<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, febrúar 29, 2004

Er Laddi fyndinn? 

Ótrúlegt en satt, þetta var eitt af heitustu umræðuefnunum bæði kvöldin í Reykjavík. Það vill þannig til að Helgi mágur minn stendur í þeirri meiningu að Laddi sé gríðarlegur snillingur og þessari skoðun deildu Siggi og Sigrún (altså mágur og mágkona). Við Mummi reyndum að koma vitinu fyrir þau á föstudagskvöldið en greinilega án árangurs, að minnsta kosti kom þessi umræða aftur upp í gærkvöldi, nema hvað þá var Helgi borinn ofurliði, því Óli var í heimsókn og deilir skoðun okkar hjóna. Getur annars einhver nefnt eitthvað fyndið sem Laddi hefur gert eftir 86 eða svo? Hann gat ýmislegt fyrir það en sumir þekkja bara ekki sinn vitjunartíma.

Ferðin var annars mjög góð. Það bar helst til tíðinda að við versluðum óvenju lítið að þessu sinni. Fórum til að mynda ekkert í Kringluna. Fórum reyndar aðeins á bókamarkað (eins og hann sé ekki hérna líka...!) og hittum reyndar Ernu Erlings sem reyndi allt hvað hún gat til að heilsa ekki. Keyptum aðallega bækur handa Sóleyju (að minnsta kosti undir þeim formerkjum, hún á kannski ekki eftir að lesa Ævintýrabækur Enid næstu árin...)

Heimsótti í raun flesta sem voru efstir á blaði. Önnu og Benna, Árnýju og Hjörvar, Sigrúnu (sem gaf mér ógnarfínt Latte enn og aftur), Unni (stuttlega) og að sjálfsögðu litlu frænku. Líka í mýflugumynd. Það átti að skíra hana á laugardag en hún var með gulu og ekki alveg nógu hress svo það bíður betri tíma. Hún er agnarlítil og voða gaman að máta hana.

Sóley var í sínu besta formi í flestum heimsóknunum, reyndi að vísu aðeins að pota í litlu strumpu, ég meina, hver er munurinn á henni og kisu eða dúkku? Alltaf gaman þegar barnið manns virkar eins og ljúfasta hnáta. Sem var ekki tilfellið á heimleiðinni í dag. Hún var ekkert voða hress að vera í einangrun í aftursætinu og svona frá og með Norðurárdal (syðri - svaf fram að honum) og að Blönduósi (þar sem hún sofnaði aftur fáeina metra frá bænum og hafði af mér tertuna sem ég ætlaði mér á "Við árbakkann" þar sem ég reyni að stoppa ævinlega til að fá dýrindis tertu) var hún frekar spæluleg. Líklega sprungin á limminu að vera góð því hún var alveg yfirnáttúrulega góð á suðurleiðinni og yfirleitt í allri Reykjavíkurferðinni.


miðvikudagur, febrúar 25, 2004

Líður að suðurferð 

Jamm. Ég ætla að biðja lesendur nær og fjær að sýna biðlund næstu daga þar sem ég verð stödd í borginni að trylla ættingja. Sný aftur um eða eftir helgi með ferskar fréttir af borgarlífinu (hvað ég keypti og hverja ég heimsótti).

Ég veit að það jaðrar við að vera tilhlýðilegt að vera með öskudagspistil, jafnvel einhverjar nostalgíuminningar en ég er að hugsa um að sleppa mér ekkert í þann pakka. Það eina sem ég hef að segja er að heimur versnandi fer. Ekki nóg með að börnin séu afskaplega mis metnaðargjörn með búninga og söngva, heldur er Jákúp aumingi að loka Rúmfatalagernum. Þetta er nú bara einn dagur og þó að börnin séu löt og hangi á Glerártorgi þá hef ég litla samúð.
Sennilega horfir þetta öðru vísi við innfæddum Akureyringum sem muna sjálfir hvernig stemmingin var. Já, við eigum öskudaginn, alein. (Kannski með Dönum).

Að því ógleymdu að mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að hafa frí í VMA á öskudaginn. Ég fór nú og söng hér um árið þegar ég var í fjórða bekk (og var aldrei betri!) Einn nemandi minn mætti í búning, reyndar frekar pathetic svo ég var ekkert sérlega lukkuleg með það.


mánudagur, febrúar 23, 2004

Ég er orðin stóra frænka... 

Jibbíjíbbíjei. Það bættist lítil frænka í hópinn í nótt. Dúddi og Ágústa komu með litla stubbu (nákvæmlega jafn stóra og ég var, ekki ónýtt það). Ég er alveg að rifna af gleði. Því til sönnunar fór ég beint í búð og keypti og keypti (merkilegt hvað það er skemmtilegra að kaupa barnaföt þegar maður er kominn með barn sjálfur). Eins gott að veðrið verði til friðs á föstudag svo ég komist að skoða.

Hafdís Bolla (með stóru bé) 

Úffúffúff. Þá er farið að síga á seinni hlutann í hinu árlega bolluofáti sem nær alltaf hámarki á sunnudeginum. Fékk mér eina bollu á föstudaginn (af því að Mummi var búinn að fá sér við ýmis tækifæri), svo fórum við í hið árlega hlaðborð í sveitina í gær og ég vil ekki hugsa til þess hvað ég borðaði margar þar. Sóley fékk þar sína fyrstu bollu en hún fór nú víðar en í magann. Verst að það eru ekki fleiri svona dagar fyrir Fat Campið hennar. En samt sem betur fer, af því að þá tekur móðirin þátt í prósjektinu og það minntist enginn læknir á að hún þyrfti að fara í Fat Camp.
Í dag fórum við svo í bolluhlaðborðið hjá tengdó og þá var Sóley öll að komast í gírinn og borðaði tvær bollur. Kannski hún fái sér þrjár á morgun? Aftur borðaði ég margar, en það var aðallega af því að Ármann og Hanna komu með bollur og Ármann hafði búið til eitthvað dýrindis afbrigði með karamellubúðing og glassúr. Ég þurfti að prufusmakka þær allnokkrar.

Í gær höfðum við Björninn í mat. Reyna að vinna sér inn punkta fyrir kattapössun um næstu helgi. Það stefnir allt í suðurferð. (Bjarni heldur að vísu að hann verði sjálfur fyrir sunnan. ) Horfðum svo á Gamle mænd i nye biler. Verið að reyna að gera Bjarna að dönskunörd. Sænska hjartað hans sló örar þegar kom í ljós að það var sænskur leikari í myndinni sem talaði auðvitað sína fínu sænsku. Anyways, myndin er ótrúlega góð. Lína myndarinnar er "We would like a meat room with a towel". Þetta er allt að því must buy. Kannski ég bæti henni í innkaupakörfuna mína.

Dagurinn í dag er auðvitað einn uppáhalds dagur ársins. Hann var rólegri en venjulega framan af því gjafirnar bárust ekki fyrr en undir kvöld. En góðar voru þær. The Chocolate Bible, sem er líklega eina Biblían sem ég trúi á, einhver dýrindis kaffidrykkjarbók með ýmsum girnilegum drykkjum (og nú verðum við að kaupa einhverjar græjur til að þeyta mjólk - við höfum ekki borið barr okkar síðan Sigrún var hér í ágúst og dekraði við okkur á hverju kvöldi með því að gefa okkur Caffe Latte fátæka mannsins) og að síðustu John Lennon Legend á DVD en við hjónin vorum einmitt nýbúin að taka smá Lennon umræður, eftir að Imagine kom á Skjá Einum, held ég, í flutningi ýmissa barna. Maður þarf að kíkja á hann við tækifæri.

Gríðarleg spenna í gangi með Nikolaj og Julie. Ég sveiflast á milli þess að þau taki saman aftur eða ekki. Í kvöld stefnir til dæmis ekki í það. Þrír þættir eftir og spennan að verða óbærileg. Að sama skapi verður gífurlegt tómarúm þegar seríunni lýkur.

föstudagur, febrúar 20, 2004

Enn meiri menning... 

Það barst í tal í skólanum í dag hvað Walking with Dinosaurs væri góður þáttur. Ég kom þá með játningu að horfa afskaplega lítið á RÚV (mér telst til að það sé um það bil Frasier og einstaka brot af Spaugstofunni, svona meðan ég bíð eftir Popppunkti) þrátt fyrir að horfa töluvert mikið á sjónvarp. Einhver hafði orð á að það væri bara svo lélegt efni í boði á hinum stöðvunum og þá varð ég auðvitað að viðurkenna að það væri einmitt þetta lélega efni sem ég væri að horfa á. Ætli mörgum þætti ekki Ædol flokkast undir þetta (og ég þarf varla að velta því fyrir mér með Svínasúpuna). Að vísu virðist lygilegasta fólk horfa á sorpþætti. Þannig var aðal umræðuefnið gærdagsins á kennarastofu D-álmu fyrsti þáttur Boston Public. Það telst kannski ekki með því það er svona "professional interest", maður er jú alltaf að reyna að læra :) Þess vegna bíður Mummi alltaf eftir sápu um tölvunarfræðinga.

Á menningarlegri nótum: Ég byrjaði að lesa Öxina og jörðina í gær. Það verður gaman að sjá hvernig hún reynist.

fimmtudagur, febrúar 19, 2004

Ég og titlar... 

Já, ég ætti ekki að skrifa neina titla hérna nema hafa viðkomandi bók / mynd mér við hlið. Fyrst var það Sea Lions myndin mín sem hét svo fyrir rest Second Hand Lions, síðan var það "The Battersea Park Road to Enlightment" sem ég endurskírði eitthvað annað, og nú síðast er það Kurt Wallander. Ég er með sænska titilinn á hreinu greinilega. Það upplýsist hér með að bókin sem ég var að lesa í krimmahringnum (nú fer ég og sæki hana til öryggis...) heitir Á villigötum en á sænsku Villospår. Þar hafið þið það.

Ég var sem sagt að koma af krimmafundi og þessi annar fundur okkar krimmanna var síst síðri en sá fyrsti. Bókin náttúrulega meiri háttar (ég hafði hana loks af í gærkvöldi) og svo er bara alveg frábært að velta sér upp úr bókum í svona hóp. Enn finn ég svolítinn vanmátt, þegar er vitnað í hina og þessa, þetta er allt forfallið glæpafólk með mér, svei mér að lögreglan fyrir austan skuli ekki hóa í þau. Það var mikið vitnað í blaðamannafund gærdagsins og hvernig hann væri eins og klipptur út úr Wallander. En ég sé að ég verð að fara að lesa meira. Sennilega er hann Arnaldur bara efstur á blaði, við munum líklega lesa Bettý í vor og spurning hvort ég ætti ekki að vera búin að lesa eitthvað annað áður. Eitthvað hef ég lesið, hvort það voru Dauðarósir, ég þori ekki að fara með það.
Eftir tvær vikur ætlum við að hittast og horfa á seríuna eftir bókinni en það er nýbúið að sýna hana á RÚV. Svoleiðis þættir fara nú ævinlega fram hjá mér, eins og ég horfi mikið á sjónvarp.

Verð að koma að einni kisusögu í lokin. Ég var búin að spá mikið í þvottinn minn, sem hangir á innisnúrunni minni, svona týpísk innigrind, nema hvað hún er há og mjó. Hann var nefnilega gjarnan dreifður út um allt eða lufsaðist að minnsta kosti bara einhvern veginn á snúrunum. Hafði kettina grunaða (kemur á óvart) en skildi samt ekki hvernig þeir færu að þessu. Kom svo að Skessu í gær, þar sem hún lá í makindum sínum ofan á snúrunni. Greinilega nýi besti staðurinn. Og þvotturinn greinilega allur í hönk af því að hún spígsporaði ofan á honum. Ótrúlegir þessir bjánar!

þriðjudagur, febrúar 17, 2004

Já, ég játa... 

...ég er latur bloggari. Sjónvarpsgláp tekur allan minn frítíma og eins og það sé ekki nóg fyrir venjulega manneskju, þá er ég líka að reyna að komast í gegnum "Villuspor" sem ég á að vera búin að lesa fyrir næsta leshring á fimmtudag. Mér líður eins og ég sé nemandi að svíkjast undan með því að vera að þessu á síðustu stundu.

laugardagur, febrúar 14, 2004

Ætli Kevin Smith viti... 

...að það er til hljómsveit á Íslandi sem virðist hafa það sem inntökuskilyrði að vera Kevin Smith look-alike? Hér er ég að sjálfsögðu að vísa í Brain Police, hverja ég hef ekki séð áður, en vá, hvaðan kom þessi hugmynd? Eins og liggur kannski í augum uppi var ég að horfa á Popppunkt og uppgötvaði þetta þar. Þeir voru ljómandi skemmtilegir og synd að þeir skyldu ekki vinna. Ekki það að ég kunni ágætlega við Spaða en betur við Brain Police.

Skrýtnir þessir dagar sem koma allt í einu, þar sem maður er með alls kyns vangaveltur og gæti jafnvel bloggað heilu blaðsíðurnar um það. Eftir símtal við Óla bróður fyrr í kvöld, þar sem jaxlar voru aðal umræðuefnið (reyndar stutt símtal) góndum við Mummi í spegil, töldum tennur og flettum loks upp í Íslenskri orðabók til að fá niðurstöðu í málið. Íslensk orðabók er til margra hluta nytsamleg.

Ef ég vík aðeins að gærkvöldinu þá var það dálítið skrýtið. Alltaf gaman á vínkynningu og það allt, og ég komst að því að leynivinur minn var Baldvin Bjarna sem var ósköp ánægjulegt. En ég er eiginlega langt yngst. Einar, sem er sennilega hvað næstur mér í aldri, er fæddur 68 og jafn skemmtilegur og hann er nú, þá er hann oft dálítið forn. Hann spilaði til dæmis á harmoniku í gær. Rest my case. Já, það var ekki laust við að ég saknaði Síðuskóla. Ég sé ekki fyrir mér að ég eigi eftir að dansa við Egó í þessum félagsskap. Kannski eftir svona fimmtán ár, þegar verður komið fólk sem er yngra en ég.

föstudagur, febrúar 13, 2004

Félagslífið 

Í gærkvöld fór ég á árshátíð Síðuskóla. Það var alveg ljómandi gaman. Núverandi 10. bekkingar eru gamlir umsjónanemendur svo það var nauðsynlegt að sjá atriðið þeirra. Ég virðist vera fallin í gleymskunnar dá samt. Jú, einhverjir heilsuðu mér, aðrir föttuðu eftir langa stund hver ég væri, sumir föttuðu það held ég aldrei og enn aðrir eru svo töff að þeir heilsa ekki gömlum kennurum.

Í dag lauk vinaviku VMA. Þetta hafa verið frábærir dagar, mikið glens og gaman. Við fengum meira að segja vöfflur með kaffinu í dag, það er ekki hægt að vera í aðhaldi undir svona kringumstæðum. Ýmsar sniðugar gjafir komu, þeir sem áttu "bestu vinina" fengu meðal annars ostakörfu með annars vegar óáfengu rauðvíni, hins vegar bjór.

Hinrik fékk að skilnaði frá mér heimalagað döðlubrauð, ég sá svo sem engin viðbrögð við því en ef hann er ekki ánægður þá er hann vanþakklátur grís, því það var mjög gott (bakaði tvöfalda uppskrift svo Mummi fengi eitthvað líka).
Ég fékk að skilnaði smábók "Spakmæli" sem ég á eftir að líta betur í. Í kvöld á svo að ljóstra upp hverjir eru vinir hvers og eins gott að það er vínkynning um leið, því sumir eru frekar fúlir út í lata vini. Þar sem Mummi er að fara suður er búið að panta pössun hjá afa og ömmu í Akurgerðinu :)

þriðjudagur, febrúar 10, 2004

Survivor sorg 

Meira hvað Saboga ætlar að fara erfiðlega af stað. Sorglegt að Rudy þurfti að fara (nema þetta undarlega komment í lokin um hvað hann á góða vini) en mikið var ég fegin að þau höfðu rænu á að halda í Ethan. Ég meina, hann er góður gæi.

Ég var annars í krísu út af félagslífinu. Af því að það var svo margt framundan þurfti auðvitað að standa þannig á að tvennt bar upp sama kvöldið. Annars vegar Árshátíð Síðuskóla, sem ég verð að fara á, gömlu umsjónarnemendur mínir eru núna í 10. bekk og eru aðalnúmerið - atriði kennaranna er líka ómissandi. Hins vegar er það leshringur, og ég tími auðvitað ómögulega að sleppa honum. Enda var ég búin að ákveða að fórna árshátíðinni. En málin leystust farsællega af því að það þurfti að fresta leshring um viku. Hentar líka vel því ég er ekki komin alveg nógu langt á veg með Wallander hinn sænska.

Á föstudagskvöld á svo að vera skemmtikvöld í VMA. Enn hef ég ekki mætt á neina skemmtun á þeirra vegum svo það er aldeilis kominn tími til. Spillir ekki að það er vínsmökkunarkvöld og að auki á að ljóstra upp hvers vinur maður hefur verið þessa vikuna, en það er leynivinavika í gangi núna. Ég er leynivinkona Hinriks (treysti því að hann lesi ekki bloggið mitt) og í gær gaf ég honum bakkelsi með kaffinu, en í dag fjóra pakka af Pez (ég veit, hvílíkt örlæti). Svo keypti ég næstu gjafir. Á morgun fær hann sokka en á fimmtudag fær hann forláta flautu sem einnig er með áttavita og hitamæli. Maðurinn er sko íþróttakennari svo það fer vel á þessu.

Ég á ágætan vin. Hann sendir mér fallegar orðsendingar,og í gær fékk ég lakkrísdraum (nota bene stóran) og í dag fékk ég rós.
Leynivinagjöfin sem enginn nær að toppa kom samt í dag og ég missti því miður af henni. Einhver gaf sem sagt magadans með Helgu Brögu, þannig að í löngu sýndi hún dans. Ég er miður mín að hafa misst af henni og miður mín að það er vonlaust að toppa þetta. Allar betri hugmyndir vel þegnar :)

mánudagur, febrúar 09, 2004

Dönskunördar hittast á ný 

Já ójá. Langt om længe. Loksins eru Nikolaj og Julie á skjánum aftur (nota bene jú-lí-ö en ekki júlí eða djúlí eða neitt svoleiðis, hafa þetta á hreinu).
Fór til Kristínar í sjónvarpspartý. Fyrsti þáttur síðustu syrpu lofar góðu. Það á eftir að vera mikið drama næstu sunnudagskvöld. Gæti ekki verið kátari.
Það teygðist að sjálfsögðu á kvöldinu, allt of langt síðan við hittumst síðast.

Við mæðgur fórum í dagmömmuleiðangur á föstudag. Það er nefnilega ógurleg krísa í gangi með apríl og maí, þennan mánuð eða einn og hálfan sem vantar upp á með pössun. Ekki útséð með það enn. En Sóley hafði gaman af því að hitta hin börnin, náði að lemja sér yngri strák svo hann fór að skæla. Stefnir í mikið skass. (Innskot frá föður; hefur það ekki frá honum, enda fór hann ekki að berja aðra fyrr en hann var eldri; innskot frá mér).

Hún er einmitt að verða hin mesta frekja. Verður verulega reið núna við allt mótlæti. Ætlaði til dæmis ekki að sofna eitt kvöldið í vikunni af því að hún þurfti að afhenda tannburstann sinn aftur. Við reynum markvisst að stríða við frekjuköstin, það verður að reyna að kæfa þetta í fæðingu :)

Ekkert sjónvarpsblogg í kvöld (annað en Nikolaj og Julie auðvitað). Það væri auðvitað hægt að ræða um Popppunkt (meðan ég man - að vita ekki að fyrsta Wham platan heitir Fantastic eru náttúrulega hræðileg glöp) eða American Idol en ég læt það vera.

Að lokum; Afmælisbörn dagsins erum við Mummi. Í dag eru 7 ár síðan við hófum búskap (hljómar svo mikið betur en sambúð.) Þess vegna notaði ég tækifærið og var að heiman í kvöld. Vantar ekki rómantíkina eftir allan þennan tíma :)

fimmtudagur, febrúar 05, 2004

Afmælisbarn gærdagsins 

Auðvitað klikkaði ég á því í gær að óska bróður mínum til hamingju með daginn yfir Netið. Ég hringdi auðvitað í hann og það allt, en ég hef nú reynt að koma afmælisbörnum dagsins alltaf að. Að vísu auglýsti hann sig rækilega upp sjálfur, þurfti ekki mína aðstoð við það. Í dag er ég móðguð yfir því að hann hefur ekkert bloggað um frábæra afmælisgjöf mína (og by the way, þú skuldar mér afmælisgjöf, best að rukka um hana í fýlukastinu).

Get ekki annað en minnst á upprisu eina, nánast yfirnáttúrulegri en þessa frægu hér um árið. ErnaE hefur risið aftur. Ég var algerlega búin að afskrifa hana. Og annar bloggari sem ég las af og til en var nánast búin að gefast upp á af því að hann var svo latur, er gamli COMA félaginn minn, bókmenntafræðieftirmaður minn og síðast en ekki síst í Félagi Framhaldsskólakennara með mér, já, enginn annar en Ásgeir. Það er ýmislegt athyglisvert að detta upp úr honum þessa dagana, meðal annars slá hjörtu okkar í takt í Survivor All Stars. Get samt ekki sagt annað en að ég sé hálf móðguð að vera ekki á link hjá honum, hefði sent inn hate comment ef kommentakerfið væri ekki í rúst hjá honum.

Annars var ég að koma úr bíó. Það er eiginlega of mikið bíóframboð þessa dagana, vont þegar maður þarf að skera við nögl það sem mann langar til að sjá. Að þessu sinni var það Something's gotta give með gamla refnum með sólgleraugun. Hvað er það með þennan ljóta mann? Hann er lifandi sönnun þess að maður þarf ekki að vera fallegur til að vera aðlaðandi. Jæja, aðlaðandi er kannski full sterkt orð en hann hefur einhvern óskilgreindan sjarma. Og myndin var góð. Greinilega fullorðins mynd (ekki í þeirri merkingu samt) því í bíó voru margir af fyrrverandi og núverandi vinnufélugum.

Stefnir í full-líflegt félagslíf næstu daga (og nota bene, ég læt þó 25 ára afmælið fram hjá mér fara). Fullt af bíóferðum, Nikolaj og Julie (jeyj), vínsmökkun hjá VMA kennurum og fleira og fleira. Eitthvað hlýtur undan að láta.

þriðjudagur, febrúar 03, 2004

Ný og áður óþekkt færni 

Já, tími kraftaverkanna er ekki liðinn. Haldiði að ég hafi ekki splæst mér í 2000 króna saumavél í dag í Rúmfatalagernum, keypt mér efni í eldhúsgardínur (lesist; tilbúnir kappar) og saumað eins og ég hafi ekki gert annað. Nú er ég kominn með nýju gardínurnar upp, og ef þær væru ekki svona andsk illa saumaðar væri ég bara allt að því montin. Jæja þá, ég er montin, þrátt fyrir saumaskapinn. Enda skrifast hann alfarið á dósina, hún er ekki til stórræðanna. Það er hins vegar í góðu lagi ef ég get ruslað upp gardínum svona af og til, fer ekki fram á meira.

Smá afsökun með bloggletina. Þetta er eiginlega ekki bloggleti heldur blogggleymska. Ég ætlaði til dæmis að blogga um Survivor í gær (kannski að bera í bakkafullan lækinn, það er sjálfsagt annar hver maður að skrifa um Survivor) en sem ég sat í tölvunni og fór yfir fjarkennsluverkefni, datt það alveg úr mér.

Þar af leiðandi á stuttlegu nótunum um þáttinn í gær. Hann lofar ansi góðu. Það eru margir þarna sem ég kann gríðarlega vel við. Það eru tveir sem eiga verulega skilið að vinna að mínu mati. Annars vegar Rupert, af eðlilegum ástæðum, maðurinn er einfaldlega flottastur. Hins vegar Colby, sem tók Ástralíu seríuna með trompi, valdi Tinu með sér í lokahópinn og tapaði (en hefði annars valið einhvern síðri, man ekki hver það var). Annars eru fáir þarna sem mér líkar illa við, þekki auðvitað ekki fólkið úr fyrstu seríunni, nema Ríchard, af því að ég sá ögn af endursýningunni, og það þýðir ekkert annað en að hafa gaman að honum. Svo skil ég ekki alveg af hverju Amber er þarna. Eins leiddist mér alltaf Jerri. Að öðru leyti er ég frekar kát.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?