<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, janúar 31, 2006

Ótímabær umræða 

Ég átti samtal við dóttur mína í gær, sem ég hafði ekki búist við næstu árin. Hún segir við mig upp úr þurru að sig langi í eyrnalokka og þegar ég hváði eitthvað, þá endurtók hún ósk sína og bætti við -og göt. Þá þyrmdi heldur betur yfir mig og ég hugsaði því foreldri þegjandi þörfina sem lét litlu dóttur sína á leikskólanum fá göt í eyrun og vakti þar með athygli dóttur minnar á fyrirbærinu. Svo ég spurði lymskulega hver væri með göt í eyrunum og ekki stóð á svari, en það var ekki alveg á þá leið sem ég bjóst við. Jú, það er nefnilega Adam. Adam who? Ég áttaði mig ekki alveg á hver þessi nýi vinur væri, en þegar Strumpan endurtók að Adam væri með eyrnalokka, kveikti ég. Umræddur vinur er hluti af dúóinu Adam og Jamie (les. Kjeimí þegar maður er tæplega þriggja ára) og þeir eru með þátt á einhverri stöðinni sem heitir Mythbusters. Þetta horfa þau feðgin iðulega á og sú stutta vitnar reglulega í þá vini sína. Þarna sér maður þessa foreldra!!! Hvað er börnunum boðið upp á?

föstudagur, janúar 27, 2006

DVD ólánið mikla 

Það virðast hvíla á okkur álög með dvd spilara. Það er reyndar full löng saga að segja frá fyrstu kaupunum, nema hvað við keyptum í allt þrjá spilara í fyrsta umgangi, til þess að fá einn sem réði við region 1 og 2. Nema hvað, eftir tvö ár eða eitthvað fór hann að hiksta og brasa og þá keyptum við okkur nýjan, "ógurlegan" Sony spilara. Hann reyndist okkur að vísu ágætlega (og virkar enn á nýju heimili eftir því sem ég best veit) en það kom að því að okkur langaði að uppfæra í heimabíó og keyptum sett, enn og aftur frá Sony. Sá hinn nýi (gæti verið svona þriggja ára, sennilega frekar tæplega það samt) var fljótlega með leiðindi og stæla en við hunsuðum það vegna þess að það er svo ógeðslega leiðinlegt að fara með græjur í viðgerð. Nema hvað, hann náði nýjum víddum í fyrrakvöld, þá horfðum við Kristín á eina danska og það var bara eins og væri verið að spila lúna vinylplötu, slíkir voru brestirnir í græjunum. Svo við erum í klemmu hvað er best að gera. Því miður virðist eina rétta skrefið vera að fara með hann í viðgerð en það er augljóslega vondur kostur.

þriðjudagur, janúar 24, 2006

Beina flugið 

Það ríkir almenn gleði á mínu heimili eftir að Iceland Express tilkynnti um beint flug frá Akureyri í sumar. Ekki einasta gleðst ég yfir fjölgandi ferðum til Kaupmannahafnar (nú þarf maður bara að fara að eignast hús þar :) ég sé líka í hyllingum að "skjótast" í sumarbústaðinn góða í Svíþjóð, en það verður svona álíka tímafrekt og að keyra til Reykjavíkur. Það er þegar búið að leggja drög að fyrstu ferð um miðjan júní. Júbdídú.
Ef þið eruð handlagin mjög og langar til Svíþjóðar, þá er alltaf hægt að semja um viðhaldsferðir :)

mánudagur, janúar 23, 2006

Ég er góð 

Stóð mig algjörlega hetjulega á bóndadaginn. Færði bóndanum fyrst gjafir í rúmið og fór svo í bakarí og keypti í morgunkaffið. Við borðum nota bene aldrei morgunmat saman nema um helgar svo þetta voru mikil viðbrigði. Svo skildu að sjálfsögðu leiðir en ég bauð mínum heittelskaða í seinnipartskaffi á Bláu. Þaðan sótti ég grísinn og þá hófust miklar undirbúningsaðgerðir fyrir kvöldið. Við mægður bökuðum pecanhnetupæ og svo eldaði ég ný-sjálenska nautalund. Vá hvað maturinn heppnaðist vel. Ég sem hélt að ég væri algjörlega hætt að kunna að elda (þetta fer að einskorðast við bóndadaginn :)
Annars var helgin mikil sjónvarpshelgi. Fyrst horfði ég á skírnina í beinni, sem var mikið indælt, han Frederik er så sød, så sød. Síðan var það auðvitað allt júró-djammið á laugardagskvöld. Spurningakeppnin frábær og forkeppnin amk athyglisverð, þrátt fyrir fáa fína drætti. Ég hlustaði á hið góða lag, Ég pant vera Ameríka og það var tvímælalaust mörgum lögum framar.
Í gærkvöld var það svo Krøniken og Allir litir hafsins. Já þetta er indælt líf. Og þrátt fyrir að það sé andstyggilegt að labba og keyra á klakabúntum bæjarins, þá held ég ekkert endilega að þetta sé versti dagur ársins.

fimmtudagur, janúar 19, 2006

Harður vetur maður 

Í Fréttablaðinu í gær mátti sjá þá fyrirsögn að það væri langt síðan það hefði verið svona mikill snjór á landinu!!! Ég þurfti ekki að líta út um gluggann til að vera viss um að það væri ekki langt svo síðan það hefði verið jafn mikill snjór á mínu Íslandi. En það er svona með Reykjavíkurlandið. Það er auðvitað sjálfstætt land innan eyjunnar sem við hin deilum með þeim. Hálfvitar!!!!

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Grísir á batavegi 

Fyrst eru það fregnir af Strumpunni. Hún fékk rör og losnaði við nefkirtla í gær (þeir voru ógnarstórir og til þess eins fallnir að framkalla hærri hrotur en annars). Aðgerðin lukkaðist vel en stutta var þreytt vel og lengi á eftir, vaknaði með látum rétt eftir aðgerð en svaf svo að mestu í eina þrjá tíma, svo þetta var drjúgur tími á sjúkrahúsinu. Á leiðinni heim bar hún sig aumlega og sagðist langa í pönnukökur og það var að sjálfsögðu látið eftir henni. Hún var svona frekar minni í sér en venjulega í gær, en samt ekki svo eftir sig að hana langaði ekki aftur á sjúkrahús og bað voða fallega um það í gærkvöld. Brandari dagsins var að sjá áhrifin af kæruleysislyfinu, það sást gjörsamlega hvenær áhrifin hófust, augun urðu syndandi og hún setti upp heimskuglott og fór að bulla. Sagði upp úr þurru "það er enginn klósettpappír hér" og fór svo að syngja alls kyns bull og við hlógum auðvitað eins og fífl og þá glotti hún okkur til samlætis. Hún er heima í dag til að jafna sig en svo er það bara harkan aftur á morgun.

Hinn grísinn minn - þessi vo-grís, hann er líka heldur að skána, ef eitthvað er. Hræðilegt útlit mitt á mánudag var kannski orðum aukið en samt vildi maður óska þess að vera símadama þegar svona stendur á. Í dag er ég bara sérlega rauð í innri augnkróknum á því hægra, svo það sleppur svo sem að vera meðal manna. En ég man örugglega minn fífil fegurri.

mánudagur, janúar 16, 2006

Alls kyns grísir 

Í fyrsta lagi eru það fréttir af aðal grís heimilisins. Strumpan á nefnilega að fara í rör á morgun. Hefur erft þessi dásamlegu eyru móður sinnar. Hún er býsna lukkuleg yfir framvindu mála enda mikil áhugamanneskja um læknaheimsóknir. Sagði í gærkvöld stuttu eftir að ég var búin að ræða væntanlega sjúkrahúsdvöl við hana að hún ætlaði núna á sjúkrahúsið og að það væru víst liðnir tveir dagar. Ég vona bara að þessi dvöl bæli gleðina ekkert niður.
Hinn grís heimilisins er nýr af nálinni og heitir vo-grís (held ég). Ég lít að minnsta kosti út eins og fjarlægur (en of nálægur) ættingi fílamannsins, með einhvern risa ofvöxt á neðra augnloki. AAAARRRGGHH! Ég þoli ekki afskræmingar-veikindi.

föstudagur, janúar 13, 2006

Ég er orðin systir :) 

Ég gleymdi að segja frá því að ég var formlega tekin inn í LC á miðvikudagskvöld. Það var mjög áhugaverður fundur - aðallega fyrir þær sakir að mér sýnist að enduruppeldið á mér sé að skila sér.
Þannig var nefnilega að til okkar kom Sunna Borg en hún er orðin hómópati og var að segja frá þessum undraheimi öllum. Nema hvað, ég sat og fussaði inni í mér yfir allri dellunni sem rann upp úr henni. Það er bara ekki til sá hlutur sem er ekki hægt að laga eða minnsta kosti bæta með þessum fínu pillum. Það er reyndar ekki hægt að lækna krabbamein og aids og svoleiðis leiðindapestar en maður getur að minnsta kosti fengið eitthvað gott við því sem lætur manni líða vel.
Ég veit reyndar ekki hvernig ég hefði tekið þessu fyrir ári eða tveimur, sumt kemur mér strax fyrir sjónir sem bull en öðru er ég opin fyrir. En eitthvað segir mér að áróðurinn heima fyrir sé að síast inn. Maður verður nú samt að standa fast á sumu!!!

fimmtudagur, janúar 12, 2006

Gráu hárin 

Það er ekki ofsögum sagt að maður sé að verða gráhærður (hverju sem um má kenna - hækkandi aldri, erfiðri vinnu, erfiðu barni...), að minnsta kosti fann ég í gær hvorki meira né minna en þrjú grá hár í toppnum og eitt daginn þar áður. Veit ekki hvort ég þori að líta í spegil í dag.
Annars var gengið betur frá bílamálum í dag og niðurstaðan sú hin sama og var í síðustu bloggfærslu. Mikið er annars mikil bloggleti að ganga þessa dagana. Það er varla að maður þurfi að líta í bloggheiminn nema einu sinni í viku! (ein á háum hesti - heilar fimm færslur í janúar :)

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Bílapælingar 

Það hefur legið fyrir síðustu mánuði að huga að bílamálum, þar sem Corollan er í leigu sem rennur út í byrjun mars. Vitandi að þetta er algjör frumskógur - kaupa (og þá spurning með bílalán, bílasamning) eða leigja, síðan er það nýjan eða notaðan og að lokum hvaða tegund?? Þetta er meira en að segja það og þess vegna höfðum við vaðið fyrir neðan okkur og fórum snemma af stað að skoða.
Einu hugmyndirnar sem við höfðum í kollinum voru þær að það gæti verið gott að vera á fjórhjóladrifnum - aðstæður í Möðruvallastrætinu eru stundum þannig, svoldið asnaleg aðkoma í götuna. Svo var bara mátað og skoðað. Um stund vorum við skotin í Mitsubishi Outlander - þeir eru voða sætir og skemmtilegir að mörgu leyti, síðan færðist ástin yfir á Subaru Imprezu - það er alveg fantagott að keyra þá, en nýjasta ástin er - og allt útlit fyrir að það haldi, þessi hér.
Hann er býsna flottur, svona þegar maður venst honum, mjög framúrstefnulegur og gríðarlega gott að keyra hann. Svo er hann umhverfisvænni en gengur og gerist (Subaru eyðir náttúrulega eins og mofo) og hlaðinn aukabúnaði. Svo hver veit, kannski verðum við komin á svona eintak eftir tæpa tvo mánuði. Júhú.

mánudagur, janúar 09, 2006

Allt í rólegheitum 

Dagskráin undanfarna daga hefur verið eftirfarandi; á fimmtudagskvöld spilaði ég brús með gömlu samstarfsfólki úr Síðuskóla, árviss viðburður um þrettándaleytið. Mikið gaman að því. Á föstudagskvöld fór ég í idol-partý til tengdamömmu, nema hvað tengdamamma var ekki heima svo ég var alein í partýi. Á laugardag fór ég í 85 ára afmælisveislu hjá ömmu, hitti marga ættingja sem ég hef ekki séð óralengi. Í gær fórum við í Vín og fengum okkur ís að hætti hússins og svo gáfum við tengdamömmu svínahrygginn (friðþægingin sem við fengum fyrir að bíða á Kastrup) og buðum okkkur í mat þangað. Gærkvöldið var hins vegar alveg yndislegt - júhú, Krøniken er byrjað aftur á DR1 og ég sá fyrsta þáttinn. Eina sem skyggði á gleði mína var selskapsleysið, það er miklu skemmtilegra að horfa á þessa góðu þætti í selskap.

fimmtudagur, janúar 05, 2006

Samviskuspurningar 

Ég skráði víst nafn mitt á spjald bloggsögu Eyglóar og Pez til að fá að vita eitt og annað sem þeim datt í hug um mig og í framhaldi af því skulda ég tvö svör.
Annars vegar er það spurning Eyglóar - hvað heillar mig við ketti og hins vegar spurning pezkallsins -hvað var það í fari Mumma sem heillaði mig fyrst?

Svarið við fyrri spurningunni er sú að ég er kattahvíslari og var köttur í fyrra lífi. Þar fyrir utan eru þeir hlýir og góðir og mala notalega og ilma (oftast) vel. Svo þegar maður á þrjú dásamleg eintök er auðvitað hægt að tala endalaust um alla kostina.

Svarið við seinni spurningunni hlýtur að vera rassinn. Ég kleip hann að minnsta kosti alveg nógu mikið strax :) - það kom einnig fljótt í ljós að hann var góður að kyssa. Ef ég nefni eitthvað í sambandi við persónuna, þá gladdist ég fljótt yfir því að hann hataði ekki dönsku (enda bara búinn að læra sænsku) og svo held ég að það hafi verið húmorinn sem rak endahnútinn. Ég hef alltaf verið svag fyrir góðum húmor.

mánudagur, janúar 02, 2006

Nú árið er liðið 

Kæru lesendur - takk fyrir lesturinn á gamla árinu og gleðilegt nýtt lesár.

Upprifjun eftir jólin. Allt var eins og það átti að vera (nema hvað ég saknaði kirkjuferðar á aðfangadagskvöld, it's just not meant to be), góður matur, notalegheit og gaman að fylgjast með Strumpunni vaxa til vits og ára.

Jólagjafirnar frá mínum nánustu standa upp úr - ixus frá mínum heittelskaða, ég lofa að setja inn sýnishorn síðar, -ABBA, the movie, frá systur (búnar að horfa saman, með áfastri gæsahúð), Eurovison afmælisdiskur frá bróður og mágkonu, ég á þann konfektmola eftir og að lokum handarafsteypa í gips frá elskulegri dóttur minni.
Að öðru leyti var auðvitað margt góðra gjafa, danskar dvd myndir, kaffi, tónlist o.s.fr.

Spilað með reglulegu millibili, meðal annars Kvikmyndaspilið, fær ágæta einkunn, nýja Trivial Pursuit, ok, Catan, sameoldsameold og að lokum nýja hittið - Rapidough, leirspilið ógurlega sem sló í gegn hjá okkur systrum. Mæli með því, þó svo menn séu gersneyddir listrænum hæfileikum. Það telst síðan til tíðinda að ég spilaði Catan í gær í spilaklúbbnum og vann!!! First time ever.

Átti gott gamlárskvöld með ofurgeðveikum mat. Þar bar hæst önd og gæs ala Ármann, títuberjalamb ala Mummi, grafið lamb ala Helgi og graflax úr Nettó :) Við sátum tvö skötuhjúin yfir skaupinu (gubb gubb nema hvað hið óvænta kom í ljós, Björgvin Frans getur verið fyndinn - hver vissi það?) og röltum út á horn yfir blá-áramótin og nutum ártals og ljósa í boði annarra.

Myndasýning er í boði á 123.is/muha fyrir þá sem vilja að auki fá fréttaannálinn í myndum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?