<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, nóvember 26, 2004

Uhhmm 

Needless to say, þá var Palli æðislegur. Í fantaformi og það gerði ekkert til þó þetta væri nánast copy/paste síðan í fyrra. Ég væri til í að hlusta á hann árlega. Hann tók mjög blönduð lög, mest af diskunum þeirra tveimur, tvö af "Palla" og svo samtíning; Ást við fyrstu sýn, Yndislegt líf og síðast en ekki síst "Ást" sem hún Ragnheiður Gröndal á mestan part í (með honum Magnúsi Þór). Palli lýsti yfir vonbrigðum sínum með að hafa ekki fengið að syngja þetta lag fyrstur manna inn á plötu. Það var ofboðslega vel flutt (þó ekki eins vel og frumútgáfan, sem er auðvitað sérdeilis vel gert) og tárin láku hjá mér. Kannski ekki bara vegna þess að Palli gerði þetta vel heldur líka með tilliti til kringumstæðna, ég heyrði þetta flutt í kirkjunni í vor, á jarðarför gamallar vinkonu.
Hann var með stúlknakór kirkjunnar í bakröddum í "Himnaganga" og "A Spaceman came travelling" og það var líka alveg frábært, sérstaklega í þessu síðarnefnda. Það var gæsahúð og tár og allur pakkinn. Algjört konfekt.

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

Palli ó Palli 

Júhú, ég er að fara á tónleika í kvöld með Páli Óskari og Moniku. Fengum smá forsmekk í gær á Glerártorgi. Sóley var meira að segja álíka heilluð og ég og er þá mikið sagt. En sem sagt, jeg glæder mig vældigt.

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Kíkó 

Ég held að okkur (eða sennilega ber ég stærsta ábyrgð) sé að takast að gera Strumpuna að algjörri pæju. Nú er aðal fjörið að vera með tíkó - hún pantar hann á morgnana og gengur svo um og sýnir (Sóley kíkó). Í gær fékk hún svo spennu (af því að ég var með spennu) og hún var alsæl með hana, nema þegar hún var sett í háttinn og fékk ekki að sofa með hana! Þetta getur bara endað með ósköpum :)

Það smá minnkar á todo listanum. Ég er samt hrædd um að það verði einhver vinna um helgina. Hún verður bara að bíða þangað til á sunnudagskvöld, svo maður geti verið svoldið sósjal.

mánudagur, nóvember 22, 2004

Öll að róast 

Jamm, hvort ég er komin í alls herjar kæruleysisvímu eða er bara að ná áttum og yfirsýn, það er ekki gott að segja. En ég fór að minnsta kosti með töskuna heim um helgina og gerði smá - það átti að vera meira, en ég er raunsæ kona og er þakklát fyrir að það varð eitthvað úr verki.

Fórum í bíó í gær, hjónin. Það telst orðið til tíðinda. Fyrir valinu varð Cohen mynd; Bad Santa. Ég get alveg snarlega mælt með henni, sérstaklega ef þið eruð á annað borð fyrir Cohen. Kolsvört og tragísk. Ég fórnaði Krøniken, þarf þá að fara að horfa á hann við fyrsta tækifæri. Barnfóstran litla fékk meira að segja að fara með í bíó (sá skuldar mér mikið pass eftir að ég bar úr Fréttablaðið í 13 stiga frosti fyrir hann!!)

Svo virðist mér sem það þurfi að fara að sýklahreinsa íbúðina, ef ég á að treysta því að fá Fr. Sacher í heimsókn. Eða gefa henni vín við komu :) Við erum amk strax farin að hugsa á gourmet nótunum fyrir helgina. Enn ein sukkhelgin framundan. Ahh þetta er indælt líf.

föstudagur, nóvember 19, 2004

Enn á barminum 

Já, það er ekki laust við að það sé nett stress í gangi. Ógeðslega mikið sem bíður og ofan á allt var Strumpa lasin í gær. Heimurinn er svo harður að henni var skúbbað til Ráðhildar í morgun svo að ég fengi smá vinnufrið (ég er kannski ekki eins vond og þetta hljómar en þetta er samt harður heimur - maður fær ekki að vera veikur í friði, er hrint á milli aðstandenda og svo beint í pössun þegar heilsan lagast).

Ég býst frekar við, samt, að hlutirnir reddist svona eins og þeir gera venjulega. Hmm, hvað er það versta sem gæti gerst?

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Pæjusögur 

Strumpan fór í sína fyrstu prófessjónal klippingu í gær. Fram að því hafði ég séð um að hárið væri snyrt enda sá ég fyrir mér að það væri ekki leggjandi á nokkra manneskju að klippa forvitna belginn. Nema hvað, sú stutta gekkst mjög upp í þessu og var bara eins og fín dama. Þetta var ekkert mál, hún dáðist bara að sér í speglunum og var mjög upprifin. Það kom aðeins upp eitt vandamál og það var tengt mömmunni. Fína heimaklippingin var (eins og mig grunaði) ekki alveg nógu hentug. Svo nú er Sóley með tvo toppa, annan stuttan og hinn síðan (sem mamman klippti einhvers staðar úr miðju hári).

Við fórum í smá jólakortamyndatöku í gær, hún var sett í sitt fínasta púss og mynduð í bak og fyrir, en við náðum ekki að skoða útkomuna. Það er ögn auðveldara að fá hana til að brosa núna en í fyrra. Núna tók Kusa bara reglulegt flug og það var nóg til að gleðja mann ógurlega. Oft.

Annars er helgin búin að vera fín. Vorum með Gylfa, Arnheiði og Eyþór (sem ég er reyndar að fá til ættleiðingar í dag) í afmælismat, í tilefni fimmtugsafmælisins og svo kaffi fyrir pabba og tengdó á sunnudag. Nóg að borða. Strumpa hafði annars náð í ælupesti tvö á miðvikudag og smitaði okkur bæði, þannig að ég var veik á fimmtudag og Mummi á föstudag og aðeins áfram. En það slapp að minnsta kosti til fyrir þetta mikla át.

Nú styttist í próf. Það skýrir að einhverju leyti bloggdeyfðina. Ég get örugglega leyft mér að vera duglegri í prófatímanum sjálfum. Núna er ég bara á barmi taugaáfalls yfir öllu sem bíður.

mánudagur, nóvember 08, 2004

Strumpan skoðar heiminn 

Við fjölskyldan fórum í sund í gær, komumst ekkert á námskeiðið á laugardaginn af því að Sóley var með gubbupest. Það var hins vegar búið að lofa sundi og við það var staðið.
Nema hvað, Sóley var ógurlega fyndin þegar við komum upp úr. Hún áttaði sig nefnilega allt í einu á því að hún væri með geirvörtur. Horfði glöð á þær, studdi svo sitt hvorum vísifingri á þær. Þá spurði ég hvort hún væri með brjóst, hún játti því, heldur betur stolt í bragði. Ég ímynda mér að þetta sé svipað og þegar strákar fatta að þeir eru með typpi.

Annars er afmælisbarn dagsins Gulli frændi mér, nálgast nú óðum þrítugt. Gulli minn, ég er ekki með netfangið þitt, til hamingju með daginn!

laugardagur, nóvember 06, 2004

Vááááá 

Jamm, ég var á tónleikunum í gær. Ahhhh. Felt like old times. Það eru engin orð sem lýsa gleði minni yfir að vera þarna. Og þó svo ég hafi auðvitað út á ýmislegt að setja, þá hefur það í raun ekkert að segja. Ég held reyndar, að ég væri til í að eiga áskriftarkort á Synfóníuna, kannski bara grænt, en samt, ef ég byggi í Reykjavík.
Þetta stóð nú samt tæpt. Fluginu mínu frá Akureyri seinkaði, og var tæpt fyrir, þannig að ég kom út úr vél klukkan tuttugu mínútur yfir sjö og tónleikarnir byrjuðu hálf átta. En þökk sé ástkærum bróður og mágkonu komst ég á staðinn og inn í tíma.
Fyrir hlé var Synfónían með prívat gigg. Ég er ótrúlega hrifin af aðgengilegri klassískri tónlist þrátt fyrir að hlusta sjaldan af fyrra bragði. Þetta var virkilega fínt. En auðvitað ekki það sem ég kom til að sjá.
Ég fæ sting í hjartað við það eitt að sjá félaga mína í Nýdönsk. Og nei, ekki halda að ég sé svona skotin í þeim öllum, það er ég ekki, nema kannski á einhverju sex ára plani. Þeir eiga bara svona soft spot. Við eigum okkur fortíð. Óli Hólm á sérlega mikinn soft spot. Ef ég hefði móðureðli mætti segja að hann höfðaði til þess, hann er svo yndislegur. Hefur ekkert breyst þessi sextán ár sem leiðir okkar hafa legið saman. Stefán á bara soft spot þegar hann syngur Cheers, sem hann gerði auðvitað ekki í gær. Jón á svona soft húmor spot, ég kann ógurlega vel við hann. Björn Jr á svona hate/love spot. Ég veit ekki hvort ég hata að elska hann eða elska að hata hann. Bæði og. Ég var nú svo vel staðsett að sitja í beinni línu frá honum þannig að ég gat hatað hann og elskað í tíu metra fjarlægð eða svo.
Að tónlistinni. Þeir gerðu mig alsæla strax í fyrsta lagi, því þeir tóku mitt aðal uppáhaldslag, Skynjun (ekki það að það hafi verið hægt að sleppa því á svona tónleikum). Útsetningin ekki alveg að mínu skapi, mér fannst byrjunin ekki góð en batnaði svo. Svo tóku þeir tvö lög sem ég þekkti ekki, annað reyndar nýtt, held ég (og ég ekki nógu vel að mér í síð-Nýdönsk). Fjórða var svo Svefninn laðar, enn eitt af mínum uppáhalds. Full áköf útsetning fyrir þetta látlausa lag.
Svo voru lögin svona misþekkt, ekkert kannski sérlega vinsælt (eiginlega sem betur fer vegna þess að það var gott að vera laus við klénu deildina) fyrr en þeir tóku Flugvélar. Mér finnst það æðislegt lag og það allt, kannski ekki þess legt samt að það þurfi að klappa þegar það byrjar og svo er auðvitað mínus að tengja það alltaf við Flugfélag Íslands. Þeir enduðu svo á Klæddu þig og tóku tvö aukalög.
Það sem böggaði mig var eiginlega tvennt. Ég hefði annars vegar auðvitað vilja fá Daníel Ágúst með. Þó ég elski Nýdönsk vissulega svona, þá er enn hola í hjartanu þar sem Daníel var. Þeir ná aldrei að loka sárinu alveg. Hins vegar saknaði ég auðvitað nokkurra laga. Ég hefði til að mynda vilja heyra eitthvað af eftirtöldum; Allt, Ekki er á allt kosið eða Eplatré (allt snemm-Nýdönsk). En eins og ég sagði áðan, þeim var fyrirgefið allt, fyrst þeir tóku Skynjun. Og nú þarf ég bara að bæta mig í síð-Nýdönsk, engin miskunn Sóley, út með Fiskinn minn og inn með Nýdönsk. Það þarf hvort eð er að bæta tónlistaruppeldið.

Eftir tónleika fór ég svo í heimsókn til Önnu Lilju og átti þar góða stund.
Heimferðin gekk hins vegar alla vegana. Fyrst var seinkun á flugvélinni og svo eftir svona tíu mínútna flug var okkur snúið við vegna bilunar. Þannig að ég lenti klukkutíma á eftir upphaflega áætluðum tíma. Kom heim til veikrar dóttur, Sóley var með ælupesti og hafði verið veik um nóttina og eitt af hennar fyrstu verkum var svo að æla yfir mig. Ég er ekki besta móðir í heimi þegar kemur að svona, ekki það að ég sé vond eða neitt svoleiðis, ég á bara svo erfitt með að þrífa ælur. Ég man að þetta var eitt stærsta áhyggjuefni mitt hér í den þegar ég spáði í foreldrahlutverkinu. ;)

föstudagur, nóvember 05, 2004

Á vit ævintýranna 

Jamm, þá er það Nýdönsk í kvöld, svo fremi sem það verður ekki aska yfir öllu Norðurlandi! Það má að minnsta kosti ekki tæpara standa, þar sem ég lendi klukkan sjö og tónleikarnir byrja hálf átta. Mig dreymdi þá í nótt, og nema hvað, til aðstoðar höfðu þeir Metallicu :) Ég var smá stund að átta mig í morgun af hverju ég hefði ætlað í Metallicu bolnum mínum á tónleika... Þá hefði Mummi líka orðið spældur að senda mig eina á tónleika.

Annars er Sóley farin að sýna tilburði að bíta frá sér. Hún hefur aðeins gert þetta heima og við vorum að spá í hvaðan hún hefði þetta. Að sjálfsögðu datt okkur fyrst í hug sá eini sem er hjá Ráðhildi sem á eldri systkini. Þegar ég spurði Ráðhildi hvort Sóley gerði þetta hjá henni þá var það ekki, en sá grunaði hafði einmitt átt þetta til í nauðvörn. Svo kemur Mummi með þær fréttir í gær að hún hafi byrjað að bíta hjá Ráðhildi. Hún var sett út í skammarhorn og varð víst illa móðguð. En eitthvað hafði það að segja því að henni varð alltaf litið á Ráðhildi þegar hún var að spá í að bíta meira og hætti við!

miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Sukkviðbjóður 

Ég átti alveg eftir að skrifta eftir síðustu helgi. Einhvern veginn sat svo fast í mér þegar ég var að íhuga að blogga að ég hefði ekkert gert en það er sem sagt ekki rétt. Okkur Mumma var boðið í mat til Hönnu og Ármanns á laugardagskvöld og slógum öllu upp í allsherjar kæruleysi og fengum tengdamömmu til að passa fyrir okkur. Fórum í æðislegan mat, lúðu og skötusel í aðalrétt og dúndur súkkulaðiköku í eftirrétt (Ármann er, held ég, konungur eftirréttanna). Með þessu drukkum við alls kyns hvítvín, mest eitthvað pallavín en það getur verið allt í lagi að drekka það. Svo smakkaði ég viský sem var allt í lagi - það telst til tíðinda á mínu heimili þannig að ég ákvað að smakka okkar viský þegar heim var komið. En það var hins vegar, eins og mig minnti, alveg hræðilega vont. Ég kom loks fyrir mig eftirbragðinu, það var nákvæmlega eins og ég ímynda mér eftirbragðið eftir að sleikja öskubakka. Ég mæli með að menn haldi sig langt frá Ballantine's.

Á sunnudaginn var svo dönskukennara/gestakennara kaffi hjá Nönnu. Það var líka ljómandi skemmtilegt og gott með kaffinu. Við ætlum að endurtaka leikinn og hittast yfir mat á laugardagskvöldið. Ég fór svo með kökuafgang til Kristínar á sunnudagskvöld, nú erum við búnar að gefast upp á köllunum okkar og erum komnar í bandalag að horfa á Krøniken saman.

Í kvöld er svo fyrsti hittingur hjá Krimmaklúbbnum. Mér líður eins og slæmum nemanda því ég er ekki búin að klára bókina sem við erum með. Rauði úlfurinn e. Lisu Marklund. Ekki það að hún er ágæt, við fengum bara full stuttan fyrirvara. Það er svona, þegar maður getur ekki lagst upp í rúm og lesið þegar manni dettur í hug. Ég er líka búin að vera óvenju þreytt á kvöldin og sofna iðulega fyrir framan sjónvarpið.

Að lokum, ég auglýsi eftir djammfélaga á föstudagskvöld. Ég er að fara á Nýdönsk og langar að fara eitthvað út á eftir. Anyone?

This page is powered by Blogger. Isn't yours?