<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, september 27, 2004

Iski mi 

Nei, ég er ekki orðin lesblind eða rugluð. Efni póstsins í dag er söngfuglinn dóttir mín. Hún er farin að syngja tvö til þrjú lög og titill dagsins er einmitt titillinn á uppáhaldslaginu hennar. Fiskinn minn, namminamminamm. Þetta syngur hún af hjartans lyst og hljómar svona "iski mi - amiamiam" eða nokkurn veginn. Þetta er alveg með því krúttlegasta :) Hin lögin eru Dansi dansi dúkkan mín (dansi gukka mi) og svo tók hún aðeins undir með Ómari Ragnarssyni í Liggaliggalá.

Í gærmorgun vorum við með "Breakfast Club". Við hittumst nokkrum sinnum síðasta vetur, þrjú pör úr vinnunni hans Mumma. Endurvöktum það í gær. Ótrúlega gaman að borða svona ríkulegan morgunverð í góðra vina hóp. Sóley á líka svo ágæta vinkonu í hópnum svo maður veit varla af þeim tveimur.
Við fórum í góða ferð í Svarfaðardalinn í gær. Skúli, frændi minn elskulegur, og vinnufélagi Mumma bauð okkur að sækja sig heim á ættaróðalið, Skeggstaði. Mummi tók engar leiðbeiningar niður í þeirri fullvissu að konan hans þekkti Svarfaðardal eins og lófann á sér og það stóðst nokkuð framan af. Ég þekkti nánast hvern bæ með nafni. En ég klikkaði á stóru atriði. Þannig er að Skeggstaðir standa í dalnum að austan og þegar við keyrðum inn afleggjarann var merking um að vegurinn væri lokaður við Hofsá. Ég vissi nokkurn veginn að það væri næsti bær við, en hvoru megin, það var ekki nógu skýrt. Svo við keyrðum fram dalinn að austan til þess eins að komast að því að Skeggstaðir væru sunnan við Hofsá og þar af leiðandi ekki hægt að komast þessa leið. En við fórum þá bónushring um dalinn og ég gat rifjað upp bæjarnöfnin að vestanverðu.
Ég var samt rétt búin að dást að sjálfri mér og hugsa um hvað afi gæti verið ánægður þegar Mistökin uppgötvuðust.

Ættaróðalið hans Skúla frænda míns er annars hið skemmtilegasta. Eldgamalt hús, pínulítið og ofurlágt til lofts. Það var sem sagt á leiðinni til og frá Dalvík sem Sóley Anna söng okkur til skemmtunar. Við endum á því að verða fjölskyldan sem syngur Fiskinn minn í bílnum.


miðvikudagur, september 22, 2004

Strengir eftir gærdaginn 

Þá er líkamsræktin hafin enn á ný og því til sönnunar er ég afskaplega stíf og stirð í dag. Nú er það tólf vikna námskeið (úffúff) með tilheyrandi aðhaldi. Ég naga gulrætur í gríð og erg. Það er erfitt að trappa sig niður úr súkkulaði og kökuátinu sem hefur verið undanfarið.
Ræktin lofar samt góðu. Verið að flikka upp á Bjarg og stefnir í nokkuð huggulega aðstöðu.
Ég fór ekki í vigtun í gær, svo ég veit ekki hverjar upphafstölurnar eru, en eitthvað segir mér að þær séu ekki þær sömu og í vor. Ehhemm. Og ekki víst að ég gleðji lesendur með vikulegu öppdeiti af kílóunum sem fjúka. Það verður að koma í ljós. Ég geri mér að minnsta kosti engar gríðarlegar vonir um sambærilegan árangur og í vor.

mánudagur, september 20, 2004

Afmælishátíðin mikla 

Þá er þeirri helginni lokið. Með glans verð ég að segja, mikið át og mikið gaman.
Á föstudagskvöld fengum við þá litlu mágana mína og svilkonu í heimsókn. Það var ósköp gaman. Tæmt úr tveimur rauðvínsflöskum og svona. Ég var samt í pínu stressi yfir tímaskorti, mér fannst að ég þyrfti í raun að eyða föstudagskvöldi í bakstur og tiltekt.

Á laugardagsmorgun skúbbuðum við Sóleyju til tengdamömmu og hófum átakið. Það stóðst að síðasta kakan var í ofninum þegar við fórum til tengdó í bröns í tilefni húsasölunnar (já, ójá, Kringlumýrin er loks seld!!!) Rukum svo heim í tiltekt og annan undirbúning og það stóð heima að þegar Bjarni kom fyrstur manna þá var ég að koma úr sturtu.

Kaffiboðið tókst með miklum ágætum. Húsfyllir, góðar kökur (meðal annars frá Bakaríinu við brúna, ég er enn að reyna að fá frá þeim aðra eins fullkomnun og á brúðkaupsdaginn - þetta var ansi nálægt lagi að þessu sinni), og góðar gjafir. Mummi fékk meðal annars Stóru garðabókina, sem honum fannst augljósasti kosturinn, í ljósi nýjustu aðstæðna!

Um kvöldið fórum við út að borða. Og það var tvöföld hefnd fyrir Greifabragðið hér á afmælisdaginn minn. Ég byrjaði á því að keyra í Lindina og lagði og drap á bílnum, en meikaði ekki lengra með það grín. Svo keyrði ég af stað út úr bænum (nb í rétta átt). Beygði til Dalvíkur, hafði fengið þá snilldarhugmynd frá Mumma sem hafði giskað á að við færum á Brekku í Hrísey. Sneri svo við hjá brúnni og beygði til vesturs. Keyrði sem leið lá, Hörgárdalinn og inn í Öxnadal. Mummi var orðinn mjög ringlaður (enda vissi hann ekki af þessum stað, svo það var ekki von).
Áfangastaðurinn var Háls í Öxnadal, en þar er veitingastaður sem heitir Halastjarna. Okkur var vísað í fordrykkjastofu og sátum þar um stund við kertaljós og dreyptum á hvítvíni. Settum svo til borðs og hófst þá átið. Þetta er lítill staður, þarna var átta manna hópur fyrir og hefðu komist tveir í viðbót, svo matseðillinn var einfaldur. Það var fjögurra rétta máltíð óvissumáltíð.
Það sem við fengum að borða var rækjusúpa í karrý og kókos, saltfisktartar (hrá saltfiskstappa, betra en það hljómar, reyndar mjög gott), lambaprime með rósmarín og döðluterta með ís og rjóma. Allt saman alveg ljómandi ljúffengt.
Staðurinn svo yndislegur, allt gamalt og ósamstætt og ekki spillti fyrir að undir lokin voru köttur og hundur farin að labba um (að fengnu leyfi okkar) og falast eftir knúsi.
Sem sagt, afskaplega vel lukkað kvöld.

Í gær, á sjálfan afmælisdaginn, tókum við því heldur rólegar. Fórum í heimsókn til ömmu og afa hans Mumma og fengum Helga mág í mat og pabba og Höllu í kaffi í gærkvöld. Þvílíkur munur að vera búinn að koma efri hæðinni í gott stand og neðri horfir til betri vegar. Það er að minnsta kosti búið að reisa bókahillurnar upp, gekk ekki þrautalaust, því þær eru rétt aðeins lægri en loftið og þurfti miklar kúnstir þegar þær voru reistar.

fimmtudagur, september 16, 2004

Í sjokki 

Þið þurfið væntanlega ekki að hugsa ykkur lengi um til að átta ykkur á út af hverju það er. Ég var að fá fréttir af konunglegum skilnaði. Svo bregðast krosstré segi ég nú bara og skrifa. Vegna anna hef ég ekkert fylgst með í dönsku pressunni í nokkurn tíma og þess vegna kemur þetta mér í opna skjöldu.
Og það er sem sagt óGEÐSlega mikið að gera. Afmælið um helgina og allt það. Ég er að brenna yfir um, get ekki talað eðlilega (eða eins og mér var unnt áður) eða neitt. Vona að þetta standi til bóta í næstu viku.

mánudagur, september 13, 2004

Flutt 

en ekki hætt að blogga. Enn er allt á hvolfi og engin tölva nettengd heima (já, ég segi engin því það hefur fjölgað í tölvufjölskyldunni). Og það virðist vera samsæri í gangi í vinnunni, því ég þarf að hlaða bloggsíðunni ótal mörgum sinnum til að komast á leiðarenda. Ekki hvetjandi.

Nýja húsið leggst vel í mig. Kassarnir gera það hins vegar ekki og það liggur við að ég sé þunglynd yfir öllu sem bíður. Þess vegna fór ég í leikhús í gær til að lyfta andanum á hærra plan. Ég gaf Mumma sem sagt árskort í leikhús, sem svona bónusafmælisgjöf - ég nýt þá góðs af henni. Við sáum Brim og það var mjög skemmtilegt. Gríðarlega fyndið á köflum, þess á milli sorglegt. Ég lifði mig óskaplega inn í (eða eins mikið og ég get lifað mig inn í sjómannslífið eh). Gaman að eiga þrjár sýningar inni.

mánudagur, september 06, 2004

Helstu húsafréttir 

Jæja, það er aldeilis búið að vera nóg að gera um helgina. Við fengum húsið okkar klukkan sex á föstudag. Ég sleppti haustferð VMA til að geta tekið við húsinu (og það var víst ógeðslega gaman, aber ja!). Það varð reyndar ekki mikið úr verki þann daginn, en við náðum alla vega að kaupa svefnsófa svo Óli og Eygló gætu vígt húsið fyrir okkur. Annað var lítið gert (nema auðvitað að ganga um og ná almennilega áttum.)

Á laugardaginn hófst vinnan fyrir alvöru. Stubba sett í pössun til afa og ömmu og við fórum að mála. Það er skemmst frá að segja að það gerðist lítið á laugardag, svo ég var farin að spá í hverju væri best að sleppa á efri hæðinni (og löngu búin að gefa neðri hæðina upp á bátinn.) Það var straumur af fólki að koma að skoða og hitt og þetta sem þurfti að erindast. Við tókum niður eldhúsviftuna og skápinn utan um hana og stefnum að því að kaupa háf (sem er ekki einfalt mál þegar maður er með eldavél úti í horni.)

Nema hvað, í gær fór þetta loks að ganga. Við fengum elskulegan svila minn til aðstoðar og hann málaði einn og sér svefnherbergið, tvær umferðir. Við náðum að klára stofuna og eina umferð á rest (eina og hálfa á Sóleyjar herbergi, það kláraðist liturinn. Málið aldrei gult yfir dökkblátt.)

Það verður haldið áfram af kappi í dag. Ég má ekkert vera að því að vinna, helst vildi ég taka mér frí, en ég undirbý mig bara að lágmarki í staðinn. Eins gott að maður er að verða gamall í hettunni.

Við misstum af Sóleyju í réttum á laugardaginn. Hún skemmti sér víst konunglega, vildi helst fá að draga í dilka held ég.

Ég er enn með málningu í hárinu, ef vel er að gáð. Ég nota pensla og eigið hár nokkuð jafnhendis við málningarstörfin.

föstudagur, september 03, 2004

So be it 

Það sem litlu ungarnir manns eru virkir. Enn sannaðist hið fornkveðna í morgun með eyrun hennar Sóleyjar sem alltaf eru að. Ég fór yfir á vafasömu gulu þegar ég var að beygja inn á Mýrarveginn á leið til dagmömmunnar og sagði við sjálfa mig "So be it". Heyrist þá ekki aftur í (voða lukkuleg frökenin) "Só bít". Þetta endurtók hún reglulega þar til við komum til Ráðhildar.

Annars er stór dagur í dag. Við fáum húsið nefnilega afhent :) Jei. Erum búin að hanga yfir þeim eins og gráir kettir síðustu daga og fengum þetta í gegn. Fórum inn í nýja húsið OKKAR í gær og þá hellist raunveruleikinn yfir mann. Þetta er að gerast. Sóley trylltist þegar við fórum því hún var búin að skemmta sér hið besta við leik í garðinum. Hún er náttúrulega með víðáttubrjálæði þar.

Svo stefnir í að Óli og Eygló verði fyrst til að vígja húsið. Þau eru að koma norður og var lofað gistingu en nú er allt í drasli heima og varla hægt að stíga niður fæti, hvað þá troða þeim niður.

miðvikudagur, september 01, 2004

Góður gærdagur 

Afmælisbarn gærdagsins var ég. Dagurinn var ósköp hefðbundinn framan af, ég var að vísu góð og kom með köku í vinnuna, bara vegna þess að ég er svo mikill grís að ég vil að aðrir séu virkir á sínum afmælum og þá verður maður víst að standa sig líka.
Eftir vinnu fórum við að skrifa undir kaup- og sölusamninga, svo það er endanlega frágengið. Mikil gleði það. Annað markvert gerðist nú ekki fyrr en um kvöldið en þá fór leynileg aðgerð Mumma í gang. Hann tók mig sem sagt út að borða og það var ógurlegt leyndó. Hann náði aðeins að gabba mig þegar ég var að útlista að ég gerði mig ánægða með hvað sem er, nema Greifann, mig langaði eitthvað aðeins nýstárlegra. Hann setti þá upp einhvern voða sárindasvip þannig að ég hugsaði að það væri auðvitað týpískt að við værum á leiðinni þangað fyrst ég hefði álpað þessu út úr mér! Hann keyrði auðvitað niður að Greifa til að halda gríninu úti en fór þaðan í miðbæinn og lagði miðja vegu á milli helstu staða bæjarins. En við fórum á Friðrik V. Heldur flottara en ég átti von á því Friðrik V. er besti staður bæjarins og við höfum ekki farið þangað nema við hátíðlegustu tilefni. En auðvitað voru mörg tilefni í gær. Það var auðvitað húsið og ég og svo áttum við Mummi 6 ára trúlofunarafmæli (sem er lygilegt svona eftir á að hyggja, mér finnst stutt að trúlofast eftir tveggja ára samband, en ég setti víst pressu á Mumma með það því ég var svo trúlofunardesperat!)
En hefst þá upptalning á lúxuskvöldinu. Við skelltum okkur auðvitað á gourmet matseðil eins og við gerðum í fyrra. Þá velur Friðrik rétti handa gestunum og kemur sjálfur fram og útlistar hvað hann er að bjóða upp á. Fyrst fengum við bara þetta standard brauð en fyrsti rétturinn sem við fengum var kinda-carpaccio. Trúið mér, það hljómar ekki endilega vel en bragðast framar öllum vonum. Næst fengum við sjávarréttaþrennu, sem samanstóð af tígrisrækju í hvítlauk, humri og krabbasúpu. Hvert öðru betra. Síðan fengum við bláberja-sorbet, algjört jumm. Aðalrétturinn var svo tvískiptur, annars vegar rauðvínseldaðar nautalundir og hins vegar snöggsteikt lambafíle (eða kótelettur, þetta var með beini). Það var ómögulegt að gera upp á milli, þetta var bæði alveg óhemju gott. Á eftir þessu fengum við þrjú eftirréttasmökk, hvítvínslegið mangó með melónusorbet, bláber með créme brulée og jarðarber í balsamic sýrópi með kókosfrauði ofan á. Fyrir mig, litla eftirréttagrísinn var þetta bara eins og að fá .... (ehemm). Síðan enduðum við á því að fá aðal-eftirréttinn, bakaðan súkkulaðibúðing með ís og hindberjasósu. Klassík sem við höfum áður fengið.
Ef þið hafið ekki borðað á Friðrik V. þá skuluð þið endilega láta verða af því við fyrsta tækifæri (kostar en er hverrar krónu virði).
Heima helltum við svo í okkur kampavíni sem hafði beðið eftir endanlegri undirskrift. Þar sem ég var búin að drekka vel af rauðvíni áður þá var ég pínu rykug þegar ég vaknaði í morgun. En allt vel þess virði.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?