<$BlogRSDUrl$>

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Prófaðu 

Að sjálfsögðu stóðst ég ekki mátið að gera próf um sjálfa mig til að athuga hvað mínir nánustu þekkja mig vel. Ólíkt ýmsum öðrum eru þetta allt saman vel þekktar staðreyndir um persónu mína en ekki neitt sem prófar athyglisgáfur manns í heimsóknum eða annað svínslegs eðlis. Held og lykke!

PS Menningarpósturinn bíður...

mánudagur, apríl 25, 2005

Menningarpósturinn - annar hluti 

Þá var það leikhúsferð hin síðari á föstudagskvöld, að þessu sinni sýning LA á Pakkinu á móti. Ferðin var hin ágætasta, þó svo maður geti kannski sagt að þetta efni (lífið eftir 11. sept / múslimaofsóknir) sé kannski full fjarlægt manni til að það risti djúpt. Ég get ekki sagt að ég hafi verið mjög upptendruð eftir á.

Helgin var svo öll hin ljúfasta. Fyrsta alvöru garðvinnan í gær. Afraksturinn einir tólf - þrettán ruslapokar af laufi, greinum og öðru lífrænu. Það sem meira er, þetta var bara ágætlega gaman, enda veðrið ágætt. Síðan sund- og kaffihúsaferð á Dalvík og heimsóknir og matarboð á laugardag. Át, át, át :) Ég er klárlega feitari en á föstudaginn.

Síðan er það Reykjavíkurferðin sem bíður. Strumpan býsna spennt, spyrjum að leikslokum hvað henni finnst um að sitja í bíl í marga klukkutíma. Við höfum ekki lagt það á hana síðan í fyrrasumar.

föstudagur, apríl 22, 2005

Sumarpóstur 

Áttum alveg yndislegan sumardag hinn fyrsta, litla fjölskyldan. Strumpa byrjaði sumarið vel, svaf til klukkan átta. Fórum í sund fyrir allar aldir, þar sem hún eignaðist tvær eldri vinkonur (svona fimm ára) sem tóku hana að sér um stund. Foreldrahjartað tók stoltkipp við að sjá félagsþroskaða barnið svara hvað hún héti og eiga í örlitlum samræðum við þær.
Að því búnu fórum við í sveitaferð og skoðuðum lömb, kiðlinga, hænsn og fleira á bæ einum í Eyjafjarðarsveit, en við höfðum rekist á auglýsingu um opið hús í héraðsfréttabréfinu. Strumpa var nú alls ekki á því að geiturnar væru neitt annað en kindur (og afar illa dulbúnar) og gekk um allt á eftir hundinum og kallaði hann kjánann sinn. Við komum svo við í Vín og fengum okkur meira af góðgæti en hægt er að játa á opinberum vettvangi :)
Seinnipartinn hófust fyrstu garðverk sumarsins. Aðeins rakað af lauf-flóðinu, sumarhúsgögnin tekin fram og sömuleiðis grillið.
Og enduðum svo daginn á því að fara í góðan hjóltúr um hálfan bæinn, stoppuðum meðal annars uppi á hól hjá gamla húsinu hans Óla stóra og nutum útsýnis og veðurblíðu.

Í kvöld bíður leikhúsið og um helgina frekari garðvinna - og veðurspáin er góð.

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Menningarpósturinn (fyrsti hluti) 

Alltaf gerist maður menningarlegur í ofurskömmtum. Ég byrjaði á frekar lágmenningarlegum nótum og fór með manninn að sjá Ríginn (sýningu MA og VMA) á föstudagskvöld. Það er skemmst frá að segja að sýningin var stórskemmtileg og flott sett upp. Sem innansveitarmanneskja á báðum stöðum náði ég flestum bröndurum, held ég, og það var ótrúlega flott hvernig var farið með klisjurnar um snobbliðið í MA og hálfvitana í VMA.

Næsti menningarviðburður verður líklegast Pakkið á móti hjá LA á föstudagskvöld og svo er það auðvitað hápunktur vetrarins í næstu viku, þegar elsku mágur minn er með lokatónleika.

Af svefni Strumpunnar er það helst að frétta að þessi morgunn í síðustu viku virtist ætla að verða tilviljun - hún vaknaði hálfsjö næstu morgna (þar á meðal í pössun hjá föðursystur sinni á sunnudagsmorgun). En bæði í gær og dag hefur hún sofið langleiðina í átta og það er vonandi þróun sem heldur áfram.
Styttist annars í alvöru lífsins, leikskóli eftir þrjár vikur. Hún er vægast sagt orðin spennt, aðallega vegna þess að hún er búin að taka eftir gríðarlega fínni rennibraut á lóðinni :)

fimmtudagur, apríl 14, 2005

Ahh - stretch 

Maður er nú aldeilis úthvíldur og fínn í dag. Mummi minn, endurheimti maðurinn, var ekki spenntur yfir tilhugsuninni um 6:30 sjálfstillingu Strumpunnar og setti upp lak í gluggann í gær (eftir að við vorum búin að leggja inn pöntun fyrir rúllugardínu, sem tekur tvær vikur að afgreiða) og hvort það er lakið sem hefur svona jákvæð áhrif, að minnsta kosti svaf Strumpa til korter í átta í morgun - maður er bara eins og Þyrnirós eftir aldarsvefn. Ekki það að ég vaknaði auðvitað við klukku stundvíslega klukkan sjö, svo þetta er nú meira andleg hvíld og að sjálfsögðu örlítil von í hjarta um að helgin verði líka svona góð :)

Enda stefnir í gríðarlegt félagslíf. Búið að festa miða á Ríginn á föstudagskvöld og svo er RT fest á laugardagskvöld. Maður snýr til baka í félagslífið með stæl því það er líka leikhús í næstu viku og svo auðvitað tónleikarnir hans Holys eftir hálfan mánuð. Maður fer bara að koma í Séð og heyrt!

fimmtudagur, apríl 07, 2005

Eitís 

Þá er Arena komin undir geislann í bílnum og sungið með af mikilli innlifun og furðu mikið miðað við að ég kann víst minnst af textunum, eða mín útgáfa amk oft öðruvísi en þeirra :) Það krefst mikillar yfirlegu að þurfa að taka svona stóra ákvörðun (og miðað við F Willy getur hún haft áhrif allt lífið - svo það er eins gott að taka þessu ekki af einhverri léttúð!)

Annars var krimmafundur í gær. Eitthvað er að dofna yfir hópnum, amk tókum við loks Flateyjargátu fyrir og hún var fljótafgreidd. Ekki það að hún hafi verið svo léleg en einhvern veginn risti hún ekki mjög djúpt. Við erum alltaf einni bók á eftir áætlun og næst á að taka fyrir Konuna í gámnum - auk þess að koma með hugmyndir að Krimmahöfundaþingi á Akureyri. Við erum jú með formann Norræna félagsins innan okkar vébanda og hún er sérfræðingur í styrkjabjúróinu - stay tuned!

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Kvöldsöngurinn 

Hér á heimilinu er sú hefð að auk hefðbundins bókalesturs á kvöldin eru alltaf tekin nokkur lög fyrir svefninn (fyrir Sóleyju, það er ekki svo indælt að við Mummi sitjum og syngjum hvoru öðru ástarljóð). Þetta er voða gaman og fyndið hvað uppáhaldslögin rokka til. Hefðin er samt sú að enda á Dvel ég í draumahöll og þegar ég sting upp á því biður Sóley iðulega um eitthvað annað til að treina stundina. Þessa dagana er það yfirleitt Róbert bangsi. Ef ég neita henni um það og fer beint í Draumahöllina á hún það til að liggja við hliðina á mér og syngja Róbert bangsa. Nema í kvöld. Þá tók ég viðlagið í Róbert og á meðan fór hún í Draumahöllina - hljómar örugglega mjög fallega þegar við syngjum sitt hvort lagið - hvor með sínu nefi. Við sungum líka Fann ég á fjalli saman í kvöld og ég veit ekki hvort hún var að sanna fyrir mér að hún kynni það, eða hvort henni fannst ég syngja það eitthvað hægt, amk var hún alltaf aðeins á undan mér og það var pínu erfitt að halda einbeitingunni og syngja "fallega" með þennan samsöng í eyrunum :)

mánudagur, apríl 04, 2005

Að fara eða ekki fara...? 

Ég er í svaka krísu núna - með Duran Duran tónleikana. Manni rennur nánast blóðið til skyldunnar að fara (þó ég hafi nú verið meira á hinni línunni) en þessi tímasetning er afleit. Ég verð líklegast stödd í borginni helgina á undan og svo aftur fyrir Svíþjóðarferð og þetta lendir akkúrat þar á milli :( Eins og það væri gaman að fara með kveikjara og taka smá Save a Prayer loga...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?