<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, október 28, 2004

Montsögur 

Það stefnir í að ég bætist í hóp óþolandi foreldra (jæja, ég er sennilega komin þangað nú þegar). Ég er bara svo óumræðanlega stolt foreldri núna. Dóttir mín kemur mér sífellt á óvart. Ég er nú þegar búin að nefna hvað hún er farin að syngja mikið (nú hefur bæst meira við því hún syngur Afi minn fór á honum Rauð og part af Allir krakkar - svo þegar hún vill syngja Upp á grænum grænum þá segir hún kjimmi kjimmi) en það allra flottasta er að hún er farin að telja upp í níu. Það er ótrúlegt að heyra svona lítið kríli, rétt fær um að tala, telja eins og ekkert sé. Ef ég á að vera alveg heiðarleg þá sleppir hún stundum einstaka úr, það er auðvitað eins og gengur og gerist.

laugardagur, október 23, 2004

Algjört uppáhald 

Ég hef alltaf gaman af því að lesa blogg sem fjalla um uppáhöld - til dæmis var það barnabókarbloggið hennar Ljúfu (sem looooks er komin á tenglana mína) mjög skemmtilegt - fær mann til að spá í sömu hluti.
Það sem ég er að spá með þessu bloggi er hvað það er fyndið að það eru ákveðin lög sem maður væri svo innilega til í að geta sungið svo vel færi. Ég er búin að vera að hlusta á eina af mínu uppáhaldsplötum núna og á henni er einmitt svona lag.

I know someday you’ll have a beautiful life, I know you’ll be a starIn somebody else’s sky, but whyWhy, why can’t it be, why can’t it be mine.
Úff það er svo flott en það geta bara ekki allir sungið úhhh svo vel fari.

Danskir dagar 

Ekki þó þessir í Nettó, heldur ætla ég að láta verða af því að gefa upp nöfn af danska hjásvæfulistanum mínum, þessum sem ég má ekki vera með í gangi (af því að það er jú bara leyfilegt að hafa fimm á hjásvæfulista - ég fékk held ég sérlega undantekningu til að gera konulistann minn og held að hann sé í fullu gildi). Eins og fróðir menn og konur muna, eru reyndar tveir Danir á hinum eina sanna hjásvæfulista, annars vegar Friðrik minn prins og hins vegar Viggo minn Aragorn Mortensen. Þannig að ef ég fengi í raun að hafa einn lista bara með dönskum mönnum, þá væru þeir á honum.
Ég nefndi hér í umfjöllun um Krøniken, að hann Palli sæti væri á listanum. Hann gengur annars undir nafninu Anders W. Berthelsen og er 35 ára. Ég hef verið skotin í honum síðan hann lék í Mifunes sidste sang og átti þar stórleik.
Síðan er það að sjálfsögðu Peter Mygind (öðru nafni Nikolaj). Hann er fæddur 63 og deilir afmælisdegi með Önnu systur. Einhverjum fannst hann alltof mikill aumingi hann Nikolaj en ég leit hann fyrst og fremst girndarauga. Hann er víst óskaplegur Íslandsvinur, enn ein ástæða fyrir að fá ekki að hafa hann á virkum lista!!
Að lokum er það kandídat sem ég er sérlega stolt að kynna. Hann heitir Mads Mikkelsen, er að verða 39 ára og þekkist helst fyrir hlutverk sitt sem Fischer í Rejseholdet. Ástæðan fyrir því að ég er sérlega stolt af honum á listanum, er sú, að mér finnst hann í raun ekkert sætur en hann hefur eitthvað við sig. Það er ótrúlega kúl að vera ljótur og sexí. Það er von fyrir alla, after all!

Mér finnst þessi listi líka merkilegur fyrir þær sakir að danskir karlmenn eru yfirleitt ekki sérstaklega aðlaðandi. En skál í Jolly Cola (sem ég er einmitt að súpa á) fyrir þessum góðu og efnilegu sem þó finnast.

fimmtudagur, október 21, 2004

Upprifjunarblogg 

Þá er það upprifjun á síðustu viku eða svo. Hún hefur verið dálítið þétt skipuð. Fyrst skemmtanalífið, sextugsafmæli einnar sem vinnur með mér var fyrir viku, haldið með pompi og pragt í Sjallanum - alveg ógurlegt stuð, og svo kennaraþing á föstudag, ekki alveg eins mikið stuð, en gaman þó eftir að þinginu sjálfu lauk. Þá var matur og djamm á Breiðumýri í Reykjadal.

Síðan fórum við skötuhjúin í langþráða kaupstaðarferð, barnlaus og fín. Gistum á Hótel Nordica í dásamlegu yfirlæti, komumst reyndar ekki í Spa af því að það var búið að loka þegar við tékkuðum okkur inn, en við vorum í indælis herbergi.

Sunnudagurinn fór að mestu í heimsóknir og át, með öðrum orðum, ákaflega vel heppnaður dagur. Kaupstaðarferðin sjálf var svo á mánudaginn. Við keyptum eitt og annað, aðallega hluti handa fröken dekurrófu, nýjan barnastól til að bjarga fegurðartilfinningu minni í eldhúsinu (og jájá, ég losnaði við risaljótaflykkið) og aðal dæmið - nýtt rúm. Prinsessurúm, hátt, með leiksvæði undir og það sem meira er, það er yfirbyggt hús og turnviðbygging. Þetta settum við að mestu saman í gærkvöldi og nótt (já ég segi og skrifa nótt, við ætluðum að klára þetta en gáfumst upp þegar við lentum á gallaðri ró en þá var klukkan líka að verða tvö). Svo strumpa er ekki búin að sjá fíneríið og verður fyndið að sjá hvernig hún bregst við.

Til heimilisins keyptum við smotterí. Aðalerindið gekk að minnsta kosti, við fundum háf í eldhúsið og hann ætti að fara að berast okkur hvað úr hverju. Það þarf að vísu að leggja í framkvæmdir til að koma honum upp svo það verður kannski ekki á næstunni.

Ferðin var að minnsta kosti dásamleg. Dýr en vel þess virði. Enough said.

fimmtudagur, október 14, 2004

Sunddrottningarnar 

Við mæðgur byrjuðum á sundnámskeiði á laugardaginn var. Það var mikið fjör, eins og við var að búast. Maður nýtur þess nú aldeilis að búa svona nálægt sundlauginni. Tekur ekki nema svona tuttugu mínútur að labba þegar litlu fæturnir fá að labba sjálfir. Þeir þurfa að koma víða við á leiðinni. Eitt aðal sportið í tímanum var að hlaupa á dýnu sem er í lauginni og hoppa út í. Það var "meira" kór lengi á eftir.

Annars fór ekki svo að dóttir mín lærði ekki eitthvað af því að horfa á Bamse og kylling. Verst að það er kannski ekki það sem ég hafði í huga. En nú kann hún altént að segja I love you og er ljómandi kát yfir athyglinni sem hún fær út á það.

Tókum skurk á neðri hæðinni í gær. Þegar tómu kassarnir fara, fer þetta að líta eðlilega út. Ja, svona næstum. Við fáum líklegast einhvern í gistingu frá RT um helgina. Það er gott að fá spark í rassinn svona öðru hverju.

föstudagur, október 08, 2004

Óvart 

Ég ætla ekki að vera svona léleg að blogga. Það bara hjálpast allt einhvern veginn að. Tölvurnar í skólanum í algjöru bulli, virkilega mikið að gera (verið að níðast á nemendum og setja í próf í stórum stíl) og þar fram eftir götunum. Aðallega tvennt sem ég ætla að gera að umfjöllunarefni.
Í fyrsta lagi er það Krøniken. Mikið lofar þátturinn góðu. Sunnudagskvöld undirlögð héðan í frá.
Í þáttunum leikur einn af danska hjásvæfulistanum mínum (ef ég mætti hafa hann í gangi), heitir réttu nafni Anders W Berthelsen en leikur Palla í þessum þáttum. Takið eftir hvað hann er sætur.
Hins vegar hófst aftur danska kvikmyndahátíðin hér norðan heiða. Við þrjár gömlu samstarfskellurnar úr Síðuskóla hittumst heima á miðvikudagskvöld og horfðum á Rembrandt. Hún var býsna skemmtileg (fyrir áhugasama má benda á að hún fæst á betri myndbandaleigum) sem er jákvætt, úr því ég á hana, kaupin hafa verið misgóð.
Annars er afmælisbarn dagsins Árný frænka mín. Hún er þá aftur orðin ári eldri en ég. Til hamingju með daginn!

föstudagur, október 01, 2004

Þungavigtarblogg 

Ég get varla á mér setið að blogga um niðurstöður þyngdarmælinganna allra, þó svo árangurinn sé ekkert til að hrópa húrra yfir. En þannig var að ég fór í upphafsmælingu á fimmtudaginn í síðustu viku og hafði þá, mér til mikillar gleði, tapað einu kílói yfir sumarið. Geri aðrir betur á fjórum mánuðum :) Önnur mæling fór svo fram í gær, og það var sem mig grunaði, Breakfast Club og önnur ógæfa í vikunni vóg ansi þungt og vigtin stóð í stað. Eina huggun mín var sú að fitumælingin sýndi að það höfðu í reynd farið 200 grömm af fitu, eða 40% af venjulegu smjörlíkisstykki (cirka 13 lítil smjörstykki). Ég verð að taka mig aðeins á í þessari viku sem framundan er (segir sú sem er nú þegar búin að kaupa fullt af nammi fyrir nammidaginn...)

Nú er að hefjast dönsk kvikmyndahátíð í Reykjavík - bölv bölv - sem lýkur að sjálfsögðu áður en ég kem í borgina um miðjan mánuðinn. Það er við þessi örfáu tækifæri sem maður spælist yfir því að vera í einangrun hér f. norðan. Að vísu á ég tvær af sýningarmyndunum á DVD, eins og venjulega eru þeir ekkert allt of mikið öpptúdeit. Ég treysti á dönskukvikmyndafulltrúa minn Miss Sacher að fara og sjá einhverja myndina fyrir mína hönd! (sem btw hefur alveg klikkað á að senda mér ferðasöguna frá DK). Ég hugga mig við að RÚV er að byrja að sýna danskan þátt á sunnudagskvöld. Öll símtöl vinsamlegast afþökkuð á þeim tíma!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?