<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, febrúar 27, 2005

Himneskur matur 

Við fórum í matarboð til Hönnu og Ármanns í gær. Tilefnið var að þau voru að koma á blindu stefnumóti á milli bróður Ármanns og vinkonu Hönnu og við fengum að fljóta með til að hafa þetta frjálslegra, eða eitthvað þannig. Og vá, væri ég til í að vera fleirum innan handar með þessum hætti. Það sem var boðið upp á var hvorki meira né minna en
1) Marineruð lúða (í lime, jalapeno og chilli svo eitthvað sé nefnt). Þennan forrétt hefði ég getað borðað sem forrétt, aðalrétt og eftirrétt, hann steinlá algjörlega.
2) Kókosmjólkurlegnar kjúklingabringur með hnetusmjörssósu (hljómar furðulega en smakkast æðislega).
3) Sítrónumarengsterta og frönsk súkkulaðiterta (sem var aðallega súkkulaði, og að hinni ólastaðri, á venjulegum degi hefði ég stunið af gleði, þá var ekkert sem komst í hálfkvisti við súkkulaðikökuna.)

Með þessu var fyrst hvítvín og svo fjórar mismunandi sortir af rauðvíni (ástralskt, franskt, chílískt og portúgalskt, hvert öðru betra).

Svo við komum heim í nótt í algjörri sæluvímu. Þetta var sko nammidagur í lagi :)

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Og það er leti og ómennska 

Ég hef víst enga afsökun. Það er nóg til að segja frá og skrifa um en ég hef einhvern veginn ekki náð neinu andlegu sambandi við blogger þessa síðustu daga.

Ef ég reyni nú að koma einhverju frá mér á fréttatengdum nótum, þá ber það líklegast hæst að ég festi mér flugmiða til Svíaríkis (og hinum fjölskyldumeðlimunum reyndar líka). Markmiðið er að styrkja fjölskylduböndin og sýna afkvæmið. Kominn tími til að Strumpa rifji upp að Anna Steina er alvöru persóna en ekki bara símarödd.

Ég sem hafði rétt áður lagst í þunglyndi yfir utanlandaleysi og pantaði villt og galið úr HogM til að bæta mér það upp.

Mér lætur einkar vel að eyða pening þessa dagana. Fór á undirfatakynningu á þriðjudag, og af því að ég lenti í algjörri krísu með að velja á milli tveggja setta, þá gat ég ekki leyst það á annan veg en að kaupa bæði! Ég er náttúrulega algjört nærfatafrík - svona eins og sumar konur eru á skó. Nærfatablæti - það hlýtur að vera löglegt hugtak.
Jamm, ég er sjúk, ég ræð ekki við þetta!

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Staðfestist hér með 

Ef ég og þið öll vissuð það ekki áður, þá verður það staðfest hér í rituðu máli að ég er æðislega vel gift. Með öðrum orðum, frábær konudagur. Fékk að sofa út, bakkelsi úr bakaríinu, ofurflott gjöf (meira að segja Sóley stundi með mér) og lúxusmáltíð hér í kvöld. Og best að njóta kvöldsins nú með þessari elsku :)

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Söngkeppni VMA 

Já, það var aldeilis menning á ferðinni hér í gær, söngkeppni haldin og hvorki fleiri né færri en 20 keppendur. Ég ákvað að drífa mig, maður á jú alltaf von á að sjá einhverja gamla og nýja nemendur sýna á sér óvæntar hliðar.
Það er skemmst frá því að segja að flytjendur voru afskaplega mistækir og voru inni á milli hreinustu nauðganir, meðal annars á Ást hennar Ragnheiðar (sem maður btw tekur bara alls ekki nema maður sé í alvörunni góður) og Feel með honum Robbie vini mínum. Og einhverjir Bubba-menn hefðu líklega fengið flog yfir meðferðinni á Aldrei fór ég suður.
En svo voru bara ýmsir ljósir punktar og stelpan sem vann (með What's up) var alveg feikigóð - mjög kröftug.

Eftir situr að það er ekki nokkur maður talandi eða syngjandi á ensku.

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Dauðans alvara 

Það er komin upp alveg óhugnarlega fyndin umræða hér í vinnunni. Þannig er að einum vinnufélaga mínum finnst Bee Gees svo ægilega fín hljómsveit og allt um það, þeir eiga svo sem lög inni á milli. En af einhverri ástæðu fór hann að bera þá saman við ABBA og spurði si svona, ef ABBA og Bee Gees væru einu sveitirnar eftir í heiminum og þú ættir að velja aðra til að hlusta á til dauðadags, hvora myndir þú velja? Það er skemmst frá að segja að staðan er svona 15 - 1 fyrir ABBA - og Ghasoub nær ekki upp í nefið á sér, hvað allir eru samtaka í vitleysunni.
Í framhaldi af þessu fór ég að spá í, hvaða hljómsveitir ég myndi velja ef ég ætti að velja, segjum bara fimm, til að hlusta á til dauðadags, og ég held að ABBA færi inn á þann lista. So far er ég komin með svona fjórar sveitir og eina mjög líklega inn. Þetta þarf náttúrulega vandlega umhugsun, enda alvörumál.

mánudagur, febrúar 14, 2005

Takið barnið með í vinnuna 

Já, það eru tóm vandræði þessa dagana að vera einstæð móðir. Dagmamman fallin fyrir flensunni og alls kyns próf í gangi hjá mér svo ég má ómögulega vera burtu. Sóley er því til skiptist í VMA og leikskólanum Álfasteini hjá ömmu sinni. Líkar vistin heldur betur þar, er víst orðin heimarík og frek eins og hún hafi verið þar í tíu ár :) Þannig er hún líka í VMA, var með mér í tíma á föstudaginn og vildi helst fá að labba inn og út úr stofunni, svo það var á endanum læst fram. Einhverjir nemendur sluppu samt fram og hún uppástóð þá að fara líka. Ég reyndi að útskýra að þeir væru að fara á klósettið og þá henti hún sér í gólfið og argaði líka tóstið! Ég var alveg eins og bjáni.

Var heldur meira til friðs áðan, fékk seríós og hafði nóg að gera við að borða það. Á eftir að koma með mér í einn tíma í dag, reyni að hafa liti og fleira til að dunda með ... Hún er að minnsta kosti ekki feimin, nema svona til málamynda, og á föstudaginn náði hún að bræða flest hjörtu, kríaði út köku hjá einum og annar fór og sótti handa henni mjólk - hún er eins og mamma sín með það, vefur karlmönnunum um fingur sér :)

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Engin bloggleti 

Mummi er eitthvað að kvarta um að ég sé löt að blogga en svo er alls ekki. Ég blogga sjaldan á föstudögum, nema mikið liggi við af því að ég er að kenna allan daginn. Ég er lítið fyrir að blogga hér heima, hvað þá þegar maður er einstæð móðir og uppgefin eftir daginn :)

Við höfum reynt okkar besta að vera á fullu í heimsóknum alla helgina. Fengum reyndar heimsókn í morgun, Kristín sá aumur á okkur og þau Sveinn Áki áttu hér góða stund. Sóley og hann léku sér eins og aldavinir, lásu, fóru í eltingarleik og eitt og annað og það lýsti langar leiðir af minni hvað henni fannst hann óskaplega merkilegur.

Annars dundi enn eitt hégómaáfallið yfir í dag. Ég er komin með frunsu. Það er ofarlega á topp tíu yfir það sem veldur mér mestu hugarangri á hégómaskalanum og því þungt yfir mér núna. Ef ég væri samviskulaus, þá myndi ég tilkynna mig veika þangað til hún er farin (þetta er jú vírus!) En ég verð víst að láta þetta yfir mig ganga. Hmprf!

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Meiri frægðarsögur 

Strumpan veit svo sannarlega hvernig hún á að slá í gegn hjá mömmu gömlu. Ég var voða upptekin í gær að lesa Da Vinci lykilinn (já, langt om længe) og hún var ekki par hrifin, var búin að reyna að banna mér að lesa en það var ekki hlustað. Þá tók hún sig til og taldi upp að tíu á dönsku! Að sjálfsögðu uppskar hún alla mína athygli og mikið hrós, enda var þetta óhemju krúttlegt. Við erum aðeins búnar að vera í æfingabúðum að telja eins og Bamse, en þetta var samt mjög óvænt.

Svo erum við einar í kotinu núna. Mummi fór til Hollands í gær og verðum væntanlega fram á þriðjudag. Mér líður eins og Palli var einn í heiminum, sérstaklega af því að tengdaforeldrar mínir verða ekki í bænum um helgina, við verðum alveg munaðarlausar.

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Velheppnað uppeldi 

Já, bíltónleikarnir eru aldeilis að skila sínu. Strumpan bað, hvorki meira né minna, um að hlusta á Nýdönsk í gær (eða með hennar orðum usta Ný-ösk). Það sló ört móðurhjartað, þetta gat maður kennt henni :)

Annars var henni skilað til dagmömmu í dalmatíu-búningi í morgun. Sætara barn hefur vart sést norðan Alpafjalla, og sú vissi af því. Eða eins og segir í laginu "Hún er vinsæl og veit af því". Togaði roggin í búninginn í morgun, ef það skyldi fara fram hjá einhverjum hvað hún var fín.

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Fit og famous 

Jæja, það fór aldrei svo að ég yrði ekki fræg fyrir heilsuræktina. Haldiði ekki að ég hafi bara verið á Aksjón í gær á hlaupabrettinu á Bjargi :) Ekki það að það voru víst ekki nema einar þrjár sekúndur eða svo og ég hefði líklegast ekki fattað það nema af því að ég varð vör við myndatökuvélarnar á mánudaginn í síðustu viku. Ég hefði betur sparað mér að hlaupa í spreng fyrir vélarnar, fyrst þeir notuðu svona lítið.

Annars kom Sóley færandi hendi heim í gær, hafði bakað bollur hjá Ráðhildi, var ekki lítið stolt. Sagðist að vísu, aðspurð, hafa bakað köku, hvorki meira né minna.

mánudagur, febrúar 07, 2005

Bollufyllerí 

Nemandi sem ég nefndi fyrir helgi kom sterkur inn og mætti með hvorki meira né minna en átta bollur í morgun. Ég er búin að borða eina og hálfa - og gefa hálfa, fer þá bara með rest heim og sé til. Ég er að verða búin að fá nóg!

Vona að allir hafi horft á Ørnen í gærkvöld - hann Jens kom sterkur inn með íslenskuna sína. Ég sé samt ekki fram á að verða eins háð þessu eins og Krøniken eða Nikolaj og Julie - en það má vel skemmta sér yfir þessu og fyllast stolti yfir íslenska landslaginu.

föstudagur, febrúar 04, 2005

Að koma með epli handa kennaranum 

Ég hef stundum notað þetta til að benda nemendum mínum á að koma sér í mjúkinn, enn hefur enginn komið með epli. Í dag lofaði ég hins vegar einum fríi á mánudagsmorgun til að vinna í bakaríi ef hann kæmi færandi hendi með bollur handa mér! Það verður gaman að sjá hvort hann stendur við það.

Annars er afmælisbarn dagsins Óli bróðir - orðinn heil 26 ár. Til hamingju með daginn kallinn minn. Ég kem kannski bara færandi hendi með afmælisgjöf á línuna eftir tvær vikur.

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Krimmafundur 

Fyrsti krimmafundur nýs árs var í gær. Fyrir lá að klára umfjöllun um Kleifarvatn eftir að sumir höfðu ekki náð að klára hana síðast. Að auki átti að taka fyrir Flateyjargátu. Við komumst aldrei svo langt, ræddum bara Arnald í bak og fyrir. Enn og aftur var ég eins og asni, ég er líklegast eina manneskjan þarna sem hef ekki lesið allar bækurnar hans og það er óspart vitnað í hinar. Nú verð ég bara að fara í Arnaldar-átak.
Flateyjargáta bíður næsta fundar, ég hugsa að ég verði að lesa hana aftur til að vera almennilega viðræðuhæf, ég fann að ég var svolítið ryðguð í Kleifarvatni.

Annars kláraði ég afskaplega undarlega bók í gær, Gæludýrin eftir Braga Ólafsson. Ég hef varla lesið bók sem endar furðulegar og ég var eiginlega hálf móðguð. En hún var samt góð, svona þangað til ég móðgaðist.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?