<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Auglýsingar 

Þessa dagana eru í gangi auglýsingar með tveimur fyrrum leikbræðrum, annars vegar Jóni Gnarr og hins vegar Þorsteini Guðmunds. Ég er svo að pæla með þær - er Jón Gnarr búinn að drepa niður í manni húmortaugina sem maður hafði til hans áður með þessum ömurlegu pistlum í Fréttablaðinu eða hvað? Hvað sem veldur, lottó-auglýsingarnar eru meira og minna allar svo leiðinlegar að ég verð þunglynd af því að sjá þær (brosti reyndar út í annað þegar hann sagðist ekki vinna af því að hann borgaði miðann en ekki konan - that's it - og það gerðist einu sinni). Hins vegar eru þessar stórkostlegu auglýsingar með Þorsteini. Þær eru hver annarri betri og fyndnar í hvert skipti sem maður sér þær. Mér finnst amk alltaf jafn fyndin tilhugsunin um að lifa góðu lífi á námslánum. Þetta er furðulegt því að hér áður fyrr hefði ég frekar haft taugar til Jóns sem grínista heldur en Þorsteins. En nú fær maður bara einhvern veginn kjánahroll af Jóni.

Annars er dagurinn búinn að vera fínn. Yndislegur dagur í skólanum (bara fjórir tímar í kennslu og unaðslegir hópar) en svo kom pínu setback af því að Strumpan var ekki í sínu besta formi þegar hún kom heim, með nokkrar kommur, og búin að vaka síðan sex og skapið eftir því. En ég náði að bæla hana niður fyrir átta og hef haft það kósý síðan, með afmælisrauðvín frá Kristínu og hyggelighed. Hélt reyndar að ég ætti eftir að eyða deginum meira í símanum en það hefur sloppið býsna vel. Allir kurteisir og ætla að hringja seinna (I guess, eða ég á ekki eins marga vini og ég hélt).

Ég er enn í importi - allt fyrir i-podinn minn sem kannski fer með til Varsjár. Ég fór að spá í hvort ég væri með sérlega súrrealískan tónlistarsmekk, því að sumu leyti er hann alveg últra konulegur (nú er ég til dæmis að importa Kenny Rogers) og að sumu leyti ekki (ég hata Celine Dion, Whitney Houston - sem er að vísu löngu búin að vera, osfr.) Mér hefur alltaf fundist svolítið erfitt að staðsetja tónlistarsmekkinn, hann er víður en ekki fjölbreyttur, svona beint.

þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Ofur-ræma 

Það bar til tíðinda nú í kvöld að við fórum í bíó. Mér er ómögulegt að muna hvenær það var síðast. Kannski var það Star Wars. Ég er líka orðin mjög kresin á hvað ég sé (nema nú sá ég reyndar trailer sem lofaði góðu af því að Viggo var svo sætur) og þess vegna var mynd kvöldsins alveg sérlega ánægjuleg. Sú hin góða heitir Broken Flowers og er nýjasta gæðastykkið sem Bill Murray leikur í. Váá. Gamli hefur oft verið góður en hann fer hreinlega á kostum í þessari. Við sáum Lost in Translation loksins loksins fyrir stuttu og sú var mögnuð en þessi er jafnvel enn betri. Þannig að - ef þið eruð eins og ég - sparsöm á bíóferðir - íhugið þessa samt. Hinir mega fara á hana líka.

sunnudagur, ágúst 28, 2005

Varúð - vínauglýsing 

Verð bara að koma á framfæri að ég er að drekka alveg feykifirnagott rauðvín. Þið sem fílið mjúk og mild vín takið eftir. Vínið með stórum stöfum heitir Mezzogiorno Nero d'Avola. Stendur alveg ljómandi eitt og sér og er ódýrt. Ummm-da. Ég held að ég klári bara flöskuna.

I-pod átak 

Ég hef ekki staðið mig sem skyldi síðan ég fékk I-poddinn minn að hlaða inn öllum uppáhalds ómissandi diskunum mínum en er í smá átaki núna. Svo þarf ég nauðsynlega að gera góða play-lista. Sé sérstaklega fyrir mér nauðsyn þess að hafa góðan 80's lista, af því að ég á ógrynni af eighties tónlist, afar misjafnri. Til heiðurs afmælisbarni dagsins er ég að rippa Nik Kershaw núna. Til hamingju með afmælið enn og aftur Anna Steina!

föstudagur, ágúst 26, 2005

Vetrartíminn 

Þá held ég að veturinn sé opinberlega kominn á mínu heimili. Vetrarsvefninn er að taka völd. Sofnaði um ellefu í fyrrakvöld og upp úr hálf tíu í gærkvöld - yfir Harry Potter upphituninni :) Enda var ljúft að vakna í morgun.

fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Vinur minn Robbie 

Var að ljúka við að lesa ævisögu (ef ævisögu skyldi kalla) Robbie Williams (sem er mikill vinur minn eins og dyggir lesendur vita). Það var ansi mögnuð lesning. Ég gerði mér enga grein fyrir hvað er til mikið af fuuuurðulegu fólki í heiminum en þarna voru mýmörg dæmin. Allar grúppíurnar til að mynda, sem allar kepptust við að vera öðruvísi en hinar "ég ætla ekki að sofa hjá þér" og urðu þess vegna allar nákvæmlega eins. Ein sem vildi fá faðm og spjall - eftir að vera búin að röfla við félaga hans lengi um að fá að hitta hann og endaði á að segja að hún væri sko ekki aðdáandi, hún hlustaði ekki á tónlistina hans! Og bréfin sem fólk skrifar; gifstu mér, gifstu dóttur minni, gefðu mér penging eða jafnvel skammarbréf eða leiðsagnarbréf. Sem sagt konungleg skemmtun. Ekki spillti fyrir að George Michael kom við sögu :) fékk að vísu frekar þurrar kveðjur undir lokin eftir að hafa tjáð sig um plötusamning Robbie upp á 80 mill pund (og bara Greatest hits komið út síðan :) Síðast en ekki síst er Robbie alls enginn Íslandsvinur - sagði að sér hefði fundist ömurlegt hér. Mæli með henni. Maðurinn er algjör skits, skúrkur, væminn, mjúkur, ruddalegur, athyglissjúkur og svo framvegis. Ég er til í að lána eintakið mitt ef einhver vill.

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

MoR Duran 

Menning gærkvöldsins var sem sagt sú að fara á tónleika enn eina ferðina, ég fer held ég að kaupa mér áskriftarkort. Að þessu sinni að sjá Margréti Eir og Róbert flytja Duran Duran lög (og fáein önnur sem flutu með). Það er ekkert flóknara en það að ég bendi lesendum á að þau verða á Borginni annað kvöld (held ég) og ég mæli algjörlega með því að skella sér. Ég var fyrirfram efins um hvernig ég væri að kaupa Duran með kvenmannsrödd og bassaundirleik en það var einfaldlega þannig að sum lögin slógu óriginal útgáfunni út. Vissulega fyrst og fremst í þeim lögum sem mér hugnast ekki svo í óriginal. Tökum til dæmis Save a Prayer - sem er vissulega flott lag en ég er bara búin að óverdósa algjörlega á því. Þau tóku það alveg hrikalega í nefið. Það voru amk margar gæsahúðir sem spruttu fram og ég splæsti í disk með þeim.

þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Konungleg skemmtun 

Ja, mikið var hann Frikki nú sætur í gær. Hann missti ekki krúttfrontinn eitt augnablik.
Fór sem sagt í boð með aðalkóngavinkonum mínum í gær, dönskugellurnar úr Síðuskóla og við stundum yfir Frikka sæta og frú. Skemmtilegt spjall við þau skötuhjúin og ekki laust við að María roðnaði ögn í vöngum þegar hún var spurð um barneignir enda með grjón í maganum.
Það eina sem fer í taugarnar á mér er að mega ekki hafa kónga- (og prinsa-) áhugann í friði fyrir skítakommentum um hvað þetta sé allt asnalegt. Ég er skotin í Dönum, danska kongefamilien er andlit þeirra út á við - ergo - ég elska kóngafjölskylduna. Og pínu þá norsku og sænsku líka, en bara af því að þetta eru jú allt frændur vorir.

Annars er ekki síðri mennig í vændum í kvöld (vona ég). Meira um það á morgun.

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Sumri hallar... 

... og alvara lífsins tekur aftur við. Á morgun hefst vinna. Fékk "barnið" í hendurnar í fyrradag (Dansk grammatik - tekið saman af Hafdísi Ingu Haraldsdóttur) og það lítur vel út og verður gaman að sjá hvernig það virkar out in the real world. Skítaveður þessa síðustu frídaga - passlega blíðuspá fyrir morgundaginn. Þannig hefur ekkert gerst í garðinum eins og stóð til, skúrinn enn óáborinn og með þakpappalaust horn.
Önnur tíðindi þau helst að Prins Valíant þurfti til læknis í gær. Það var svo komið að ælupollar voru að verða daglegt brauð og eðli málsins vegna ekki að toppa neina vinsældarlista að þrífa það (eða stíga í). Kom í ljós að hann er með svona heiftarlega barkarbólgu að þegar hann borðar, ertist allt upp og hann hóstar og hóstar og gubbar síðan. Svo hann fékk alls kyns sprautur sér til heilsubótar og augndropa (sýking eftir síðustu slagsmál við norska nágrannann) og ætti að verða jafngóður ef ekki betri innan tíðar.
Svo verð ég að láta fylgja með að við erum búin að uppgötva nýjan ofurís. Kallast Fruttis og fæst í Kaffi Rós í Blómavali. Úff, úff, úff. Samanstendur af ávaxtasulli og venjulegum ís - fæst í mörgum bragðtegundum (höfum nú þegar prófað fimm og mandarínu stendur upp úr) og er bara ótrúlega ferskur og hrikalega ávanabindandi. Kemur kannski í ísbúðina í Álfheimum fyrir ykkur sem ekki eigið heimangengt til að smakkað dásemdina.

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Sextugafmæli aldarinnar 

Ég auglýsi hér með eftir skemmtilegra sextugsafmæli en ég var í í gær. Verð amk illa sátt ef mitt verður betra :) Sem sagt, tengdamamma varð sextug á föstudag og haldið formlega upp á það í gær. Fyrst hádegisboð fyrir kellurnar - hápunkturinn þar að Óskar Péturs kom og söng og dyggir lesendur vita að það þarf ekki meira til að gleðja mig. Hápunkturinn var svo kvöldmatur og drykkja tengdafólkinu (öllu nema Nonna - en hann fékk jú nokkur sms undir lok partýs - svona til að fá að vera með). Nema hvað, þetta var alveg óheyrilega gaman. Tónninn var gefinn snemma kvölds þegar Ármann, svili minn, sýndi miklar kúnstir og tók koníak í nefið. Það leit ekki gæfulega út en var ákaflega fyndið að horfa á. Hanna fylgdi fljótlega í kjölfarið, með enn meiri látum og þá leit þetta bara út fyrir að vera ógeðslegt. Helgi tók næstur í nefið með yfirlýsingar um að taka bara í aðra nösina - en þegar hann loksins kom því inn (var frekar stíflaður) var það svona ægilega losandi að hann flýtti sér að taka í hina líka og hafði að sögn ekki verið eins hress í nefi í allt sumar :) Ég ákvað að prófa líka og get ekki sagt annað en ég mæli með því. Ég hef reyndar efasemdir um áhrifin annað en að þetta er mjög frískandi, pínu sóðalegt reyndar. Hafið þetta samt í huga fyrir næsta partý - góður og frumlegur "drykkju"leikur.
Síðan fóru menn einn af öðrum að sýna leynda hæfileika, misleynda og mismikla reyndar og hófst það á hrikalega fyndinni eftirhermu þar sem Ásdís hans Helga tók Leoncie - hreimurinn gjörsamlega óborganlegur. Ég lofaði að taka númer ef Ásdís þyrði að flytja Leoncie og tók þar af leiðandi eina númerið sem ég á, "Kylling og soft-ice og pølser". Nota bene, allt tekið upp á videó *kjánahrollur*. Hanna átti næsta leik með að leika heyrnleysingabrandarann sinn - hann er pínu dónó og það var langfyndnasti hlutinn að sjá mömmu og afa hans Mumma gráta úr hlátri. Lena, litla barnið í fjölskyldunni tók svo í nefið líka og var býsna sátt og Helgi og Siggi enduðu á því að syngja "Svangir bræður". Svo vorum við farin að syngja eitt og eitt (eða hálft) lag - við Helgi til dæmis "Ah-bú" - hann var hissa á að ég kynni það (og jafnvel betur en hann á köflum, amk textalega, kannski ekki músíklega) og við Hanna "Stína var lítil...". Að öðrum ólöstuðum var Hanna stjarna kvöldsins, hún var í banastuði og reytti af sér brandarana - en aðrir alveg óendanlega hressir líka.
Þessu góða afmæli lauk um eitt og ég hefði svo verið til í að fara meira á djammið. Ég er til að mynda komin í brjálaða dansþörf og verð að fara að fullnægja henni áður en ég spring eða skandalísera út í búð eða eitthvað. Tók loforð af Hönnu og Ármanni að fara á djammið fyrr en seinna.
Það sem toppaði svo allt, var að Strumpan var í gistingu hjá Gylfa afa og Öddu ömmu, (æfingabúðir fyrir Pólland) og við því algjörlega áhyggjulaus. Sváfum líka til að verða tólf (hver man svona lúxus?). Þannig að ég er fegurri en ég hef lengi verið (virkar það ekki þannig??)

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Stórtíðindi Strumpunnar 

Það reka hver stórtíðindin önnur hér á heimilinu. Fyrstu stórtíðindin (og þau eru reyndar vikugömul - engin frammistaða hér að blogga) eru þau að hjólaíþróttin er loks iðkuð af kappi hér. Þríhjólið var keypt í maí líklegast og gekk hvorki né rak að hjóla. Svo allt í einu eru komnir fleiri sentimetrar á fæturna eða meira kjöt á beinin, amk hjólaði hún skyndilega um allt bæði stolt og kát.
Hin tíðindin eru jafnvel merkilegri, því nú er maður kominn í heim hinna bleyjulausu. Þriðji dagurinn í dag með enga bleyju og engin slys. Strumpa fór nú loks í leikskólann í dag eftir þrálátar kommur síðustu daga og veikindadagarnir notaðir í æfingabúðir, með svona líka fínum árangri.

sunnudagur, ágúst 07, 2005

Fyrirspurn 

Man einhver eftir nammi sem var til svona í kringum 1990, annars vegar karamellufylltu súkkulaði og hins vegar lakkrísfylltu súkkulaði? Þetta karamellufyllta hét því góða nafni Kammó - en mér er svo gersamlega fyrirmunað að muna hvað þetta lakkrísfyllta hét og það böggar mig dálítið. Er ekki einhver minnisgóður sem rámar í þetta???
Helgarfréttir þær helstar að Strumpan er veik, einhverjum óskilgreindum sjúkdómi, sem lýsir sér með háum hita (39 - 40) en lítið annað, þó svo læknisskoðun heimilisins sýndi rauðan háls - höfðum pata af því að streptókokkar væru að ganga. Við létum þetta að vísu ekki trufla okkur í fjölskylduhátíðarhöldunum árlegu, fórum á Fiskidaginn mikla í góðum fíling. Hann var að vísu í styttri kantinum vegna veikindanna en indæll eins og alltaf.

fimmtudagur, ágúst 04, 2005

Gönguklúbburinn færir út kvíarnar 

Gönguklúbburinn hóf aftur göngu sína - bókstaflega - á mánudagskvöld, eftir æði langt hlé og sístækkandi bumbu í takt við það. Nema hvað, til að nýta síðustu sumarfrísdagana sem best ákvað ég að fylgja Kristínu líka í sund, hún hefur tekið sundið svona meðfram. Þannig að eftir skutling á Strumpu í morgun, drifum við okkur -Mummi hló bara að mér þegar ég dró fram sundgleraugu og spurði hvort ég ætlaði að synda, ég lofaði hátíðlega 200 metrum en gerði svo bara gott betur og fór heila 400 metra. Það eru 16 ferðir, ef þið áttið ykkur ekki á hvurs lags vegalengdir ég lagði að baki! Og lofaði hátíðlega að synda líka í fyrramálið. Verst að það er erfitt að bæta svona góðan árangur ;)
Annars sit ég enn við skriftir og stefni að því að klára ritið góða á morgun eða svo, til að geta sent það í yfirlestur áður en fjölritun hefst. Og fara þá að streyma inn tekjurnar af sumarvinnunni.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?