<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, ágúst 27, 2004

Giftingarlistinn (uncensored) 

Giftingarlistinn góði frá því í MA - sennilega seinna en listinn yfir það sem prýðir góðan mann, staðsetjum hann í 3. bekk eða þar um bil. Hann á tvo einstaklinga sameiginlega með elskhugalistanum mínum, m.ö.o. eru þeir órjúfanlegur þáttur af mínu lífi. Annars vegar er það George Michael (þetta var nb áður en hann kom úr skápnum svo það var von...) og hins vegar Friðrik minn Danaprins, sem ég er víst endanlega búin að missa af :) Þetta þarfnast engrar ritskoðunar, ég er þeim eilíflega trygg og trú (ef þeir fyrirgefa mér að gefast upp á að bíða og giftast öðrum...)
Svo versnar öllu meira í því. Eduardo Ponti (who?) var ofarlega á blaði. Aðallega vegna útlitsins, ég sá mynd af honum í blaði og fannst hann eitthvað voðalega sjarmerandi - til útskýringar er þetta sonur Sophiu Loren og er líklegast, eins og bekkjarsystur mínar vildu meina, óttalegur mömmustrákur. Ég er alla vega ekki svag fyrir ítölskum karlmönnum lengur svo ég sé ekkert eftir að hafa ekki reynt að elta hann uppi. Næsti maður á lista er annar hommi (og eins og George Michael ekki kominn úr skápnum á þessum tíma), Bergþór Pálsson. Það var bara einhver sjarmi við þetta breiða bros. Ég er alveg búin að fyrirgefa honum að finna sér góðan mann. Síðastur á listanum (og hérna kemur það sem ætti að vera ritskoðað) var Júlíus nokkur. Hann vann það sér eitt til frægðar að vera sonur Heiðars snyrtis og það var ástæðan fyrir því að hann komst á blað. Þetta var á þeim árum sem mér fannst Heiðar snyrtir svo frábær að ég var tilbúin að leggja ýmislegt á mig til að kynnast honum. Needless to say þá hef ég bæði komist yfir aðdáun mína á Heiðari og þroskast (vonandi) ögn svo ég held að það færi enginn á listann á svona forsendum í dag.fimmtudagur, ágúst 26, 2004

Og hvað prýðir góðan mann? 

Já, það var þessi listi sem ég rakst á (held ég síðan í 2. bekk í MA og þar af leiðandi svona 14 ára gamall) sem innihélt öll skilyrðin sem minn komandi maður þurfti að uppfylla. Fyrst voru það útlitsskilyrði (og dæmi svo hver fyrir sig hvað passar við Mumma...) Minn góði maður átti að vera dökkhærður, yfir 180 sm á hæð, hvorki of mjór né of feitur og með föngulegan rass. (Þarna voru fótboltalæriskröfurnar greinilega ekki konmar). Aðrar hæfniskröfur; hann átti að leika undurvel á píanó (til dæmis Tunglskinssónötuna), elska ketti (og alls ekki með ofnæmi), vera góður kokkur (og þar af leiðandi að elska mig feita), hann átti að kyssa vel og vera rómantískur og þurfti að fíla að hafa mig í huggulegum nærfötum. Mig minnir að þetta sé nú mest allt. Ég hef sleppt því að skrifa niður það sem mér þótti óyfirstíganlegir gallar, annars vegar mátti hann ekki elska fótbolta og hins vegar alls ekki vera sjómaður. Tvær dauðasyndir.
Giftingarlistinn kemur seinna (og þyrfti nánast að ritskoða hann...hvað var ég að spá?)

miðvikudagur, ágúst 25, 2004

Walking down Memory Lane 

Við erum á fullu að pakka og stöndum okkur gríðarlega vel (sem ætti að útskýra þessar löngu bloggfjarverur). Það sem er jákvætt við lítið geymslupláss í nýja húsinu er að maður neyðist til að henda eins og brjálaður. Þannig að ég tók það stóra skref í gær að henda gömlu möppunum mínum úr Menntaskólanum!! Það var pínu erfitt, aðallega vegna þess að þegar maður flettir í gegn áttar maður sig enn frekar á hvað maður er búinn að gleyma miklu. Mér finnst það algjör skandall (sérstaklega með frönsku og þýsku, minni söknuður í öðrum fögum). Ég rakst á ýmislegt skemmtilegt inni á milli, til dæmis bréfaskriftir milli mín og Elísu, lista yfir þá kosti sem væntanlegur eiginmaður þarf að búa yfir (sem Mummi uppfyllir að ótrúlega miklu leyti, sérstaklega ef maður tekur tillit til að hann á að minnsta kosti bróður sem getur spilað fyrir mig á píanó :) og fyrstu útgáfu af giftingarlistanum. Svo mér varð á stundum lítið úr verki á meðan ég las og grét úr hlátri. En þetta er mikið þarfaverk.

föstudagur, ágúst 20, 2004

Nýjustu tíðindi 

Jamm, við erum einu skrefi nær að verða virðulegir húseigendur. Við fengum gagntilboð í gær sem við samþykktum undireins, svo nú erum við bara í framtíðardraumunum, skoðum liti og spáum og spekúlerum hvað við þurfum að gera. Endanlegur fögnuður verður ekki fyrr en við undirskrift en þetta lítur allt vel út. Ég held að öll partý framtíðarinnar dæmist á okkur, það er frekar stutt að labba í bæinn (að maður tali nú ekki um öll ríjúnjonin ef við verðum nógu lengi.)

fimmtudagur, ágúst 19, 2004

Beðið í ofvæni 

Það er eitt og annað í gangi þessa dagana. Flest snýst um húsakaup því þannig er mál með vexti að við fengum tilboð í íbúðina okkar í fyrradag sem við gengum að. Svo ef það fer að óskum þurfum við að flytja út eftir þrjár vikur (úff...). Við fórum auðvitað hið snarasta á stúfana að athuga með draumahúsið, skoðuðum það aftur til að sannfærast endanlega og buðum í það í gær. Því miður verður maður víst að gefa eigendunum smá umhugsunarfrest, helst hefði ég viljað fá svar á klukkutíma, en það á að koma í síðasta lagi um hádegi í dag. Fingers crossed.

föstudagur, ágúst 13, 2004

Elsku kellingin mín 

Sóley átti alveg snilldartakta í gær. Sem við hjónin lágum uppi í rúmi fór hún í fyndna kastið sitt, kyssti okkur í bak og fyrir og vinkaði kröftuglega bless. Labbaði ögn frá rúminu, kom aftur og endurtók leikinn og gerði það svona þrisvar - fjórum sinnum. Þá spurði ég hvort hún vildi ekki líka kyssa Prinsa bless, en hann lá í sakleysi sínu á náttborðinu. Hún tók mig auðvitað á orðinu og rauk að honum með stútmunn. Hann skyldi ekkert hvaðan á hann stóð veðrið. Hún kom svo loks kossi á hann og þá vantaði bara að hann færi að spýta. Hann reisti sig upp og hristi hausinn svona eins og í hryllingi og þá fórum við náttúrulega að hlæja tryllingslega. Sóley espaðist öll upp við lætin í okkur og tók smá trúðslæti og við hlógum ennþá meira. Henni finnst ekkert sérstaklega leiðinlegt að vera miðpunkturinn.

Annars fékk ég mjög skemmtilegt símtal í gærkvöld, frá góðvini mínum frá því í gamla daga (mikið er gott að einhverjir eru duglegri að hringja en ég...) Hann var ansi hreint kátur og við áttum gott spjall. Meðal þess sem barst í tal var listinn minn góði sem var aðal efnið í pistlunum mínum hér fyrr í sumar. Hann spurði hvort ég myndi virkilega ekki hafa Samönthu Fox á listanum. Ehemm. Ég hef nú ekki séð nýlega mynd af henni en hún þarf að hafa elst virkilega vel til að komast anywhere near!

miðvikudagur, ágúst 11, 2004

Sólskin í heiði 

Mikið er extra indælt að vera til þegar er gott veður. Ég er búin að liggja úti á palli og hafa það gott, það eina sem vantaði var að hafa eitthvert pallavín við hendina, þá hefði þetta verið fullkomið.
Aðlögunin hjá dagmömmunni gengur annars með ágætum. Það var með sting í hjarta sem ég yfirgaf strumpuna mína í dag í fyrsta sinn en það gekk auðvitað vel. Mikið finnst mér samt skrýtið að horfa svona á aðra, nánast bláókunnuga manneskju sinna henni. Til allrar lukku hættir stúlkan sú sem hefur verið þarna áður á næstunni. Hún stuggar mjög við þeim nýju ef henni finnst þau eitthvað ganga á sinn hlut.
Vinnan aðeins að banka á dyrnar, við hittumst dönskukennarar í morgun og spáðum í haustið. Mjög gott að byrja rólega...

mánudagur, ágúst 09, 2004

Áthelgin mikla 

Ég geri orðið fátt annað en að skrifa átsögur hér inn, einhverjir sjá mig eflaust margfalda fyrir sér ;) En það var enn eitt matarboðið á föstudaginn, þá komu Helgi og Katrín frænka þeirra bræðra í mat. Eins og venjulega þegar þeir matbræður koma saman þá var vel veitt. Við fengum okkur rjómahvítlaukshumar í forrétt, tekílalegið fajitas í aðalrétt (smakkast betur en það hljómar) og ferska ávexti með sabayonsósu í eftirrétt. Allt saman verulega gott.

Á laugardaginn fórum við, eins og áður var auglýst, á Fiskidaginn mikla. Það var mjög gaman, við vorum snemma í því og komumst því að í mat án teljandi erfiðleika. Sóley sá brot af Brúðubílnum og skemmti sér hið besta en ég missti af aðalatriðinu (sem þó var endurtekið mörgum sinnum) sem var Fiskidagslagið. Svo fórum á kaffihúsið Sogn og fengum okkur eftirrétt ;) Því miður gleymdi ég að taka berjadall svo ég náði ekkert að fara í Hrísamóinn og kíkja á ber (það mætti halda að mér þætti gaman að tína ber, því fer auðvitað fjarri...)

Í gær var svo sem frekar lítið átsukk. Nema við vorum í eftirafmælisveislu að borða afganga. Ég fór líka í hörkugöngutúr í gærkvöld, yfir gömlu brýrnar í yndislegu veðri, svo þetta slapp allt saman til.

Í dag byrjaði Sóley í aðlögun. Það gekk vel (kannski ekki við öðru að búast, stutt heimsókn og mamma með...), hún bað Ráðhildi til dæmis að halda á sér, til að skoða nánar spiladós uppi á vegg. Hún var líka algjört gæðablóð við drenginn sem var líka í aðlögun, faðmaði hann og knúsaði í bak og fyrir, fékk svolítið knús tilbaka en mest var hann vandræðalegur yfir öllum þessum atlotum.

fimmtudagur, ágúst 05, 2004

Alvara lífsins 

Ágústmánuður er alvarlegur mánuður. Ekki nóg með að ég sé að vakna upp við vondan draum að nú verði ég hreinlega að fara að gera eitthvað til að undirbúa háskólakennsluna (þó ég ætli að gera sem minnst verð ég víst að leggja höfuðið í bleyti og finna eitthvað handa áhugasömu nemendunum...) og vinnan bara almennt að bresta á (sem er kannski ekki voðalegt eftir langt og gott sumarfrí) heldur er Strumpan að fara út í lífið líka. Hún er sem sagt að byrja í aðlögun á mánudaginn. Við Mummi fórum í fyrsta foreldraviðtalið í gær, áður en maður veit af verður hún unglingur og við að fá kvartanir yfir að hún tali mikið í tímum. Það er nettur hnútur í mömmuhjartanu þó svo ég viti innst inni að þetta fari allt vel. Hún verður eina stelpan í hópnum og verður sjálfsagt farin að stjórna með harðri hendi áður en ég veit af.

Útivistaræðið heldur áfram. Í gær fórum við Kristín í langa og góða göngu. Það lygilega við svona góða göngutúra er að maður gengur hálfan bæinn þveran og endilangan og samt tekur það enga stund. Ég held alltaf að það hljóti að vera liðnir margir klukkutímar þegar ég hef gengið í hálftíma.
Við fórum líka í sund í hádeginu í dag. Alltaf jafn gaman að fara með Sóleyju í sund. Hún er æst í rennibrautirnar. Fórum einmitt í sund á Dalvík á laugardaginn, að vísu í skítakulda, afi hefur ekki átt nógu gott spjall við veðurguðina. Við vorum fljót að gefast upp og svo tók steininn úr þegar kaffihúsið góða var lokað. Þessi opnunartími er eitthvað dularfullur. Síðasti séns fyrir þá að standa sig á laugardaginn, stefnan er að sjálfsögðu tekin á fiskidaginn mikla.

Svo sáum við Some Kind of Monster á sunnudaginn. Ekkert nema gott um hana að segja, nema mig langaði afskaplega mikið á tónleika aftur. Eyþór stúfur var með, myndin var ótextuð, svo ég hafði svolitlar áhyggjur af honum en ég held að hann hafi nokkuð haldið þræði. Hápunktur myndarinnar var hinn mjög svo furðulegi Torben Ulrich, pabbi hans Lassa. Varla séð skrýtnara eintak og til að kóróna furðulegheitin talaði hann sína fínu densku (sem er afbrigði af dönsku og ensku).

This page is powered by Blogger. Isn't yours?