<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, mars 31, 2005

Geeiisp 

Sóley Anna er alveg að gera út af við mig núna. Klukkan hennar er föst á einhverri snemmstillingu, hún hefur vaknað korter í sjö síðustu morgna (og god damn, mig munar um þetta korter) og nú í morgun sló hún nýtt met og vaknaði hálf sjö. Mér liggur við að fagna að vera ein heima, þá get ég amk farið að sofa hálf ellefu án þess að vera algjör partý spoiler.

miðvikudagur, mars 30, 2005

Raunveruleikablogg 

Mikið er sorglegt hvað maður getur verið upptekinn af eigin rassi og sinnt fólkinu í kringum sig lítið. Ég var að spjalla við vinkonu mína og það kom í ljós að hún hefur átt erfitt ár og það kom algjörlega flatt upp á mig. Ég hef samviskubit yfir að hafa ekki sinnt henni nóg á þessum tíma. Vaknaði eiginlega upp við vondan draum að það er allt of algengt að maður hugsi ekki nógu rækilega til vina sinna. Þjáist af krónískri símaleti og velur allt of oft sjónvarpið fram yfir að heyra í öðrum. Það er einhvern veginn allt á yfirborðinu hjá manni. Ekki það að ég veit auðvitað að fólk vill eiga sitt einkalíf í friði og ekki hafa hvern sem er að hnusa í því, en það má kannski vera millivegur.

þriðjudagur, mars 29, 2005

Þagnarbindindi lokið 

Eins og venjulega hef ég ekki nennt að líta neitt í tölvuna þegar ég er heima, en nú er ég sem sagt mætt til vinnu og get farið að slæpast þar og þá er nú aldeilis fínt að blogga :)
Stutt og laggott um Páskana. Hafði það huggulegt í alla staði með fjölskyldunni. Sund, gönguferðir, góður matur, heimsóknir. Eins og best er á kosið.

föstudagur, mars 18, 2005

Ó, þá náð að ... 

... vera kennari. Jájá, það er komið páskafrí. (Hér er við hæfi að halla sér aftur á bak í stólnum og stynja - annað hvort af gleði eða öfund!)
Svona burtséð frá því að ég þarf aðeins að íhuga hvað ég á að gera til að rífa nemendurna upp úr páskaletinni þegar þau snúa aftur.

Stúfan á annars góða spretti á hverjum degi núna. Um þessar mundir er hún kurteisin uppmáluð og afsakar sig og þakkar fyrir til skiptist og tilkynnir það líka að hún hafi þakkað fyrir sig, svona ef það skyldi hafa farið fram hjá manni.

Hún er líka mjög upptekin af því að vita hvað allir heita og þegar hún er sérlega fyndin, að eigin mati segir hún "nei, Jónsdóttir" á eftir öllum nöfnum. Og þetta er erfitt með suma sem heita bara einu nafni, þannig er Krummi í sveitinni orðinn Krummi Kobbuson og kisarnir heima Jóns-synir og -dóttir.

Í morgun kvaddi hún svo Björninn bæði með kossi og handabandi :) Það eru til margar leiðir að vera sætur og hún stefnir greinilega að því að slá í gegn á öllum sviðum.

þriðjudagur, mars 15, 2005

Á uppleið 

Nú er ég aldeilis á fleygiferð upp. Var á þingi Kennarasambands Íslands í dag og í gær og ótrúlegt en satt, það var bara mjög gaman. Yfirgaf að vísu svæðið áður en yfir lauk og náði ekki að sjá minn málaflokk til enda (ég sat í jafnréttisnefnd) en égg er að hugsa um að bjóða mig fram í æviráðningu í þetta :)

Annars bar auðvitað hæst, tveggja ára afmælið um helgina. Strumpan er nánast orðin fullorðin, slík voru viðbrigðin. Og hún fékk sem betur fer pakka frá Óla frænda og Eygló í dag, svo fráhvarfseinkennin voru ekki algjör. Ég sé hins vegar, að ef afmælisbarnið fær að ráða veitingunum framvegis, þá verður bara boðið upp á rjóma!

fimmtudagur, mars 10, 2005

Nóg að gera 

Þá er tveggja ára afmælisundirbúningurinn að fara á fullt. Bakstur hófst formlega í gærkvöld. Þó má segja að undirbúningurinn hjá afmælisbarninu hafi staðið lengur því það standa yfir æfingar á afmælissöngnum, svo maður verði nú örugglega búinn að ná honum þegar að kemur.

Annars fór Strumpan á kostum þegar Árný var hjá okkur í gær. Leiddi hana um allt hús til að sýna henni nú örugglega allt, dró fram myndir og allt hvað það heitir, maður kann nú aldeilis að vera gestgjafi. Og nýjasti kurteisissiðurinn er að afsaka sig þegar maður ropar. Ég þakkaði dagmömmunni gott starf við uppeldið en hún kannaðist ekki við að hafa haldið þessu að henni svo þetta hefur fröken pikkað upp sjálf.

Stefnir í áframhaldandi heavy baksturskvöld, jamm það eiga sko að verða kökur eins og maður getur í sig látið. Verst að ég þarf svo að fara suður á mánudagsmorgun og yfirgef þess vegna afgangana :(

þriðjudagur, mars 08, 2005

Bloggletingi 

Jamm, ég veit alveg upp á mig skömmina. En þannig er að Sóley var lasin á miðvikudag og fimmtudag, og ég er bara alveg sérlega löt að blogga heima. Ef ég fer í tölvuna þegar Sóley er uppi við, þá er ekki flóafriður, ekki beint ídeal bloggaðstæður.
Svo vindur þetta upp á sig og maður veit hreint ekki hvar á að bera niður í viðburðaríkri ævi.

Það sem er svona lesendavænast er í fyrsta lagi ágætt gullkorn frá Strumpu, sem sýndi um helgina að súkkulaði- og grísgenin eru mjög virk þó þau fái venjulega litla hvatningu. Þannig er að við fórum á Bláu könnuna á laugardag, og verandi mjög nægjusöm fjölskylda, fengum við okkur eina sneið af ostaköku saman. Sóley var himinlifandi að fá rjóma og þegar Mummi sagði henni að hún ætti líka að fá sér kökubita, sagði fröken ákveðið "ekki kökubita, bara rjóma".

Annað dæmi um grísaháttinn, er að á sunnudagsmorgun fór ég í bað og Strumpan var þá eftirlitslaus á vappi. Þegar mér fannst þögnin vera orðin ískyggileg fyrir utan stöku skrjáf, rifjaðist upp fyrir mér að það var poki af súkkulaðirúsínum í glugganum í stofunni, svo ég kallaði fram og spurði þá grunuðu hvort hún væri nokkuð að borða súkkulaðirúsínur. Litli glæponinn er ekki orðinn svo forhertur enn að hann kunni að ljúga - svo játningin kom undir eins. Og Strumpan sat alsæl með rúsínupokann þegar ég kom upp úr baðinu nokkru seinna.

Genin leyna sér sem sagt ekki :)

miðvikudagur, mars 02, 2005

Dodgeball 

Jamm, Ljúfa var ekki lengi að hafa það. Ég er enn miður mín af gleði yfir hvað þetta er frábær mynd, miklu fyndnari en ég átti von á og alveg óþrjótandi brunnur af svona sniðugum línum. Ben Stiller er bara að verða einn af skemmtilegustu gamanleikurum sem eru í boði.

Ekki lengra í bili, sé að Regnhlífarnar í New York er byrjaður.

þriðjudagur, mars 01, 2005

Gott slúður í sorpinu í dag 

Ja, mikið getur einföld sál kæst yfir að lesa DV. Var ekki bara verið að hinta að því að Duran Duran kæmi til landsins í júní. Ég þar! og gott ef ég læt ekki klippa mig sítt að aftan og finn einhver eitís föt líka. Ég væri alveg til í að fara til Svíþjóðar með bróður, en þetta er amk ódýrara, sérstaklega í ljósi þess að ég er víst búin að kaupa mér Svíþjóðarferð.

En hér er getraun (og Mummi, það er bannað að taka þátt!)
Hvaðan koma eftirfarandi tilvitnanir?

I know you. You know you. And I know you know that I know you.

Oh, I don't think I'm a lot dumber than you think that I thought I once was.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?