði mikið úr kynþokka hans í kynningu. Sagði hann hafa verið beran að ofan baksviðs og ef hann hefði verið kona hefði hann ekki verið kominn fram til að syngja. Kom sínum kynþokka líka að, þegar hann sagði frá gömlu konunni sem skalf þegar hún hlustaði á hann - hann lyftist allur upp - þangað til hann hitti son gömlu konunnar sem talaði um hvað væri skelfilegt hvað móðir sín væri slæm af Parkisons.
Hann átti líka góðan punkt þegar hann söng "Þú átt mig ein" og tileinkaði konunni sinni það, af því að það væru svo margar eldri konur farnar að eltast við hann :)

Gæsahúðin sem ég lofaði kom í tónleikalok, eins og þykk nautshúð. Óskar tók "Ó, helga nótt" með aðstoð Karlakórs Akureyrar - Geysis. Ég sat og rifjaði upp gömul aðfangadagskvöld í kirkjunni, þegar hann tók þetta. Mér finnst þetta reyndar alveg ofboðslega fallegt lag, nema þegar popparar nauðga því í bak og fyrir, Egill Ólafs eða Sigga Beinteins til að mynda. Það er erfitt að gera upp á milli Diddúar og Óskars, Diddú er líka gæsahúð en Óskar er svona heimilislegri. KiddiJóaKonn er auðvitað fínn líka en trukkurinn er kannski einum of samt. Nú verð ég hins vegar að fara að draga upp fleiri jóladiska og taka forskot á nokkur ofur hátíðleg - það er eiginlega ekki nóg að hlusta á sum lög tvo daga á ári.

Horfði ögn á "Maður á mann" (eða ætti maður að segja "Mann á mann") áðan þar sem viðmælandinn var Hallgrímur Helgason. Með blendnum hug þó, því ég er ekki alltaf hrifin af honum. Hef til að mynda aldrei klárað bók eftir hann og hef þó byrjað á þeim þremur. Þær eru ekki beint leiðinlegar en einhvern veginn ekki nógu grípandi. Hallgrímur átti ágæta punkta að þessu sinni. Var spurður út í hvort hann hefði verið spældur að teljast til ofmetnustu Íslendinganna en hann kom bara með heimatilbúna skýringu á því af hverju hann var á þeim lista.

Talandi um ofmetna Íslendinga. Er ekki Barði í Bang Gang efstur á blaði þar?

Ótrúlegir þessir dagar þar sem maður er að frá morgni til kvölds. Þetta var einn af þeim. Það var laufabrauð í dag og ég var mætt í Akurgerði klukkan ellefu. Ekki að það sé gríðarlega snemmt. Þar var laufabrauðið með hefðbundnum hætti, við fá en góð... Þeir félagarnir Aron og Eyþór alveg eins og jólar. Sungu með jólalögunum og kepptust við að skera asnalegar kökur (hver kemur flestum strikum á köku og álíka). Jóladiskurinn sem Óli bróðir gaf öllum hér um árið er alltaf spilaður og minnir mig alltaf jafn mikið á hann. Fyrsta lagið er nefnilega Thank God it's Christmas - mjög Ólalegur titill, en síðan eru gullkorn eins og Jólagjöfin mín í ár, sem er lagið okkar Óla - við gátum sameinast í gullfallegum dúett þó að við værum að rífast og slást þess á milli :)

Eins og það sé ekki nóg fyrir venjulegan dag að fara í laufabrauð, þá var líka jólakortaframköllunardagur og nautakjötsniðurskurðardagur. Og ég lýg því ekki, mér féll ekki verk úr hendi fyrr en klukkan var langt gengin í tólf. Straujaði meira að segja yfir Popppunkti.

Verð að viðurkenna að ég tók ekki eftir Óla og Eygló í þættinum. Hætti að vísu að horfa áður en yfir lauk því ég var svo móðguð yfir úrslitunum. Kannski ég verði bara að fara að hætta að halda með annarri hvorri sveitinni því mín tapar alltaf. Dr Gunni var að vísu óvenju góður með stigin fyrir "Hljómsveitin spreytir sig" - kannski hann sé farinn að lesa bloggið mitt og hafi séð athugasemdina mína um daginn?
Aðeins meira um sjónvarp áður en ég lýk umræðuefninu. Ídól í gær var frekar dapurt. Margir keppendur að velja alveg fáránleg lög og það sem meira var, dómararnir voru svo klénir að það skein langar leiðir í gegn með hverjum þeir halda. Hvað er það með hana Tinnu? Hún tók Presley verulega illa og samt fær hún "vá!" Hrmpf. Það fór líka eins og ég spáði. Vala var allt of umdeild til að komast langt. Mér fannst hún algjörlega hressandi. Ekki svona eins og hver önnur stelpa í Celine Dion fíling. Það er Anna Katrín reyndar ekki heldur. Þess vegna held ég með henni og Helga Rafni. Þó að Helgi hafi ekki átt góðan dag í gær.

Náði í ansi hreint spennandi bók á safninu. Ljónadrengurinn heitir hún og ég er að byrja að lesa hana. Hún byrjar frekar furðulega en það verður gaman að sjá hvort hún stendur undir ritdómum.

Að lokum. Afrek ársins var unnið í gær. Ég afþýddi ísskápinn. Jólahreingerningin í ár.

föstudagur, desember 05, 2003

Það er aldrei að ég er orðin menningarviti. Var að koma af tónleikum rétt eina ferðina. Að þessu sinni með Friðriki nokkrum Ómari. Eflaust þekkja hann fæstir aðrir en erki-norðanmenn og dugar varla til. (Hann er reyndar hálfbróðir hans Halla Gulla trommara...segir það ykkur eitthvað meira?)
Í mínum huga var hann þekktastur fyrir Lag Fiskidagsins mikla en hefur eitthvað komið að Landslaginu og söng líka á plötu sem var að koma út sem heitir Íslensk ástarljóð.

Þetta voru jólatónleikar, þar sem hann söng vel þekkt jólalög með undirleik hljómsveitar. Rosalega spes, það verður að segjast eins og er. Drengurinn getur sungið, það vantar ekki. En hann getur líka talað. Hann sagði sögur af sjálfum sér á milli laga og ég var ekki alveg að kaupa þær fyrst en svo varð þetta ósköp heimilislegt. Ég veit ekki hvort hann er að gefa út disk en ef svo væri þá myndi ég alveg vera til í að eiga hann.

Annars kom þetta þannig til að Arnheiður fékk frímiða og bauð mér, ég hefði ekki farið til að borga mig inn. Tónleikapeningur þessarar viku er farinn. Ég er nefnilega búin að kaupa mér miða á Óskar. Hann verður með tónleika á sunnudaginn og það liggur við að ég þurfi að spara gæsahúðina því hún verður sjálfsagt föst á alla tónleikana hans. Kannski verð ég köld alla vikuna á eftir?


miðvikudagur, desember 03, 2003

Fyrst af öllu er tilkynning. Fyrir þá sem ekki höfðu áttað sig á, þá eru komnar myndir af Sóleyju inn á síðuna hennar. Þær eru hver annarri sætari, gengur eiginlega svo langt að hún stefnir í að vera sætara barn en ég.

Í dag var laufabrauðsdagur hinn fyrri. Fór til tengdó og skar út nokkrar kökur af mínu alkunna listfengi. Sem betur fer reyndi ekki um of á hugmyndaauðgina þar sem ég fór í jóga í miðjum útskurði. Það var heldur betur orðið tímabært, sennilega um hálfur mánuður síðan ég fór síðast, út af þessari djö... skítapest. Enda var þetta ansi hreint ljúft.

Systir hringdi svo til að staðfesta endanlega komu sína, ég var reyndar svo utan við mig að ég gleymdi að spyrja hana hvenær hún fer, en hún verður komin hingað viku fyrir jól. Sem hentar vel, ég ætti að vera búin að fara yfir flest eða öll fjarkennsluprófin þá.

Meira um jólagjafaóskalista. Ég er svolítið "torn between two lovers" í þeim efnum. Annars vegar væri ég alveg til í að telja upp hitt og þetta hérna sem mig langar í (meira heldur en sýnishornið sem fékk að flakka hér um daginn). Hins vegar finnst mér að allir sem á annað borð eru að gefa mér gjafir, eigi að þekkja mig svo vel að það þurfi ekki. Þetta hefur að vísu ekki reynst vel. Þeir sem þekkja mig, eiga til að mynda allir að vita að ég er funheitur Nýdanskar aðdáandi og hef verið frá upphafi. Samt hef ég ekki fengið síðustu tvo diska í jólagjöf. Ég sem hef sérstaklega sparað að kaupa þá til þess að geta fengið þá að gjöf. Svona geta augljósu hlutirnir verið of augljósir.

Að lokum má ég ekki gleyma að minnast á að ég lauk loksins við lestur á Ísfólkinu. Ekki seinna vænna. Það verður að segjast alveg eins og er, að sumar bækurnar voru einum of súrrealískar fyrir minn smekk. Þannig að ég efast um að ég eigi eftir að lesa þær aftur. En þá er maður alla vega búinn með þennan kafla í lífinu. Ég get heldur ekki gert að því að þetta myndar ákveðið tómarúm. Ég þarf að fara að finna eitthvað nýtt og spennandi að lesa.

þriðjudagur, desember 02, 2003

Úlfur er farinn að sýna ansi merkilega matarhegðun. Hann hefur alltaf verið meiri þurr-kisi en fær sér svo sem af blautmatnum og öðru góðgæti líka. Núna hef ég ítrekað séð hann róta þurrmatnum upp úr dallinum fyrst og borða hann svo af gólfinu. Hreinsar voða vandlega allt í kringum dallinn og rótar svo upp úr aftur. Annars er stórskrýtið með þessa ketti. Þegar þeir fá einhvern alveg sérstakan mat, til dæmis fiskstykki, þá virðist alltaf vera nauðsynlegt að borða hann á miðju gólfinu, helst stofugólfinu. Eins og gefur að skilja er það mér til mikillar gleði. Ég skúra víst svo sjaldan að gólfin mega ekki við þessu.
Svo er víst alveg voða músafaraldur hérna núna. Það komst mús inn í næstu íbúð en dó þar áður en þurfti að grípa til örþrifaráða. Ættin hennar hélt greinilega eitthvað partý á pallinum þar líka, það var víst allt útatað í sporum. Needless to say þá stöndum við ekki í þessum sporum. Vei þeirri mús sem álpaðist hér inn. Það yrði ljótur dauðdagi. Kannski maður fari að hleypa köttunum meira út til að saxa á fjöldann?

Söru-árstíminn mun bráðum ná hámarki. Það saxast jafnt og þétt á þær og mér sýnist á öllu að við þurfum jafnvel að baka viðbót. Gerum það pottþétt ef Anna systir kemur, það veitir ekki af allri hjálp sem býðst.

Fékk eitt ljómandi símtal í kvöld. Fjölnir minn elskulegi gamli vinur, nú orðinn virðulegur prestur í Eyjum hringdi alveg hreint upp úr þurru. Úff hvað það er alltaf hressandi að tala við hann. Feels like old times. Hann er svo fyndinn, svona náttúru-húmoristi. Það veltur alltaf eitthvað sniðugt og skrýtið upp úr honum. Hann stendur sig náttúrulega vel að boða fagnaðarerindið til þeirra Eyjamanna og ég efast ekki um að hann gerir það á sinn ljómandi sérstaka, skemmtilega hátt. Ég auglýsi eftir svona presti hingað.

Ef þið viljið gleðja einhvern, sem þið þekkið, alveg ógurlega mikið, hringið þá svona surprise símtal. Þau standa alltaf fyrir sínu. Og ætli það séu ekki fleiri en ég sem hugsa reglulega til gamalla vina - eða nýrra vina - og síðan ekki söguna meir. Ótrúlegt hvað maður getur verið latur að hringja. Það er auðvitað frægt að allir eru hættir að fara í heimsókn en ég held að það séu margir líka hættir að hringja og senda tölvupóst. Það er mjög auðvelt að gleyma sér í letinni.


mánudagur, desember 01, 2003

Kannski ráð að fylgja honum Hjörvari í fordæminu með jólagjafalistann. Ég var nefnilega að lesa plötutíðindin um daginn og kremaði þar yfir ansi mörgu. Það var helst nostalgíufílingurinn sem var að fara með mig og þess vegna ekki hægt að segja að þetta væri kannski útpæld gæðatónlist sem ég var að spá í. Fyrstir á blaði eru auðvitað Rikshaw, ég meina, hver man ekki The Great Wall of China? Ótrúlega gott lag. Síðan komu aðrir spámenn, ekki endilega minni, svo sem Bon Jovi með tónleikadisk minnir mig, að minnsta kosti eitthvað sem ég á ekki. Úr íslensku deildinni væri ég jafnvel til í Margréti Eir og svo veit ég ekki nema Svörtu fatadrengirnir væru bara ágætir. Eða kannski er það bara ég að reyna að halda í horfna æsku.

Þarna var líka DVD deild. Þar var aðallega tónlist að heilla mig, Queen myndbönd, Rammstein og fleira. Kannski ekki must have en alla vega must see.

Í bókadeildinni er náttúrulega fátt góðra drátta, svona þannig. Ég er nefnilega farin að aðhyllast bókasöfnin æ meira og það gildir um marga bókina að hún er meira svona must read heldur en must have. Ég er alla vega ekki með ævisögur fræga fólksins á óskalistanum. En á móti kemur að engin eru jólin án bóka, ég er enn föst í þeirri stemmingunni. Ég man hér um árið, þegar ég úthlutaði flestum í fjölskyldunni einhverja bók til að gefa mér, það fer reyndar um mig hrollur þegar ég rifja upp titlana - mig minnir að þetta hafi verið Fimmtán ára á föstu, Viltu byrja með mér og svo eitthvert góðgæti frá Bodil Forsberg og Erling Poulsen, fyrir utan hefðbundnari barnabækur. Ég var nefnilega ekki nema 9 ára þegar ég fór að liggja í ástarsögunum og hef blessunarlega þroskast síðan þá (er ekki Ísfólkið annars skref upp á við?)
Önnur jól grét ég úr mér augun fyrir jól vegna þess að ég hafði svo þungar áhyggjur af því að fá ekki Maddit í jólagjöf, mig minnir að mamma hafi svo séð fyrir því að hún kæmi í pökkunum svo það yrði einhver jólagleði það árið. Já maður hafði sínar leiðir.

Svo er það nú þannig, að þegar maður er kominn með unga þá finnst mér í góðu lagi að gjafirnar til mín minnki í ákveðnu hlutfalli. Það er að minnsta kosti enginn í kringum mig sem skítur pening í þeim mæli að ég ætlist til þess að ég sé efst á lista yfir þiggjendur. En engu að síður, ef þið rekist á góða dragt eða fína skólatösku, þá er ég opin fyrir þiggjanda-hlutverkinu.

Bíóferðin í gær var alveg ljómandi góð. Mæli óhikað með Nemó og eins og venjulega sveik Pixar ekki með góðri stuttmynd á undan og smá gríni á eftir (ekki þó "deleted scenes"). Og svo að Mummi geti hætt að gera grín að mér með Sea Lions þá er ég búin að ná nafninu - loksins - hún heitir víst Second Hand Lions. Það er enn smá krísa hvort við förum líka að sjá hana, hún tapar eflaust ekki miklu við að bíða til myndbands en við tökum hins vegar spólur á svona fjögurra mánaða fresti núna.

Óli var með nostalgíufærslu í gær um laufabrauðið. Ég skal alveg viðurkenna að ég fæ svona kast í hverri laufabrauðsgerð því einhvern veginn er hún ekki svipur hjá sjón. Þetta var svo mikil hátíð hérna í denn í Stekkjargerðinu, þegar við vorum öll. Sérstaklega keppnirnar um hver skæri út flestar kökur og skipti þá engu máli hvernig útkoman var eða hvað maður gerði. Enda var iðulega rokið út í stafrófið til að þurfa örugglega ekki að eyða dýrmætum tíma í að úthugsa kökurnar. Svo held ég að við höfum átt eina alveg sérstaka köku, einhvern veginn minnir mig að Dúddi hafi byrjað á henni. Við gerðum alltaf jólaherðatré. Enn þann dag í dag geri ég jólaherðatré til að minnast gömlu daganna. Svona er lífið, allt er breytingum háð en þá má notast við lítil brot af gömlum venjum til að tengjast aðeins því gamla.
Enn rifja ég líka upp grobbsögurnar af Gunnlaugi langafa, sem var færasti laufabrauðsútskurðarmaðurinn í Svarfaðardal og þótt víðar væri leitað. Það sagði afi að minnsta kosti og ekki laug hann! Kannski rifjast fleira upp fyrir mér á laugardaginn þegar ég fer í laufabrauð í Akurgerðinni.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?