<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, júní 15, 2004

Búin að endurheimta manninn 

Ekki kannski úr helju en hann er búinn að vera ansi lengi í burtu, svona eins og 9 daga. Það eina góða við aðskilnað er að það er voða gott að hittast aftur. Að því leytinu til hefur maður voða gott af því.
Það styttist síðan óskaplega í Danmerkurferð, nánar tiltekið eru þrír dagar í hana. Þetta verður ansi magnað, en líður auðvitað hjá eins og skot.
Jæja, ég skrifa ekki meira í bili, ég er með góðan hjálparkokk núna, Úlfi liggur mikið á hjarta, ég hef ekki undan að stroka út bullið eftir hann.

mánudagur, júní 14, 2004

Ein 52 ára "hottie" 

Kæru lesendur. Ég dreg ykkur ekki lengur á þessu. Sú síðasta á kvennalistanum mínum og jafnframt aldurforseti er Isabella Rosselini. Feta ég þar með í fótspor Ross (eða gæti mín einmitt á að gera ekki sömu mistök og hann). Það þarf varla að rökstyðja þetta val. Hún er einfaldlega þokkadís. Þá er listanum lokið. Þær sem sitja á varamannabekknum eru: Paprika Steen (sem fulltrúi danskra kvenna), Halle Berry og Cameron Diaz. Aldrei að vita nema það verði einhverri skipt út.
Styrktaraðilar síðunnar minnar, strákarnir í Sælkerabúðinni, vildu að ég nefndi kvöldmatinn sem au-pair systir mín framreiddi. Að þessu sinni varð fyrir valinu pestó-leginn lax, hann sveik ekki frekar en annað hjá þeim. Engvir feiltónar so far. Ég sá líka freistandi rétt fyrir morgundaginn, marineruð hörpuskel. Aldrei að vita nema maður skelli sér á.
Annars fer að koma blogghlé. Ég verð líklega mjög upptekin af því að sinna manni og fjölskyldu næstu daga, við förum svo á ríjúníon á miðvikudag, suður á fimmtudag (ég reyni nú kannski að blogga um ríjúnjonið á fimmtudag) og til Danaveldis á föstudag. Indælt þegar þetta er að bresta á.


Fulltrúi ungu kynslóðarinnar 

Ég ætla ekki að draga lesendur neitt á fjórða nafninu á kvennalistanum mínum. Það skipar unga stúlkan á listanum, fædd 1981, Julia Stiles. Ég hef verið veik fyrir henni síðan í 10 things I hate about you, án þess svo sem að eltast við öll hennar verk. Svo virkar hún bæði klár og geðug, sem spillir ekki fyrir ef leiðir okkar eiga eftir að liggja saman. Annars komst ég að því áðan að ansi margir listameðlimir hafa komist á blað hjá People Magazine yfir 50 fallegasta fólkið (þetta hljómar nú betur á enskunni). Colin Firth, Viggo Mortensen og Heath Ledger eru allir á blaði þar (og eflaust George Michael líka ef þeir hafa einhvern smekk, en mögulega hefur Friðrik prins farið fram hjá þeim). Konurnar mínar eru líka svona efnilegar því þær hafa allar komist á blað á sama lista. Rosalega hef ég góðan smekk :)

laugardagur, júní 12, 2004

Allir listar fullsetnir 

Jæja, dagurinn í dag er aldeilis merkisdagur. Nú er karlalistinn minn nefnilega líka fullbúinn. Ég lá í gærkvöldi, áður en ég fór að sofa og hugsaði málin vel og vandlega (þetta er áhrifaríkara en að telja kindur). Þá mundi ég skyndilega eftir einum sem á svo innilega heima á listanum. Hann er sá yngsti sem fær inn á hann að þessu sinni (þó ég eigi að heita að vera fyrir yngri karlmenn.) Heath Ledger heitir þessi góði piltur. Hann er 25 ára og ekkert smá heitur. Úhh. Verðskuldað pláss á listanum.
Þegar ég hafði fundið þennan fjórða mann fannst mér annað ómögulegt en að finna þann fimmta. Mig langaði absolut í annan Dana (eiginlega þyrfti ég að gera einn lista bara með Dönum, en það er óvíst að það fáist heimild til þess) og velti ýmsum kandidötum fyrir mér. En það var ekki fyrr en í dag, þegar ég bar þetta undir Önnu systur sem lausnin kom. Sú var greinilega of augljós til að ég hefði munað eftir henni. Aragorn (eða Viggo Mortensen í daglega lífinu). Hann er fullkominn endir á fullkomnum lista. Það verður að hafa það þó það lendi ýmsir úti í kuldanum...
En næsta nafn á kvennalistanum verður líka uppljóstrað hér. Það er engin önnur en Madonna. Hún flýtur með á reynslunni, been around og það allt, og eins vegna þess að mér sýndist hér í vetur að hún væri ansi hreint lunkin að kyssa. Svo ef hún kemur úforvarende að mér og fer að kyssa mig þá býst ég alveg eins við að svara á móti :)
Af öðrum málum. Þannig er mál með vexti að við familían erum að skipta með okkur eignum afa og ömmu. Það byrjaði sem sagt í dag. Nú er ég ýmsu ríkari. Ekki aðeins áskotnaðist mér (að minnsta kosti sem fósturmamma) alveg yndislegan rósóttan stól, heldur aumkvaði ég mér líka yfir gamla heimatilbúna jólatréð. Talandi um "little Christmas tree, looking sort of sad and lonely, just like me"... ekki það að ég sé sorgmædd og einmana en tréð hefði verið það ef ég hefði ekki séð aumur á því.
Fleira hefði mátt fylgja með í pistli dagsins en ég læt þetta nægja að sinni. Aumingja Óli og Eygló fá ekki svefnfrið fyrir mér, þegar ég sit í tölvunni langt fram á nætur...

Ýmis afrek unnin í dag 

Ég ætla að draga lesendur á nafni númer 2 á kvennalistanum mínum góða og telja fyrst upp ýmislegt sem ég hef gert í dag. Það virðist kannski ekki vera mikið en er það samt sem áður. Fyrst ber að nefna að ég fór með flöskur í endurvinnsluna. Það var sérlega vel af sér vikið og ég fékk nægan pening til að splæsa Brynjuís á okkur mæðgur og systur. Í öðru lagi, og það sem er enn betur af sér vikið, ég fór í heyskap og sló bakgarðinn hjá okkur. Slíkar eru lendurnar sem tilheyra íbúðinni að ég næ ekki að heyja allt á einum og sama deginum en mikið er búið þegar bakgarðurinn er frá. Afgangurinn bíður líklega morguns.
Kvöldinu höfum við systur eytt í félagsskap Mr Darcy og Miss Elizabeth Bennet og við fylgdum þeim til enda. Næst bíður okkar Emma og verður hún sýnd við fyrsta tækifæri.
Enn fengum við okkur fisk frá góðu búðinni, að þessu sinni ýsu í sósu, geysilega góða. Svo það fékk lítið á okkur að finna grillangan berast um nágrennið.
Þá er það listinn. Númer 2 er Charlize Theron. Algjör skutla, sem ég hef dáðst að í mörg ár. Mig minnir að hún hafi verið á plakati sem fylgdi Tidens kvinder fyrir svo sem eins og tíu árum (með einhverjum huggulegum manni reyndar) og þessi mynd fór upp á vegg hjá mér. Mummi þykist hafa séð þetta fyrir, hann heldur að hann þekki smekk minn á konum :) Ég lagði fyrir hann getraun í kvöld, sem þið fáið líka, því þannig er að elsta konan á listanum mínum er 52 ára. Hver haldið þið að það geti verið?

fimmtudagur, júní 10, 2004

Fleiri listar 

Jamm, það er kominn nýr flötur á málið með hjásvæfelsislistann. Við Mummi vorum að ræða málin í gær og hann var í standandi vandræðum að manna listann sinn. Ég er ekkert nema elskulegheitin og fer að aðstoða hann í vandræðum hans. Kem með alls kyns fínar uppástungur. Tia Carrere kom strax í hugann og Mumma leist ágætlega á hana. Svo meira á hans áhugasviði voru náttúrulega Seven of Nine (Jeri Ryan - Ronnie Cooke úr Boston Public) og síðast en ekki síst Carrie Fisher í bikiníinu. Mumma leist vel á þá fyrrnefndu en ekki nógu vel á þá síðarnefndu (ég sem hélt hann væri fyrir eldri konur... hún er nú ekki nema 48 ára). Það barst síðan í tal að ég gerði mér líka lista, úr því ég væri svona hugmyndarík. Svo í gærkvöld sat ég sveitt (þetta hljómar nú dónalegar en það átti) og hugsaði um hvaða konur ég væri tilbúin að láta blikka mig. Nema hvað, það hrúguðust inn ýmsar góðar hugmyndir og nú er ég komin með fullbúinn lista og þrjár sem banka á dyrnar (Mummi er eflaust tilbúinn að leyfa mér að hafa átta á kvennalistanum). Ég er greinilega lesbískari en ég hélt ;)
Listinn á að verða að framhaldssögu næstu daga, til að tryggja dyggan lesbíufantaserandi lesendahóp í nokkra daga.
Við byrjum hægt og rólega. Efst á blaði er áðurnefnd Tia Carrere. Þar fer einfaldlega Foxy Lady eins og þær gerast bestar. Svo ef Mummi setur hana á blað þá stefnir annað hvort í slagsmál eða threesome þegar við hittum hana.
Á hversdagslegri nótum, við Anna héldum áfram með Pride and Prejudice í kvöld, náðum bara einum þætti af því að Eyþór var hér og var aldeilis ekki á því að gefa þessu séns. Að öðru leyti er allt í rólegheitum. Sit og hlusta á indæla danska músík eins og hún gerist best. Það vantar ekkert nema glas af rauðvíni í hönd og þá væri ég góð... Aldrei að vita. Ég var að vinna í rauðvínslottóinu í þriðja skiptið síðan um áramót. Ahhhh.

miðvikudagur, júní 09, 2004

Gáfaða barnið mitt 

Er ekki blogg alveg kjörinn vettvangur til að segja frá hversu bráðþroska barnið manns er. Við Strumpa vorum í mat hjá tengdamömmu í kvöld. Tengdamamma á bók úr litlubókaseríunni með öllum klassíkerunum (Stubbur, Stúfur og þær) sem heitir Svarta kisa, sem hún les gjarnan fyrir Sóleyju og hún er farin að taka virkan þátt með því að svara fyrir öll dýrin sem vilja ekki gefa kisu mjólk að drekka. Nema hvað, í dag fór Sóley að lesa bókina sjálf fyrir frændsystkini sín. Það rann upp úr henni bullið, það eina sem skildist var þegar hún sagði neineineineinei þegar hún svaraði fyrir dýrin. Við fullorðna fólkið sátum og bældum niður fliss til að trufla ekki lesturinn.
Hún er líka farin að tala alveg óskaplega mikið. Nú er aðal sportið að endurtaka (nema að sjálfsögðu ef á að sýna hvað maður er flinkur) og í dag sagði hún Hafdís, meira að segja ótrúlega vel. Það hjálpar reyndar að vita hvað hún er að segja.
Afrek dagsins var að þvo bílinn sem var skítugur af svarfdælskum skít eftir hina árlegu ferð okkar systra í Dalinn í síðustu viku. Svarfdælskt ryk virðist vera þrjóskara en annað ryk, að minnsta kosti var óvenju erfitt að ná skítnum af. Spurning hvaða kenningu afi hefði komið með við þetta tækifæri.

þriðjudagur, júní 08, 2004

Meira af Sælkerabúðinni 

Jummjumm. Við héldum áfram að versla við góðu fjölskylduna hans Úlfs í dag. Fórum að þessu sinni og fengum okkur rauðsprettu í einhverju baði, hvítlauksolíu eða einhverju slíku. Gripum til varúðarráðstafana þegar við komum heim, lokuðum alla ketti inni í herbergi til að hafa örugglega frið. Rauðsprettan var ansi hreint góð. Verst að það hefði örugglega verið best að grilla hana, en það er ekki mín deild!
Ég var svo að koma úr starfslokapartýi frá Hildu sem kenndi með mér í Síðuskóla. Það var ógurlega gaman að hitta alla, sérstaklega þá sem voru með í vorferðinni á föstudaginn (sem ég komst með út á óskaplega sjálfsvorkunn og skæl). Það var full seint að halda áfram að horfa á Pride and Prejudice svo það bíður morguns væntalega. Að vísu verður Eyþór frændi í gistingu hjá Önnu, svo við þurfum að skoða það eitthvað. Og það verður engin Sælkerabúð á morgun, það er búið að bjóða okkur mæðgum í mat hjá tengdamömmu (segiði svo að konum sé aldrei vorkennt að vera einum heima!)

mánudagur, júní 07, 2004

Prins Valiant at large 

Við systur fórum í nýja búð í dag. Sú er í Kaupangi, þar sem Axel og Einar voru áður, og heitir Sælkerabúðin. Hún tengist reyndar fjölskyldunni hans Úlfs, því mamma hans Helga sem á búðina, átti mömmu hans Úlfs.
En semsagt, þarna er verið að selja alls kyns kræsilega rétti, aðallega fiskrétti en eitthvað af kjöti líka. Ansi margt sem lofar góðu. Við keyptum okkur þorsk í indverskri sósu og komum hér heim, seint og síðar meir. Sóley fór í bað á meðan við elduðum handa henni. Prins Valíant notaði tækifærið og tékkaði á fisknum fyrir okkur. Ég kom að honum í eldhúsinu með fiskstykki (hann hafði rist upp pakkninguna og nælt sér í - ég læri seint að hafa ekki mat á bekknum, en ég hafði talið það óhætt af því að Anna var frammi, hins vegar var hann snöggur til um leið og hún fór afsíðis). Sá vissi vel upp á sig sökina þegar ég kom að honum en hann ætlaði ekki að gefa fiskstykkið upp á bátinn og urraði og reyndi eins og hann gat að flýja. Ég hafði samt betur og skammaði hann rækilega, Sóleyju til ómældrar gleði.
Við elduðum samt fiskinn fyrir rest, Prinsi hafði bara tekið sinn sanngjarna skammt. Rétturinn var svona ógurlega góður, svo við stefnum að meiri viðskiptum við frænda hans Úlfs.
Að öðru leyti höfðum við það sérlega huggulegt. Við erum í vídeóham, horfðum á Grease 2 í gærkvöld, mjög vanmetin mynd, en nú er Jane Austen þema í gangi og við byrjuðum á tveimur fyrstu þáttunum af Pride and Prejudice. Þeir eru algjör klassík. Og hann Colin Firth mjög ungur og sætur.

sunnudagur, júní 06, 2004

Long time no see 

I'm back. Jáhá, það er orðið vafamál hvor okkar Eyglóar er latari bloggari. Ég hef svona kind of afsökun, hef verið busy as hell þar til fyrir svona viku eða svo. Nú mæti ég margefld. Einu áhyggjurnar mínar eru þær að sumarið verði svo tíðindalítið að skrifin falli um sjálf sig.
Ég hef að minnsta kosti eina skemmtisögu í bili. Þannig er mál með vexti að ég er komin með sams konar lista í gang eins og var í Friends hér um árið, það er, lista yfir þá sem ég má sofa hjá án þess að fá leyfi hjá mínum góða eiginmanni. Þar sem ég vil ekki lenda í sömu aðstöðu og Ross ætla ég að velja vandlega í hvert pláss og það eru, so far, komnir þrír á blað.
Efstur og aðal maðurinn er að sjálfsögðu George Michael. Hann er mín elsta ást. Mummi veit það og sættir sig við að hann geti aldrei slegið honum út. Svo George, ef þú lest þetta, líttu við og við ræðum málin!
Númer tvö (og kom sterkari inn í brúðkaupinu) er Friðrik Danaprins. Hann var draumaprins fyrir en er enn yndislegri núna, þegar ég veit að hann er svona mjúkur.
Þriðji og síðasti í bili er Colin Firth. Ég keypti einmitt Pride and Prejudice í Edinborg og er á leiðinni að fara að andvarpa yfir honum.
Ég er með tvö sæti á lausu og ætla að fara vel yfir málin áður en þau verða fyllt. Mér skilst á Mumma að hann vilji hafa eitthvað um þetta að segja, sem sagt engar gamlar æskuástir eða neitt þannig...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?