<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, maí 14, 2004

Brúðkaupsveislan 

Þá er þeirri hátíðinni lokið. Brúðkaupsveislan okkar hér nyrðra tókst með eindæmum vel. Við skáluðum fyrir brúðhjónunum í freyðivíni og gæddum okkur á brúðkaupstertunni (sem var alveg óhugnarlega góð, takk forsjón að ég búi ekki í Reykjavík þar sem ég kæmist í kökuna að vild.) Anna kom með brúðkaupsrauðvínið, ferskt frá frönsku vínekrunni hans Henriks.
Þetta var allt hið besta skemmtun, við klökknuðum með Friðriki þegar brúður hans gekk inn gólfið (í mínu brúðkaupi var það víst ég sem sá um það, en ég býst við að Mary hafi svona sterkar taugar). Ef að Óli hefur klikkað á því að taka þátt í hátíðarhöldunum er hann algjör svikari. Ég leitaði að honum á sjónvarpsskjánum en sá ekki.
Þess má geta að Friðrik var á giftingarlistanum mínum góða, sennilega einn af fáum sem ekki reyndist vera hommi.

Nú er bara beðið eftir Eurovisjón - sem betur fer var þessi hátíð í dag til að gleðja mann eftir sjokkið á miðvikudagskvöld, það liggur við að maður nenni ekki að horfa á svona svindl-og svikakeppni. Ansi hreint sem ABBA myndin var vel heppnuð.

Þess má að lokum geta að ég fékk verðlaun í átakinu mínu, fyrir að missa flest kíló eða hæstu prósentuna eða eitthvað, ég veit það ekki nákvæmlega af því að ég skrópaði í tímanum. En ég vann að minnsta kosti þriggja mánaða kort, svo ég ætti að vera seif í bili. Ekki það að á álagstímum, eins og núna þegar maður er í brúðkaupsveislum, þá kemur smá extra hjúpur.

miðvikudagur, maí 12, 2004

Kílópóstur gærdagsins 

Jamm, þá er 8 löngum og ströngum megrunarvikum lokið. (Reyndar ekki alveg en ég ætla að skrópa á morgun til að horfa á Eurovísjón) Heildartap eru 7.5 kíló og þar af tæplega 12 smjörlíkisstykki. Ekki hægt annað en kætast yfir því. Nú er bara að ná þeim ekki öllum aftur í sumar og halda áfram í haust.

Annars er bara mikið að gera. Nú er komið að prófum hjá mér og aumingjans nemendunum. Ég verð löt þar til það er yfirstaðið.

mánudagur, maí 10, 2004

Vá, nýtt lúkk 

Jahá! Sem maður ætlar að blogga í sakleysi sínu mætir manni nýtt og svaka fínt lúkk. Gott mál það.
Ég er sem sagt ekki hætt frekar en fyrri daginn en vikan hefur verið erfið. Amma dó á föstudaginn og ég sat eins mikið og ég gat hjá henni síðustu dagana. Þið missið af mörgum skemmtilegum sögum af því að ég nenni ekki að gera neina upprifjun á vikunni, meðal annars Sóley í sundi og Sóley í mat í VMA að svolgra í sig rauðvín og hvítvín (óáfengt reyndar).

Ég var að ljúka einu afrekinu enn, að þessu sinni kláraði ég að fara yfir spóluverkefnin í fjarkennslunni (allt nema eitt af því að viðkomandi sendi diktafónspólu, mér láðist að banna það í fyrirmælum - þarf að laga það).

Anna systir kom á föstudaginn og er með annan fótinn hjá mér. Sóley nýtur þess að hafa frænku til að dekra við sig.

Við horfðum á Júróvisjón í gær og það verð ég að segja að mér líst vel á Svíþjóð. En hvað var þetta með Fab five lúkkalækið frá Írlandi. Kyan mættur með ljóst hár??? Spáið í því.

þriðjudagur, maí 04, 2004

Hrakfarir dagsins 

Sem ég las vegabréfspistilinn hans Óla rifjaðist upp fyrir mér að vegabréfið mitt er einmitt að renna út um mánaðarmótin, og tímabært að huga að endurnýjun fyrir Edinborgarferðina. Svo ég gróf það gamla upp og sparslaði í stærstu hrukkurnar (þó ekki rassinn því hann er ekki með á passamynd). Síðan fór allt í óefni og skrifast alfarið á Sóleyju. Sem ég var nýbúin að skipta á henni fyrir brottför, skellur á önnur sending sem var ekki hægt að ignora og ég skipti á henni aftur. Settist á rúmið (hvar ég hafði einmitt sett mitt nýfundna vegabréf) og kláraði að klæða hana í. Setti hana í annan skóinn, fann ekki hinn akkúrat þá stundina og þegar ég gríp til að sækja vegabréfið, gríp ég bókstaflega í tómt. Til að gera langa sögu stutta fór fram æðisgengin leit (þetta var svona korter yfir tvö, munið að Sýslumaðurinn hefur ekki opið nema yfir hádaginn), meðal annars færði ég til rúmið, tók utan af sænginni, gekk um alla íbúð, leitaði innanklæða á Sóleyju og bara allt það sem mér gat dottið í hug. Seint og síðar meir kemur vegabréfið í ljós á góðum stað, innan klæða á mér. Þá hafði það smokrast inn fyrir buxnastrenginn og sat þar sem fastast.

Jæja, klukkan var margt og mikið en ég dreif mig af stað til að fara að minnsta kosti nýspörsluð í myndatöku (og ef ske kynni að Sýslumaðurinn hefði rýmt opnunartímann sinn). Fékk þessar dýrindis passamyndir hjá Ása vini mínum (sem spurði í miðri myndatöku hvort hann hefði ekki myndað mig áður - sem betur fer rifjaðist þetta allt upp fyrir honum áður en ég þurfti að minna hann á opnu buxnaklaufina - enda ekki að ástæðulausu sem hann man mig, því ég er enn uppi á vegg hjá honum - sem betur fer þó ekki stækkaða vonda fermingarmyndin sem hann hafði uppivið á sínum tíma og rústaði þar með endanlega unglingsárunum).

Síðan labbaði ég til Sýsló og komst að því að hann var ekki rúmur, svo vegabréfið (og ökuskírteinið - ég hugsa að ég fái ekki leyfi til að keyra bíl í Danmörku ef ég sýni bleika ferlíkið, svo ég brýt odd af oflæti mínu og fæ mér nýtt) bíður til morguns.
Fór að gamni í Bókval á meðan ég beið eftir að vinnudegi Mumma lyki og sá þar skólatösku sem mér leist ansi vel á að öllu leyti, nema lítill miði sem hékk á henni með tölunni 29.900. Það er ekki ódýrt að vera kennari.

Aðrar fréttir eru þær helstar að það stefnir í að ég taki að mér stundakennslu í HA næsta vetur. Bætist þar með í hóp allra hinna stundakennaranna fjölskyldunnar við Háskólastofnanir landsins.

Og kílópósturinn í dag er bæði hagstæður og óhagstæður. Það voru farin 900 grömm en bara 100 fitugrömm. Mjög dularfullar tölur allt saman.

sunnudagur, maí 02, 2004

Afrekin gerast enn 

Úff, þá er ég loks búin að fara yfir ritgerðir í fjarkennslunni. Eins og venjulega var þetta ekki eins voðalegt og ég hélt en hvílíkur léttir að vera búin.

Ég stefni að því að tjá mig síðar um Eurovisjon þátt gærkvöldsins, ég náði ekki að að sjá hann sökum anna í sjónvarpsglápi, sá þó danska lagið á ensku og vil meina að það er betra sem Sig det løgn heldur en Shame on you. Horfði spennt á Master of Disguise, það verður að segjast að hún er nú ekkert voðalega góð. En samt, fyndnir sprettir inni á milli, til dæmis grétum við af hlátri yfir "the turtle man".

Annars hef ég verið heilsulítil um helgina og legið fyrir, leikfimin í gær fór voðalega illa í mig.

PS Ég (ólíkt sumum öðrum) geri mér engar vonir um að komast að á Rás 2 og frábið mér allar óskir um slíkt!!

laugardagur, maí 01, 2004

Hvar á ég að byrja? 

Jamm, þessir uppsöfnuðu vikupóstar eru alveg voðalegir. Þetta fer að verða jafn lélegur brandari eins og sá annar-vissi í fjarkennslunni hjá mér "já nú skal ég sko fara yfir ritgerðirnar strax".

Það sem stendur næst mér í tíma er Eurovisjon - missti nefnilega af herlegheitunum á laugardaginn var en hafði rænu á að taka þáttinn upp í endursýningu, því ég var alveg úti í öllum umræðum. Nema hvað, ég fékk nánast tár í augun við að hlusta á þá frændur mína og vini alla, þetta var algjör Kontrapunkts-nostalgía (eins og hjá Ernu). Finnlands-sænskan svo yndisleg að mér varð hugsað til hans Matta míns hér um árið. Æh, Sixten og norska tröllið og Mogens (hét hann ekki Mogens annars?), að maður tali nú ekki um þá vini mína Ríkharð og Valdimar.
En Eurovisjon, sem sagt. Fá lög sem náðu að heilla mig eitthvað sérstaklega, þeim mun fleiri sem voru voðaleg. Ég vona að það sé á engan hallað að nefna Sviss hörmung kvöldsins og Grikkland einum of mikið dilliboss eitthvað. Hvað var sú sænska Lotta að krema yfir honum?

Þátturinn hins vegar algjör snilld. Kemur þá að krísu mikilli. Aldrei þessu vant er annað kvöld (eða í kvöld, miðað við dagsetningu pósts) svo ógurlegt sjónvarpskvöld að ég veit ekki í hvorn fótinn ég á að stíga. Þetta er nefnilega of mikið fyrir videótækið og mig. Þannig er auðvitað Popppunktur sjálfskipað efsta sæti fyrir laugardagskvöld. Á morgun er hins vegar líka þessi góði þáttur (og ég hef grun um að danska framlagið verði með á morgun) og hins vegar sú alræmda mynd Master of Disguise - ég held enn að ég gæti verið þessi eina manneskja í heiminum sem finnst hún fyndin. Að minnsta kosti verð ég að gefa Dana Carvey séns. Hvort ég neyðist til að æða um á milli stöðva eða leyta á náðir annarra vídeótækja, það er spurningin.

Af húsnæðiskaupum er það að frétta að við erum ekki að fara að kaupa hús í bili. Okkar mjög svo digru sjóðir duga ekki til að kaupa Stekkjargerði (nema kannski númer 4), svo næsta mál á dagskrá er að bíða í rólegheitum eftir hvort það komi ekki einhvern tímann einhver til að skoða íbúðina okkar (og jafnvel kaupa).
Sem sagt, góð íbúð í Huldugili til sölu - fæst á sanngjörnu verði.

Og svo er það náttúrulega mál málanna í dag. Kennslu lokið. Jibbý jei.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?