<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, febrúar 27, 2006

Menningarlega uppeldið 

Það var leikhúsferðin í gær. Við litla fjölskyldan að sjá Kardemommubæinn í uppfærslu Freyvangsleikhússins. Það er skemmst frá að segja að sýningin er unaðsleg. Stundum pínu sveitó en oftar ótrúlega vönduð. Afar flott leikmynd, mjög skemmtilegur leikur hjá mörgum en pínu ofleikur hjá öðrum. Það skrifast væntanlega á Sunnu Borg. Það á að berja fólk niður þegar það tapar sér í röddum og öðru slíku.
Strumpan skemmti sér stórkostlega. Söng með, dillaði sér, veifaði í ræningjana. Lifði sig sem sagt algjörlega inn í stykkið. Það var stór hluti skemmtunarinnar að vera með hana með. Hún ætlar helst aftur að sjá þetta. Missti að vísu pínu einbeitinguna undir seinni hlutanum en það náðist að hífa hana inn aftur með því að taka hana í fangið og spjalla aðeins um það sem var að gerast. Gylfi afi spurði hana svo hvort hún hefði verið hrædd við ræningjana. Sú stutta neitaði því snarlega, bætti svo við, -bara pínu hrædd.
Mæli með þessu! Barnið í manni lifnar líka við.

föstudagur, febrúar 24, 2006

Bakkakötturinn 

Það er kominn tími á að kisumamman standi undir nafni og komi með kisusögur og eins og stundum áður tengjast þær mat. Prinsi minn er aðal sökudólgurinn í málinu eða liggur alla vega alltaf fyrstur undir grun. Í síðustu viku vorum við eitthvað nísk á matinn, hvort það var fyrir nóttina eða eftir morgunmatinn. Að minnsta kosti blasti fyndin sjón við þegar við komum inn í eldhús eftir hungurtímabilið. Þá hafði einhver, væntanlega nær dauða en lífi af hungri, ákveðið að borða það sem í boði var. Að þessu sinni sveskjubiti, sem var í plastpoka. Það var búið að naga vel af einu horninu, enda er allt hey í harðindum og sökudólgurinn hrifnari af sveskubita en ég. Í morgun var Prins hins vegar staðinn að verki - tók við morgunverðinum þar sem ég hvarf frá honum eftir að Strumpa vaknaði!! URR eða kannski hvæs, þvílíkur bjáni. Eins gott að það var ísterta með kaffinu í morgun til að bæta mér þetta upp.

Annars er mikil menningardagskrá þessa dagana. Við fórum á Maríubjölluna í gærkvöld. Fín sýning, þó svo hún standi kannski ekki undir öllu kreminu sem hefur verið hlaðið á hana. En vel þess virði að sjá hana. Líka rass og brjóst í boði. Ég hlakka jafnvel enn meira til að fara á Kardemommubæinn á sunnudag. Við mæðgur teljum ákaft niður og æfum okkur að syngja með. Mikil gleði og tilhlökkun.

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Sveitin fátækari 

Í gær lést tengdaafi í sveitinni eftir rétta viku á sjúkrahúsi. Ekki óvænt, því hann var búinn að vera lélegur lengi. Við höfðum þekkst í rúm níu ár, hittumst fyrst jólin ´96. Okkur kom afar vel saman, enda varla hægt annað. Hann hafði afar notalega og hlýja nærveru. Yfirleitt rólegur, talaði lágt og fór lítið fyrir honum. Einn af þessum gömlu sem hafa upplifað svo miklu meira en maður á sjálfur eftir að gera.
Það var afar fróðlegt að heyra hann segja frá og miðla, sérstaklega um fólkið sitt og sveitina sína. Hann þekkti hvern blett í kringum sig og vildi hvergi annars staðar vera. Það getur auðvitað verið galli en er afar fallegt samt sem áður. Fallegt að vera svo nátengdur sinni þúfu að það er óhugsandi að vera ekki þar. Munkaþverá verður að minnsta kosti fátækari eftir gærdaginn. En það á eftir að fara vel um gamla í garðinum sem hann hélt svo mikið upp á.
Svona er lífið, einu laufinu fátækara á ættartrénu okkar, við söknum þess en vitum að tíminn var kominn og getum glaðst yfir að örlögin héldu honum ekki lengi frá staðnum sínum.

Ég sagði Strumpu tíðindin í gærkvöld. Vissi ekki alveg hvernig ég ætti að snúa mér í því og saknaði þess svolítið að hafa engan guð að grípa í. En Jónatan (froskurinn á leikskólanum) hafði gengið á undan með ágætu fordæmi, var jarðaður með viðhöfn og ég sagði að langafi ætti að fara í kassa, eins og Jónatan og sofa í honum. Þetta varð að miklu atriði, hvernig á eiginlega kassinn hans langafa að vera á litinn?

mánudagur, febrúar 20, 2006

Konudagurinn mikli 

Það var dekrað við okkur mæðgur í gær í tilefni dagsins. Fengum góðar gjafir upp í rúm að morgni en skiptum svo liði til að gleðjast sem mest sitt í hvoru lagi. Strumpan fór að leira með pabba sínum, ég fór aftur að sofa:) Eftir blund var síðan dýrindis morgunverður. Seinni partinn fórum við í Vín (eins og allir hinir) og svo var það óvænti kvöldverðurinn. Sá reyndist vera kengúrukjöt. Það smakkaðist vel, var reyndar afar meinlaust. Að lokum var svo ofur terta og kaffi (langar einhvern í tertu og kaffi seinni partinn í dag, svo hún gangi nú kannski út?)

Ég verð síðan að víkja aðeins að Eurovision (sem ég horfði á endursýnt í gær eftir að vera á djamminu á laugardagskvöld). Úrslitin að sjálfsögðu ekki óvænt en ég var afar ánægð með þáttinn í heild. Sérstaklega Pálma Gunn, Bobbysocks og svo vin minn Thomas Lundin. Sá kom sterkur inn að syngja íslensk lög :) Mér fannst Matti síðan vera betri en í fyrra skiptið, Regína kannski heldur síðri, kannski vegna þess að þetta var svo stórfenglegt í minningunni. Ég held að RÚV ætti að íhuga að gera þetta svona vandað næstu árin. Það er svo mögnuð stemming (ekki með n) sem skapast í kringum þetta.

föstudagur, febrúar 17, 2006

Stytting eða öllu heldur skerðing náms 

Það brennur mikið á manni þessa dagana sú fyrirhugaða framkvæmd Þorgerðar Katrínar að skera stúdentsprófið niður. Af einhverjum ástæðum eru margir sem halda að kennarar séu bara að mótmæla af því að þeir eru svo hræddir um að missa starfið. Ég held að það séu fæstir í þeirri stöðu. Hins vegar sjá þeir ekki að þetta gangi upp eins og það er lagt upp með. Það sem mér finnst hvað einkennilegast er, að það er algjör tíska að tala um menntun fyrir alla og einstaklingsmiðað nám. Mér finnst nefnilega að það gangi þvert gegn því að ætla að troða námsefni sem samsvarar 12 einingum niður í grunnskólana - eins og þeir séu að útskrifa alla miðað við þau markmið sem nú eru. Oneinei. Því fer fjarri. Það er engin vafi á því að margir ráða við hraðari og meiri yfirferð. Enda væri það bara af hinu góða að koma því á. En það er sömuleiðis enginn vafi á því að stór hluti ræður ekkert við það sem nú er gert, miðað við núverandi forsendur, hvað þá þegar er bætt við.
Á vef Sverris Páls má finna afar merkilegar umræður á kommentakerfinu, við færslu frá því 8. febrúar. Þar fara einhverjar systur tvær hamförum á móti honum. ÚFF!

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Ofát og sund 

Langur og leiðinlegur dagur í vinnunni í gær. Endaði á maraþonfundi þar sem formaður Félags framhaldsskólakennara reyndi að réttlæta samningana við menntamálaráðherra. Hún náði vægast sagt ekki að kristna mig og fæsta hér held ég. Ég var ekki í stuði til að gera eitt né neitt þegar ég kom heim um sex. Þar af leiðandi skrópaði ég í leikfimi og fór í búðina til að kaupa þægilegan mat. Grilluðu kjúklingarnir voru uppseldir svo ég neyddist til að kaupa hamborgara! Eftir afar sveittan og grísugan kvöldverð hafði ég svoldið samviskubit og það versnaði snarlega þegar Kristín afboðaði göngutúrinn. Til að vinna á samviskubitinu dreif ég mig í sund. Nema hvað, hamborgaraorkan er greinilega bein innspýting (að vísu fer eftirbragðið ekki vel í munni og meltingarvegi) því ég synti kílómeter. Mér er til efs að ég hafi gert það áður. Einhvern veginn man ég skólasundið sem eilíft svindl. Að minnsta kosti eru þá mýmörg ár síðan.

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Síðasta kvöldmáltíð 

Það kom svosem eins og fjórðungur af eyfirsku nauti (rekjanlegt heim að vissum bæ) í hús í gær og gærkvöldið fór að sneiða stykkin í hæfilega parta. Til að halda upp á naut í húsi elduðum við filé og borðuðum um hálf ellefu - bara með smjöri og salti. Jammjamm, það var ekki slæmt. Nú er kistan líka full af góðum mat - þá er það bara að muna eftir því.
Fékk mér svo dásamlegan morgunmat í dag (á eftir seríósinu samt) - latte úr vélinni góðu, haft með í hitakönnu í vinnuna og það get ég sagt, hér hef ég ekki drukkið svona gott kaffi. Spurning að byrja alla morgna svona vel. Þetta er eins og sælgæti.

fimmtudagur, febrúar 09, 2006

Fjarkinn 

Óli fær litlar þakkir fyrir að klukka mig - urr.

Fjórar vinnur sem ég hef unnið um ævina:
- við pökkun á gömlu Kjötiðnaðarstöð KEA
- á kassa í Hagkaup (*hrollur*)
- á sambýli fyrir þroskahefta
- kennari

Fjórar bækur sem ég gæti lesið aftur og aftur:
- Flambards-seríuna e. KM Peyton (á því miður bara tvær)
- nokkrar eftir Theresu Charles (já, *sukh*, ég veit)
- Harry Potter complett e. JK Rowling (enga tölu á hversu oft þær hafa verið lesnar)
- Sitji guðs englar-seríuna e. Guðrúnu Helga
Þetta er hins vegar afar vond spurning, ég les ótal margt aftur og aftur

Fjórir staðir sem ég hef búið á:
- Akureyri (út um allt á Brekku og í Þorpi)
- Reykjavík, Ránargata
- Reykjavík, Nýi Garður
- Reykjavík, Eggertsgata

Fjórir sjónvarpsþættir sem ég fíla:
- Krøniken
- Queer Eye for the straight Guy
- Tíminn líður hratt
- My name is Earl

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
- Danmörk
- Svíþjóð
- Tékkland
- England

Fjórar síður sem ég skoða daglega:
Kisumamma
VMA
Politiken
Gneistinn

Fernt matarkyns sem ég held uppá:
- Súkkulaði
- Nautasteik, rare
- Kökur
- kjúklingur í ýmsu formi

Fjórir staðir sem ég vildi heldur vera á núna:
- Kaupmannahöfn
- Danmörk
- heima, sofandi
- með Mumma á kaffihúsi

Fjórir bloggarar sem ég klukka:
uuuuhhhh

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Ný græja í hús 

Enn á ný staðfestist að maður á ekki að versla við Siemens-búðina. Erum búin að vera þar til að skoða magnara (í ljósi þess að dvd spilarinn breyttist í vinyl-plötuspilara) og sáum í leiðinni alveg forláta kaffimaskínu sem við urðum skotin í. Gældum við að kaupa hana, skoðuðum um hana á netinu og svona og sáum að þetta átti að vera álitleg græja. Nema hvað, á laugardag álpuðumst við inn á Hagkaups-markaðinn og sáum eins kaffigræju en það munaði 10 þúsund í verði. Í gleði okkar keyptum við maskínuna og nú er hellt grimmt upp á. Þvílíkt jumm. Kaffi í morgunsárið, kaffi eftir kvöldmatinn, kvöldkaffi... Þetta endar að vísu í magasári en gott á meðan maður nýtur.

mánudagur, febrúar 06, 2006

Ein sæt frá sumrinu 


föstudagur, febrúar 03, 2006

Gullkornið 

Þegar ég kom að sækja Strumpu í leikskólann í fyrradag, var búið að skrifa gullkorn upp á töflu - samræður sem áttu sér stað í framhaldi af tannverndarumræðu. Spurt var hvort sykur væri hollur fyrir tennurnar og ekki stóð á svari - nei, bara fyrir pönnukökur. Ég þóttist kannast eitthvað við rökfærsluna þó ekkert stæði um hver hefði svarað svona skilmerkilega. Enda stóð ég Sóleyju einu sinni að því að sturta í sig sykri og þá fékk ég álíka svar frá henni. Ég prófaði þessa spurningu svo á henni á leiðinni heim og fékk eitthvað álíka svar og fannst grunurinn þá vera vel staðfestur. Í morgun hins vegar, þegar ég skilaði henni, fékk ég það svart á hvítu, það var dóttir mín sem vissi allt um hollustu sykurs.

Í fyrradag fórum við líka í hundaheimsókn og sáum eina 8 hvolpa (sjá hér, undir íslenski fjárhundurinn - got). Sóley Anna var alveg að tapa sér af gleði og undirrituð reyndar líka.
En minnug þess að ég fór í eina hvolpaheimsókn um 8 ára aldurinn eða þar um bil og nauðaði í mömmu svo vikum skipti á eftir að fá hund (og þetta var Poodle!!!) en sá síðan ljósið seinna að ég væri bara heppin að hafa ekki fengið poodle hund, þá býst ég nú við að það sé gott að liggja svolítið yfir því áður en maður fær sér hund. Allir hvolpar eru æðislegir en það þýðir ekki að maður eigi að stökkva til.

miðvikudagur, febrúar 01, 2006

Raddda-dadda-dara 

Ég er á leið til Danmerkur, Danmerkur, Danmerkur (og þaðan til Svíþjóðar reyndar). Dásamleg uppfinning þetta beina flug. Ich bin ein Däner! Dagsetning 13. - 20. júní.

Annars er ég hjólbeinótt og óstarfhæf eftir leikfimi gærdagsins og mun aðeins fara versnandi. Óli ÓÓÓ stóð undir öllum ó-unum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?